Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Viljum tengja þjóðirnar betur saman
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
miðvikudaginn 4. nóvember 2020 kl. 16:54

Viljum tengja þjóðirnar betur saman

Fjölbreytt dagskrá á pólskri menningarviku í Reykjanesbæ

„Við erum að fylgja eftir pólskum menningarhátíðum í Reykjanesbæ undanfarin tvö ár en auðvitað hefur Covid-19 mikil áhrif á það hvernig við stillum henni upp. Við erum búnar að gera margar útgáfu því reglurnar vegna veirunnar hafa stöðugt verið að breytast síðustu vikurnar. En við höldum að þetta verði nú samt skemmtilegt og fróðlegt,“ segja Pólverjarnir Monika Dorota Kruś og Marta Magdalena Niebieszczanska en þær eru verkefnastjórar þriðju pólsku hátíðarinnar sem nú fer fram dagana 1.-8. nóvember í Reykjanesbæ.

Þær Monika og Marta segja verkefnið hafa verið mjög skemmtilegt þrátt fyrir margar áskoranir vegna veirunnar. Búið sé að setja upp dagskrá með tilliti til þeirra takmarkana sem eru vegna Covid-19. „Saman í krafti fjölbreytileikans“ er yfirskrift hátíðarinnar þar sem nú sem fyrr er lögð áhersla á að tengja þjóðirnar betur saman en um fjórðungur íbúa í Reykjanesbæ er af erlendum uppruna og stærstur hluti hópsins eru Pólverjar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Tengjum saman þjóðirnar

Við viljum virkja okkar fólk betur og kynna ýmislegt fyrir þeim sem er í gangi hér á Suðurnesjum. Þá viljum við líka kynna Pólland betur fyrir Suðurnesjamönnum. Það er eitthvað skemmtilegt í gangi alla dagana sem hátíðin stendur yfir og margar skemmtilegar hugmyndir hafa komið upp á borð. Við virkjum leikskólana, fáum leiðsögn um merkilega staði og fólk á svæðinu, bjóðum upp á myndlist og bílabíó og svo er ýmislegt sem tengist mat líka á dagskránni. Ekki má heldur gleyma veglegri barnadagskrá,“ segja þær en Monika hefur búið í Reykjanesbæ í fimm ár og hefur m.a. verið leiðbeinandi hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum. Marta sem hefur búið á Íslandi í þrettán ár hefur verið dugleg við að tengja þessar vinaþjóðir saman, m.a. með því að halda úti vefsíðu með fréttum frá Íslandi á pólsku. Allir viðburðir á hátíðinni verða til að mynda í boði á samfélagsmiðlum, Facebook-síðum Reykjanesbæjar og Bókasafns Reykjanesbæjar.

Monika segir að þær hafi haft samband við leikskólana í bænum og beðið þá um að gera eitthvað með krökkunum en fjöldi barna á leikskólunum eru pólsk. „Pólverjar eru mjög ánægðir með leikskólana og það er mikið leitað til mín um þau mál. Í Póllandi eru starfandi leikskólar fyrir börn frá þriggja ára aldri en dagmæður taka yngri börn.“ Monika segir að þær hafi fengið skemmtilegt myndskeið  frá Tjarnarseli þar sem börnin og starfsmenn syngja saman á pólsku. „Fimm ára dóttir mín er þar í vistun og hún kom hlægjandi heim á föstudaginn og sagði að það hafi verið skemmtilegt að syngja saman á pólsku.“ Það verður eitthvað fyrir krakka flesta daga á Bókasafni Reykjanesbæjar.

Plaköt og bílabíó

Meðal þess sem í boði er á hátíðinni er sérstök sýning þar sem plaköt með ýmsum upplýsingum um Póllandi er að finna. Hugmyndin er að Pólverjar sem og Íslendingar geti notið fróðleiks og fengið enn meira en stendur á plakötunum með því að smella á svokallaðan QR-kóða á plakötunum. „Margir Pólverjar hér á Suðurnesjum sakna heimahaganna og þeir geta þarna yljað sér við þessar upplýsingar. Um leið geta Suðurnesjamenn kynnt sér betur hvað er í boði í landi sem er með annan menningarkúltúr og auðvitað eru margir fallegir og áhugaverðir staðir í Póllandi. Þarna bendum við til dæmis á marga staði sem eru ekki mjög þekktir en eru mjög áhugaverðir,“ segir Marta.

Stórt vegglistaverk

Þá verður málað vegglistaverk á stóran vegg aftan við gömlu Sundhöll Keflavíkur.

Á síðustu menningarhátíðum hafa Pólverjar boðið Suðurnesjamönnum í matarveislu en af því getur ekki orðið núna. Þess í stað verða sýnd myndbönd þar sem bæði Suðurnesjamaður eldar pólskan mat og Pólverji eldar íslenskan fisk.

Á föstudagskvöld verður svo bílabíó á Ásbrú. Þrjá sýningar verða í boði þar sem sýndar verða myndir sem hafa vakið athygli en þessi framkvæmd er í samstarfi við Bíó Paradís. Myndirnar sem verða sýndar eru „Cold war“, Panic attack og Mug og verða þær sýndar kl. 17, 19 og 21.

Pólsk stemmning á Tjarnarseli

Í tilefni af pólsku menningarhátíðinni hafa börniná leikskólanum Tjarnarseli skapað listaverk innblásin af pólskri menningarhefð. Verkin eru nú til sýnis í gluggum Tjarnarsels.

Eldri börnin hafa líka verið að læra lagið höfuð, herðar, hné og tær á pólsku sem hefur verið einstaklega skemmtilegt. „Pólsku nemarnir okkar eru enn að jafna sig eftir hlátursköstin við að sjá kennarana sína brasa við að syngja á pólsku en þau hljóta að jafna sig á því  blessuð börnin,“ segir á Fésbókarsíðu Tjarnarsels en þar má líka sjá myndbandið með söngnum.

https://www.facebook.com/Leiksk%C3%B3linn-Tjarnarsel-144586655714415/