Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Viljum skapa skemmtilegt heilsueflandi samfélag 
Matthías Freyr Matthíasson.
Marta Eiríksdóttir
Marta Eiríksdóttir skrifar
laugardaginn 22. febrúar 2020 kl. 07:41

Viljum skapa skemmtilegt heilsueflandi samfélag 

Meginmarkmið Heilsueflandi samfélags er að styðja samfélög í að vinna með markvissum hætti að því að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lifnaðarháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa. Í slíku samfélagi er heilsa og líðan íbúa í fyrirrúmi í stefnumótun og aðgerðum á öllum sviðum. Með innleiðingu Heilsueflandi samfélags vinna sveitarfélög einnig að innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.

Sveitarfélagið Vogar gerðist Heilsueflandi samfélag í ágúst síðastliðnum og er Matthías Freyr Matthíasson, íþrótta- og tómstundafulltrúi, tengiliður verkefnisins. Sveitarstjórnin hefur mikinn áhuga á að stuðla að heilsueflingu íbúa og hleypti af stað átaki í janúar á þessu ári í því skyni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Mjög spennandi verkefni

„Með þessu samkomulagi við Landlæknisembættið skuldbundum við okkur til að stuðla að heilsueflingu bæjarbúa og skapa hér heilsueflandi samfélag. Ég er tengiliður verkefnisins og finnst þetta mjög spennandi verkefni. Gaman verður að sjá hversu áhugasamir íbúar verða með okkur en við erum búin að skipuleggja viðburði þar sem við viljum bjóða íbúum óháð aldri að vera með,“ segir Matthías.

Viðburðir fyrir íbúa

„Okkur datt í hug að virkja íbúa með því að hleypa af stað áskorendakeppni íbúa í janúar og í hverjum mánuði verður viðburður á vegum okkar. Keppnin er sett upp til að hvetja íbúa til að stunda heilsusamlegt líferni og setja sér markmið yfir árið. Og auðvitað er tilgangurinn að hafa gaman og fá fólk til að taka þátt, vera með í að skapa skemmtilegt samfélag hér í Vogunum. Ekkert sveitarfélag er með svona viðburði eins og við í hverjum mánuði, svo við getum kallað þessa hugmynd nýsköpun og hópefli í leiðinni. Við viljum höfða til allra, einstaklinga og fjölskyldna að vera með á þessum viðburðum. Sjá þetta verkefni blómstra,“ segir Matthías glaður í bragði.

Áskorendakeppni

„Þegar íbúi kemur, og tekur þátt í þeim viðburði sem er í boði þann daginn, þá setur viðkomandi nafn sitt í þar til gerðan pott. Verða slíkir pottar aldursskiptir, annars vegar fyrir fullorðna og hins vegar fyrir ungmenni átján ára og yngri. Ekki er skilyrði að taka þátt í öllum viðburðum ársins. Í lok ársins 2020 verða stigin svo talin saman og vegleg verðlaun veitt við hátíðlega athöfn á gamlársdag, við sama tilefni og þegar verðlaun til íþróttamanns ársins eru afhent,“ segir Matthías.

Skemmtileg stemmning á meðal íbúa í Vogunum

Það hlýtur að vera áskorun að byrja átakið að vetrarlagi því ekki er alltaf hægt að reikna með veðrinu, eins og til dæmis í febrúar þegar búa á til „Snjókallakeppni“. Hvað ef það verður engin snjór Matthías?

„Já, í febrúarmánuði ætlum við að hafa snjókallakeppni daginn eftir öskudag, þann 27. febrúar. Auðvitað getum við ekki reiknað út veðrið en ætlunin er að hafa plan B sem við tilkynnum íbúum á heimasíðu sveitarfélagsins þegar nær dregur. Við ætlum að kynna betur hvern viðburð fyrir sig, svona fjórum dögum áður, en það gerum við á samfélagsmiðlum okkar. Það gekk vel í janúar þegar við vorum með viðburðinn „Komdu í sund!“ en eitt af því sem íbúar hér njóta góðs af er að allir fá frítt í sund, alla daga, allt árið. Tilgangur viðburðanna er útivist, samvinna og að skapa skemmtilega stemmningu á meðal íbúa, að hafa gaman saman,“ segir Matthías að lokum, um leið og hann hvetur alla íbúa til að vera með og taka þátt.