Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Vill ekki vera forréttindapjakkur
Laugardagur 7. mars 2015 kl. 09:00

Vill ekki vera forréttindapjakkur

Leikstjóri Leikfélags Keflavíkur segist læra mikið af öllum störfum.

Leikarinn og Keflvíkingurinn Davíð Guðbrandsson stýrir sínu fyrsta sviðsverki um þessar mundir í Frumleikhúsinu í Reykjanesbæ. Þar frumsýnir Leikfélag Keflavíkur á næstunni sýninguna Killer Joe. Sjálfur var Davíð í leikfélaginu frá 1994-1999, þegar hann komst í Leiklistarskólann - og leiklistarbakterían var þar með komin til að vera.

„Þetta er í fyrsta skipti sem ég fæ að bera ábyrgðina sjálfur, rífa svolítið kjaft og segja 'I'm the boss' á æfingum og láta hlýða mér og svona“, segir Davíð og glottir. Honum finnst greinilega gaman að fá að bera hitann og þungann af verkinu og ákvörðunin með að taka það að sér var ekki erfið. „Þótt ég sé með ótrúlega gott fólk með mér, þá eru ákvarðanirnar svolítið mínar og það er nýtt fyrir mér. „Mig hafði langað að gera þetta lengi og í raun gamall draumur að fá að koma til baka og vinna með Leikfélaginu.“ 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Úr sýningunni Belgíska Kongó í Borgarleikhúsinu. 

Mikill þroski fæst í leikhússtarfi

Davíð segist vera Keflvíkingur, ekki Reykjanesbæingur. „Við erum nokkrir sérvitringar að því leyti. Ég var aldrei nógu góður í fótbolta, sundi eða körfubolta sem maður þurfti að vera til að meika það í heimabænum þá. Ég ólst svolítið upp í leikfélaginu hér og fann mig svo mikið þar. Kom hingað fyrst 1994 í gamla Félagsbíó og var tekið opnum örmum. Lék fyrst í Stígvélaða kettinum. Eftir það var eiginlega aldrei spurnig um að gera nokkuð annað. Það er líka mikill þroski fyrir ungt fólk að taka þátt í leikfélagsstarfi. Þetta er góður félagsskapur fólks á öllum aldri og þessu fylgir mikil ábyrgð.“ 

Með Ilmi Kristjánsdóttur í Hárinu 2004.  

Kann vel við sig í svörtu, gluggalausu rými

Í framhaldi af því sótti Davíð um í gamla Leiklistarskóla Íslands, komst inn og útskrifaðist úr Listaháskólanum fjórum árum síðar. „Ég var í einum af þeim bekkjum sem gert var tilraunir með varðandi nám. Fór í framhaldi af því að vinna á heimili fyrir aldraða öryrkja. Það var líka mikill skóli. Svo lék ég fljótlega í Borgarleikhúsinu og með leikhópi sem settu upp söngleikinn Hárið í Austurbæjarbíó og svo í Kallakaffi, sællar minningar.“ Næstu fimm árin lék Davíð svo í  Borgarleikhúsinu og segist að upplagi þykja vænt um leikhús og kunna vel við sig í svörtu, gluggalausu rými. 

Við leikstjórn hjá Leikfélagi Keflavíkur. 

Varð þakklátari fyrir önnu störf

Undanfarin 6-7 ár hefur Davíð starfað sjálfstætt. „Það er ‘fansí’-orðið, en ég hef oft þó verið atvinnulaus og snúið mér að öðru. Hef þó unnið við sjónvarp, kvikmyndir, talsetningar o.þ.h. Einnig var ég aðstoðarleikstjóri í kvikmyndinni Fölskum fugli sem ég framleiddi ásamt nokkum öðrum fyrir örfáum árum. Hef einnig fengið frábær hlutverk og tekið þátt í skemmtilegum sjónvarpsverkefnum og kvikmyndum“. Þá segist Davíð einnig hafa fengið tækifæri til að kynnast því hve mikil vinna fer í að koma handriti að frumsýningu. „Ég varð þakklátari fyrir starf hins fólksins þegar ég er að leika því leikarastarfið virkar auðvelt og lítið snúið í samanburði við margt sem aðrir gera.“ 

Dubbel Dusch í Borgarleikhúsinu.  

Gott að beisla orkuna í leiklist

Stærsti draumurinn vinnulega segir Davíð vera að fá að gera sitt lítið af hverju. „Maður verður háður þessari leikarabraut þegar maður er kominn á hana. Hún er stutt, maður sér fyrir endann á verkefnunum og er alltaf að kynnast nýju fólki og nýjum efnivið. Þó er gaman að staldra við í vinnu af öðrum toga inni á milli. Vera ekki bara forréttindapjakkur sem fær að gera það sem hann vill gera. Maður hefur dálítið gott af því að neyðast út í önnur djobb og taka dálítið á sér og kynnast sjálfum sér í leiðinni,“ segir Davíð brosandi en vonar þó að hann haldi áfram að gera það sem hann er að gera. „Það er ótrúleg hreinsun í því og góð leið til að beisla orkuna og koma tilfinningunum í farveg; fá að vera einhver annar en ég fæ að vera í daglegu lífi því samfélagið hefur kennt mér annað. Kannski sem betur fer,“ segir Davíð að lokum.  

VF/Olga Björt