Viljum öll hafa landið okkar fagurt
-Óskar Ívarsson starfar hjá Hreinsunardeild Reykjanesbæjar.
„Ég byrjaði að vinna hjá bænum árið 1982 þegar ég var 21.árs gamall en þá hafði ég verið að vinna í fiski í Stóru milljón. Pabbi minn, Ívar Magnússon, var þá einnig að vinna í því frystihúsi en pabbi vildi frekar að ég færi að vinna hjá bænum því karlarnir í frystihúsinu voru oft leiðinlegir við mig og treystu mér ekki. Þeir leyfðu mér heldur ekki að vinna yfirvinnu. Svo við pabbi hættum báðir að vinna þarna og fórum frekar að vinna hjá bænum.“
Gott að vinna hjá bænum
„Við bjuggum í Garðinum þá og ég keyrði okkur í vinnuna á morgnana til Keflavíkur. Við vorum með nesti í hádeginu en fengum heitan mat á kvöldin sem mamma eldaði en hún var að vinna í fiski hjá Nesfisk í Garði á daginn. Foreldrar mínir eru báðir látnir en mamma hét Ursula Magnússon og var þýsk. Ég er hálfur Þjóðverji og kunni meira í þýsku þegar mamma var á lífi. Ég fór oft með foreldrum mínum til Þýskalands á bíl með Norrænu en ég á ættingja þar. Mér líkar mjög vel við karlana sem ég er að vinna með hjá Reykjanesbæ. Þeir eru stundum að gogga í mig og ég gogga í þá á móti því þetta er allt í gríni. Mér finnst gaman í vinnunni, sérstaklega á sumrin þegar það er svona bjart úti, þá er ég einnig hressari á morgnana eins og allir hinir. Ég vinn frá klukkan sjö á morgnana til klukkan þrjú á daginn en á föstudögum vinn ég bara til klukkan hálfeitt.“
Fólk má ganga betur um
„Mér finnst gaman að sjá bæinn okkar hreinan. Fólk spyr mig stundum hvernig í ósköpunum ég nenni þessu en ég svara með því að mér líkar betur að vinna úti en að vera innilokaður á skrifstofu. Ég fæ hreyfingu og ferskt loft í vinnunni, það er bara gott. Fólk má alveg ganga betur um bæinn, stundum er mikið rusl í umhverfinu. Það er ekki gott þegar fólk er að skrúfa niður bílrúður og henda rusli út um gluggann, það er hræðilegt og ekki hægt að líða. Við viljum öll hafa hreint í kringum okkur og landið okkar fagurt. Það hefur ekki mikið breyst umgengnin síðan ég byrjaði hér árið 1982 en stundum finnst mér túristar sóða meira út. Þeir koma á húsbílum og tæma í ruslakassana sem yfirfyllast sem er ekki gott.“
Gaman í Boccia
„Stundum er ég þreyttur þegar ég kem heim á daginn en samt fer ég í Boccia einu sinni í viku og spila með Íþróttafélaginu NES. Það er gaman. Ég var að keppa um helgina með þeim á Akureyri og vann tvo leiki í einstaklingskeppni og tapaði einum. Í sveitakeppni gekk okkur ágætlega og komum heim með gull.“