„Viljum helst höfða til allra“
Stórhuga eigendur pitsustaðarins í Sandgerði.
Ingi Sigurðsson og Svandís Ósk Helgadóttir tóku fyrir skömmu við rekstri veitingastaðarins Mamma Mia í Sandgerði. Í sama húsnæði bjóða þau einnig upp á hársnyrtiþjónustu. Víkurfréttir litu við hjá þeim.
Börnin hjálpa til
„Við vissum að staðurinn væri til sölu og Ingi hefur unnið við pitsugerð í 18 ár. Okkur langaði í okkar eigið fyrirtæki og ákváðum að kýla á þetta. Við höfum því verið að keyra þetta á pitsunum, bjórnum og boltanum. Svo bættum við grilllínunni við, þar sem við erum með hamborgara og steikur,“ segir Svandís Ósk. Hún hefur búið í Sandgerði síðan sumarið 2011 en Ingi síðastliðin 12 ár. Þau hafa innréttað rými í húsinu með klippistofu svo að Svandís Ósk getur einnig boðið upp á slíka þjónustu og nýtt þannig sitt nám. „Viðtökur hafa verið mjög góðar. Klippið fer rólega af stað og það er ágætt að það sé þannig. Við erum með eina 9 mánaða, Ingi á þrjú börn fyrir og ég eitt. Tvö elstu búa og vinna hjá okkur. Þau fá dýrmæta reynslu og allir hjálpast að.“
Sjúklega góðir kanilsnúðar
Stefnt er á að hafa opið í hádeginu þegar fram líða stundir. „Við vorum að fá kaffikönnu frá Kaffitár og getum boðið upp á gott kaffi. Draumurinn er að geta verið með kaffihúsafíling í sumar. Við gerum kanilsnúða úr pitsudeiginu, sjúklega góða þó ég segi sjálf frá,“ segir Svandís Ósk og hlær. Með haustinu og jafnvel í sumar langar þau svo að hafa opið einhver hádegi; víkka starfsemina smám saman út. Þá hafa veislur vegna barnaafmæla og þrítugsafmælis verið haldnar hjá þeim og þau eru opin fyrir öllu. Fótboltaleikir eru sýndir á stórum skjá og annar stór flatskjár er frammi í sal svo að hægt er að hafa tvo leiki í gangi í einu.
Grundvöllur fyrir skemmtistað líka
„Einnig er á planinu að vera með trúbadorakvöld og smá ballstemningu. Við erum með svo stórt vínveitingaleyfi að við getum haft opið til 4 um helgar. Gæti samt tekið lengstan tíma að virkja það,“ segir Svandís Ósk og bætir við að það gæti verið grundvöllur fyrir því fyrir þá sem vilja lyfta sér upp í heimabænum og spara leigubílakostnað. „Vil viljum helst höfða til allra því staðurinn er dálítið tímalaus. Sætin og bekkirnir í fremri salnum eru úr gamla Naustinu frá 1954. Einnig erum við með barnaherbergi og er staðurinn því afar fjölskylduvænn.“
„Kjöta sig upp“ vinsælust
Margir þekkja staðsetninguna frá því verslunin Aldan var þar um langt skeið. Annars segir Svandís Ósk þau nota Facebook til að vekja athygli á staðnum og setja þar inn efni. „Vinsælasta pizzan heitir Kjöta sig upp og á henni eru allar helstu kjöttegundirnar og barbeque sósa yfir. Hróður ostabrauðstanganna sem við búum til hafa borist mjög víða. Það er ostur inni í stöngunum.“ Eins og er býður staðurinn upp á heimsendingar frá fimmtudegi til sunnudags og tilboð til að sækja á þriðjudögum og miðvikudögum. „Þó er alltaf að aukast að fólk setjist inni í sal og njóti matarins þar,“ segir Svandís Ósk að lokum.