Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Vildum hafa færri bolta á lofti en grípa þá alla
Þórunn hefur tekið á móti mörgum framlögum í Velferðarsjóð Suðurnesja.
Laugardagur 14. febrúar 2015 kl. 17:23

Vildum hafa færri bolta á lofti en grípa þá alla

segir Þórunn Þórisdóttir rekstrarstjóri Keflavíkurkirkju

Haustið 2006 sat ég í sóknarnefnd Keflavíkurkirkju. Þá áttum við starfsfólk og sóknarnefnd saman uppbyggilega stund í Skálholti þar sem hafin var vinna að nýrri stefnumótun fyrir safnaðarstarfið. Að baki voru tímar sundurlyndis og deilna en framtíðin lofaði engu að síður góðu og ýmis fyrirheit voru um betri stöðu safnaðarins.

Fljótlega kom í ljós að forgangsröðunin var ekki eins og við vildum hafa hana. Starfsfólk, sóknarnefnd og aðrir leikmenn lögðust á eitt til að breyta hugsunar- og vinnuhætti innan Keflavíkursóknar. Við einbeittum okkur að því að breyta menningunni í söfnuðinum og þar með einbeita okkur að ákveðnum verkefnum. Við vildum hafa færri bolta á lofti en grípa þá alla. Farið var af stað og spurningar lagðar fyrir ýmsa hópa í samfélaginu. Við fengum sjálfboðaliða með okkur í lið í stefnumótunarvinnuna. Myndaðir voru smáhópar til að vinna með hvernig við gætum breytt og bætt barna- og æskulýðsstarf, kærleiksþjónustu og sjálboðaliðastarf.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Nýjar aðstæður í kjölfar brottflutnings hersins og efnahagshruns kölluðu á nýjan hugsunarhátt. Þá kom sér vel að Keflavíkurkirkja var búin að mynda nýja stefnu sem gaf okkur betri tækifæri til að leggja krafta okkar í ákveðin verkefni.

Velferðarsjóður á Suðurnesjum

Í byrjun október 2008 fóru sóknarnefnd, starfsfólk og sjálfboðaliðar Keflavíkurkirkju í helgarferð í Skálholt þar sem við fórum yfir stefnumálin. Hugmynd kom upp um að stofna sjóð sem myndi styðja við Suðurnesjamenn. Daginn eftir að heim var komið hrundi efnahagur landsins og Geir H. Haarde forsætisráðherra bað Guð að blessa Ísland.

Keflavíkurkirkja varð leiðandi í því að mynda þennan sjóð. Hugmyndir voru bornar upp við alla þá sem komu að starfi við náungann, s.s. bæjarfélög svæðisins, Rauði krossinn, sjúkrahúsið, félagasamtök og líknarfélög.

Hjálparstarf kirkjunnar var með okkur í þessari vinnu og hjálpaði okkur að mynda reglur fyrir sjóðinn og skilgreina umsóknarferlið. Öll nýsköpun og fjáröflun snerist um Velferðarsjóðinn. Haldnir voru markaðir, tónleikar og ýmsir viðburðir. Við hvöttum fólk til að styðja við sjóðinn og svo sannarlega brást samfélagið við á þessum erfiða tíma því frá okt.-des. 2008 söfnuðust 20 milljónir í sjóðinn. Allt framlög frá samfélaginu. Í dag hafa safnast um 60 milljónir í sjóðinn sem er einstakt og vitnisburður um það hversu gott samfélag okkar er.

Allir fái heita máltíð

Við þurftum að greina þörfina. Við vildum að öll börn fengju heita máltíð í hádeginu. Því hefur sjóðurinn greitt skólamat fyrir um 60 börn og ungmenni á degi hverjum yfir vetrarmánuðina. Við vildum að öll börn fengju jöfn tækifæri til að stunda íþróttir og tónlistarnám. Því greiðum við slík gjöld. Ein leið til að sporna við fátækt er menntun. Því var lögð áhersla á að greiða framhaldskólagjöld, efniskostnað og námsgögn fyrir börn og ungmenni.

Allir skjólstæðingar þurfa að koma með göng sem sýna allar tekjur og öll mánaðarleg útgjöld.  Ef fólk er við þau viðmiðunarmörk sem sett eru, með tilliti til fjölskyldustærðar, þá fær það aðstoð. Aldrei eru beinharðir peningar settir yfir borðið.

Í desember 2010 sáum við að aldursdreifing af skjólstæðingum var á þann hátt að 65% var undir þrítugu. Við gerðum okkur grein fyrir því að við urðum að gera eitthvað annað og meira en það sem við höfðum verið að gera. Við vildum styðja við fólk og hjálpa því að styrkjast og vaxa. Hjálpa því að vera sterkari að taka á móti hverdagsleikanum.

Við vorum með ýmis námskeið þar sem fólk lærði að fara betur með verðmæti og efla sig á ýmsan hátt. Við prófuðum okkur áfram, sumt virkaði og annað ekki.  

Fólkið í Keflavíkurkirkju voru frumkvöðlar og kirkjan var leiðarljós í samfélaginu. Í kirkjunni okkar byrjaði starf sem ekki var til staðar á þessum tíma. Síðan hafa aðrir hópar tekið við og bjóða þjónustu við atvinnuleitendur og öryrkja í uppbygginu. Við finnum nú að sú þörf sem við sinntum þá er ekki sú sama og í dag.   

Hvernig getum við hálpað?

Með því að rýna til gagns, spyrja okkur hvað við erum að gera vel og hvað erum við að gera illa, hvað erum við að gera sem er mikilvægt og hvað erum við að gera sem er ekki mikilvægt. Með því að þora að reyna ýmislegt og með því að þora að gera mistök þá komumst við að því hvað það er sem virkar og hvað virkar ekki. Með því að styrkja ungmenni til mennta getum við rofið vítahring fátæktar.

Ef ekki væri fyrir einstaklinga, líknarfélög, starfsmannafélög og fyrirtæki sem legðu sjóðnum lið þá væri þessi sjóður ekki til og fyrir það viljum við þakka.

Í Matteusarguðspalli segir Jesús:

Því hungraður var ég og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég og þér hýstuð mig, nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég og þér komuð til mín.

Á þessum orðum krists byggist líknarstarf kristinnar kirkju.

Þórunn Þórisdóttir

Rekstrarstjóri Keflavíkurkirkju