Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
þriðjudaginn 23. júlí 2024 kl. 14:50
Vill heimsækja heimaslóðir Moniku í Merkigili í Skagafirði
Hin keflvíska Kolbrún Sigtryggsdóttir ætlar sér að eyða tíma í sumar á uppáhaldsstað sínum sem er Reykjaskógur í Bláskógabyggð, þar sem sumarbústaður móður hennar er. Uppáhalds sumarmaturinn er grilluð risarækja og fiskur yfir höfuð.
Nafn, staða, búseta:
Kolbrún Sigtryggsdóttir, mannauðsráðgjafi hjá Reykjanesbæ, bý í Reykjanesbæ.
Hvernig á að verja sumarfríinu?
Bróðir minn og fjölskylda sem búa í Svíþjóð eru að koma til landsins í tíu daga og er planið að eyða tímanum með þeim, fara upp í bústað til mömmu, halda lítið ættarmót, vera í hjólhýsinu og njóta lífsins.
Hver er uppáhaldsstaðurinn á Íslandi og af hverju?
Ætli það sé ekki bara Reykjaskógur í Bláskógabyggð í sumarbústaðnum hennar mömmu. Yndislegt og gott að vera þar. Svo er líka yndislegt að þvælast um landið í hjólhýsinu þegar veður leyfir.
Hvaða stað langar þig mest á sem þú hefur ekki komið á (á Íslandi og eða útlöndum)?
Mig langar að heimsækja heimaslóðir Moniku í Merkigili í Skagafirði, hún var mikill kvenskörungur og systir langömmu minnar. Svo langar mig mikið að fara til Japans.
Er einhver sérstakur matur í meira uppáhaldi á sumrin?
Grillaðar risarækjur og bara allur fiskur.
Hvað með drykki?
Aperol Spritz og Prosecco.
Hvað með garðinn, þarf að fara í hann?
Nei, ég gerði garðinn þannig að það þarf ekkert að gera nema slá smá grasblett og kaupa nokkur sumarblóm. Ekkert að mála neinn pall eða grindverk, allt viðhaldsfrítt :)
Þarftu að slá blettinn eða mála húsið/íbúðina?
Málaði húsið í fyrra, laus við það en já, slá blettinn.
Veiði, golf eða önnur útivist?
Var að skrá mig Golfklúbb Suðurnesja, ætla að reyna að vera dugleg á vellinum.
Tónleikar í sumar?
Nei ekkert planað en skelli mér mögulega á Mannakorn í Hljómahöll í september.
Áttu gæludýr?
Á kött og páfagauk.
Hver er uppáhaldslyktin þín (og af hverju)?
Bombshell og Tease frá Victoria Secret og Hugo Boss Magnetic sem karlinn notar yfirleitt.
Hvert myndir þú segja erlendum ferðamanni að fara/gera á Suðurnesjum?
Ég myndi byrja á því að sýna honum vefsíðuna visitreykjanes.is þar sem hægt er að finna allar upplýsingar um Reykjanesið. Myndi benda honum á áhugaverð svæði í Geopark. Síðan myndi ég benda honum á Vatnaveröld og Bláa lónið, söfnin okkar í Reykjanesbæ, Duus safnahús, Byggðasafnið, Listasafnið og Rokksafnið. Mæla með að kíkja Reykjaneshringinn, skoða Gunnuhver, Brimketil, brúnna milli heimsálfa, kirkjurnar og vitana svo eitthvað sé nefnt.