Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Vill Gretti sterka á hvíta tjaldið
Gunnar hefur þegar skrifað tvö handrit sem eru algjörlega hans hugarburður. Hann er svo nýlega búinn með handrit að stuttmynd sem hefur gert það gott erlendis.
Sunnudagur 26. mars 2017 kl. 06:00

Vill Gretti sterka á hvíta tjaldið

Handritshöfundurinn Gunnar ingi gerir það gott

Gunnar Ingi Halldórsson hefur skrifað kvikmyndahandrit að Grettis sögu sem komst í úrslit í tveimur stórum handritakeppnum í Hollywood og vakið nokkra athygli. Hann vinnur að fleiri spennandi verkefnum og hefur fundið fjölina sína í skrifum.

Gunnar, sem er fimmtugur, starfaði áður fyrir True North og Saga film við það að keyra fólk í kvikmyndageiranum. Þar keyrði hann meðal annarra Christopher Nolan sem er þekktur fyrir Batman myndirnar og Interstellar. „Þar kynntist ég honum og handritshöfundum hans og ég hugsaði með mér, fyrst að þeir geta þetta, hversu erfitt getur þetta verið? Ég viðaði svo bara að mér upplýsingum á netinu um hvernig ætti að byggja upp handrit,“ segir Gunnar sem hefur lengi verið mikill kvikmyndaáhugamaður. Hann settist svo niður eitt kvöldið og ákvað að skrifa Grettis sögu. „Fyrsta ævintýramyndin sem ég heillaðist af var Conan the Barbarian, Grettis saga er svipuð henni, bara miklu betri. Þetta er saga sem mér finnst að þurfi að komast á hvíta tjaldið.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Það tók Gunnar þrjá mánuði að skrifa fyrsta uppkast. Handritið sendi hann svo í keppni og var þar bent á að breyta þurfti endinum. Það tók aðra þrjá mánuði að fínpússa handritið og bæta endinn. „Minnsti tíminn af handritaskrifum fer í að skrifa. Mesti tíminn fer í það að hugsa. Þegar ég var að skrifa handritið þá þurfti ég að bæta nýjum endi við söguna, um 36 síðum. Það tók mig fimm daga að hugsa það en aðeins tvo daga að skrifa. Þú verður að sjá þetta alveg fyrir þér sem kvikmynd. Þú verður að ímynda þér allt saman. Hvort þú viljir spennu eða drama. Mesta vandamálið er að skrifa samtölin.“ Gunnar hefur gert það gott með handritið í keppnum erlendis og segir hann allar umsagnir um myndina vera á þá leið að framleiða eigi þessa mynd.

Víkingamyndir heitar um þessar mundir

Handrit Gunnars af Grettis sögu hefur vakið þó nokkra athygli og er sem stendur í söluferli. Honum hefur verið tjáð af reyndum mönnum í kvikmyndabransanum hérlendis að þetta verði bíómynd. Framleiðslan er þó umfangsmikil og því þarf fjársterka aðila til þess að framleiða myndina. Gunnar segir að það sé erfitt að selja afurðina enda er samkeppnin mikil. Það sé miklu erfiðara en að skrifa sjálf handritin. Stóru íslensku kvikmyndafyrirtækin eru nú sem stendur öll í startholunum með framleiðslu á víkingamyndum þannig að víkingaþema er heitt um þessar mundir.

Gunnar er ekki öllum stundum við handritaskrif, hann horfir á þetta þannig að í staðinn fyrir að spila golf þá situr hann og skrifar. „Allir hafa sína sögu að segja og þetta er eitthvað sem ég hef ótrúlega gaman af að gera,“ segir Gunnar sem byrjaði frekar seint að fást við skrif.
„Þegar ég var á frystitogara á mínum yngri árum þá skrifaði ég oft bréf heim til mömmu. Hún hvatti mig alltaf til þess að skrifa meira. Mér fannst ég ekki tilbúinn í það fyrr en þessi áhugi kom upp núna fyrir rúmum þremur árum.“ Gunnar er fæddur í Keflavík en hann ól manninn á Seltjarnarnesi. Hann fluttist svo aftur til Reykjanesbæjar árið 2014. Gunnar fæst við ýmislegt dagsdaglega. Hann er vinstri hönd konu sinnar sem rekur veitingahúsið KEF á Hótel Keflavík. Hann fer svo reglulega í ferðir með fólk úr kvikmyndageiranum á jökla og spennandi staði.