Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Vill leggja sitt af mörkum í að bæta umferðaröryggi
Laugardagur 27. janúar 2024 kl. 06:00

Vill leggja sitt af mörkum í að bæta umferðaröryggi

FKA kona mánaðarins á Suðurnesjum

Bjarnþóra María Pálsdóttir flutti til Sandgerðis fyrir tveimur árum og er framkvæmdastjóri ökuskólans 17.is sem rekur ökuskóla á netinu fyrir landsmenn og sinnir einnig verklegri ökukennslu á Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu.

„Ég starfaði í nokkur ár sem lögreglumaður og í því starfi kynnist maður því miður afleiðingum umferðarslysa. Áhugi minn vaknaði á að láta til mín taka til að bæta umferðaröryggi og ákvað ég því að skipta um starfsvettvang og færa mig alfarið yfir í ökukennslu og rekstur ökuskólans 17.is sem við hjónin höfum átt og rekið í mörg ár. Eiginmaður minn er Sigurður Jónasson lögreglufulltrúi og ökukennari.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Er eitthvað sem gerir verkefnið eða fyrirtækið einstakt, forvitnilegt?

Mig hefur lengi dreymt um að koma kennsluefninu okkar til fólks af erlendum uppruna til að auðvelda þeim ökunámsferlið hér á landi. Það er mér hjartans mál að bæta umferðaröryggi og draga úr slysum og tel ég að betra aðgengi að góðu kennsluefni á fleiri tungumálum sé m.a. lykill að því. 

Ég hef á undanförnum mánuðum unnið að því að færa verkefnavef yfir á ensku, spænsku og arabísku.  Þetta er vefur sem aðstoðar einstaklinga við að æfa sig fyrir skriflega ökuprófið sem hefur reynst mörgum erfitt.

Þá er ökuskóli 1 og 2  kominn út á ensku, ökuskóli 1 á spænsku og við stefnum ótrauð áfram á þessari vegferð. Fyrir mér er þetta ekki síst samfélagslegt verkefni og hefur hjarta mitt slegið í þá átt lengi.

Ég var skiptinemi bæði á Spáni og í Egyptalandi og starfaði einnig sem sjálfboðaliði hjá Rauða krossi Íslands. Sú reynsla skapaði mér víðsýni og jók áhuga minn á tungumálum og ólíkri menningu. Eftir að ég útskrifaðist sem ökukennari hefur áhugi minn á ólíkri umferðarmenningu þjóða aukist verulega en það er þáttur sem taka þarf tillit til í ökunámi eftir að íslenskt samfélag opnaðist til muna.

Til að efla atvinnuþátttöku fólks af erlendum uppruna eru ökuréttindi stór þáttur og þetta er okkar framlag til þess að opna samfélagið fyrir nýbúum þessa lands. Við erum núna að þróa smáforrit til að mæta enn betur þörfum nemendanna okkar og stefnum á að koma fleiri námskeiðum yfir á önnur tungumál. Í mínum huga snýst þetta um að vera raunsær, íslenska er erfitt mál að læra og umferðaröryggi snertir okkur öll sem hér búum.  Ég vil leggja mitt af mörkum til að koma þekkingunni vel til skila fyrir alla vegfarendur í okkar samfélagi.

Er eitthvað áhugavert sem þú ert sjálf að gera?

Ég er dellukona, ég stunda skotveiðar, keyri mótorhjól, fjórhjól og er í jógakennaranámi. Þá er ég ritari stjórnar FKA Suðurnes og sit í stjórn Skotvís sem er hagsmunafélag skotveiðimanna.

Hversu lengi hefur þú búið á Suðurnesjum?

Við erum búin að vera hér á Suðurnesjum í rúm tvö ár og erum alsæl með þá ákvörðun að flytja hingað.  Mér finnst frábært hvað það er stutt í allt, þrátt fyrir ört stækkandi samfélag er umferðin þægileg, það er rólegt í Sandgerði, fólkið yndislegt og okkur var tekið opnum örmum. Það er allt til alls finnst mér og ef eitthvað vantar er örstutt í höfuðborgina. 

Náttúran er einstök hérna og það er alveg ótrúlegt að vera búsett á Suðurnesjum og hafa varla fundið fyrir öllum þessum jarðhræringum undanfarin ár. Sandgerði situr sem fastast og heldur vel utan um okkur.

FKA Suðurnes og ég

Ég er stolt af því að tilheyra FKA Suðurnes enda er þetta hópur kraftmikilla kvenna hér á Suðurnesjum og kom það mér á óvart hve mikil gróska er í atvinnulífinu hér.  Ég ákvað að fara í félagið vegna þess að ég starfa mikið ein og það er enn mikilvægara að eiga gott tengslanet þegar kona starfar sjálfstætt. Ég hafði ekki tekið þátt í starfi FKA áður en ég flutti á Suðurnes en mér fannst góð leið að byrja í landsbyggðardeild sem er smærri í sniðum og þar með auðveldara að kynnast konum í félaginu.

Mér var afskaplega vel tekið og strax opnuðust ný tækifæri fyrir mitt fyrirtæki. FKA Suðurnes er með reglulega viðburði og fræðslufundi og ég hef nýtt mér þetta eins og kostur er til að komast betur inn í samfélagið hérna.

Mitt heilræði til kvenna á Suðurnesjum er að koma og taka þátt. Við tökum vel á móti ykkur.