Vilja planta trjám í stað þess að sleppa blöðrum
Umræða um blöðrusleppingar í upphafi Ljósanætur.
„Ég legg til að þessari iðju verði sleppt í framtíðinni og að við komum þeim skilaboðum til barnanna að við þurfum að hlúa að jörðinni en ekki að menga hana. Mín tillaga væri að planta trjám í staðinn í landi bæjarins,“ segir Tómas Knútsson, stofnandi Bláa hersins og umhverfisverndarsinni, á Facebook síðunni „Reykjanesbær - gerum góðan bæ betri“.
Tillaga Tómasar hlýtur töluverðan hljómgrunn, meðal annars hjá bæjarfulltrúa Framsóknarmanna í Reykjanesbæ, Kristni Þór Jakobssyni, sem skrifar í innleggi að hann hafi lagt til á fundi í bæjarráði Reykjanesbæjar í morgun að á degi náttúrunnar, 16. september n.k., yrðu íbúar Reykjanesbæjar hvattir til að safna trjáfræjum og trjástiklingum og gróðursetja á svæðinu ofan Melavegar og svæðinu ofan fótbolta Njarðvíkur (Njarðvíkurskóga).
Víkurfréttir birtu fyrir skömmu grein eftir Ásdísi Ólafsdóttur líffræðing og Snjólaugu Ólafsdóttur umhverfisverkfræðing þar sem þær hvöttu til þess að snúa setningarathöfn Ljósanætur í langlífari og umhverfisvænni skemmtun.