„Vildum alls ekki svona týpíska tónleika“
-Söngvaskáld á Suðurnesjum 2018
Tónleikaröðin Söngvaskáld á Suðurnesjum heldur áfram göngu sinni í Hljómahöll á nýju ári þar sem fjallað verður um tónlistarmenningu Suðurnesja en óhætt er að segja að hún hafi hlotið góðar viðtökur undanfarin ár þar sem uppselt hefur verið á flesta tónleika.
Að þessu sinni verður fjallað um Rúnar Júlíusson eða Hr. Rokk, fjöltónlistarmanninn Magga Kjartans og svo Bjartmar Guðlaugsson. Skipuleggjendur og flytjendur eru að venju þau Dagný Maggýjar, Arnór B. Vilbergsson og Elmar Þór Hauksson.
Að sögn Dagnýjar eru þau alltaf jafn spennt fyrir verkefninu og er þegar farið að vinna lagalista og handrit. „Þetta er alltaf skemmtileg byrjun á árinu, að takast á við eitthvað nýtt og krefjandi og kynnast nýjum tónlistarmönnum og nýjum lögum. Svo leitumst við líka við að kynna ýmislegt sem fólk vissi ef til vill ekki um þessa tónlistarmenn og draga fram í dagsljósið óþekktar perlur.”
Arnór, Elmar Þór og Dagný í Keflavíkurkirkju.
Eruð þið ekkert farin að verða uppiskroppa með tónlistarmenn?
„Nei alls ekki, við erum svona að fikra okkur áfram í átt að nýrri tónlist en í ár erum við með stórar kanónur sem eru Rúnni Júll og Maggi Kjartans og svo eigum við Gunna Þórðar alveg eftir. Þeir yngjast líka upp tónlistarmennirnir eftir því sem á líður og verður skemmtilegt að takast á við það.
Að sögn Dagnýjar verða tónleikarnir með svipuðu sviði þar sem áhersla er lögð á notalega og heimilislega stemningu. „Við vildum alls ekki hafa þetta svona týpíska tónleika, þolum illa formlegheit og vildum bara hafa þetta afslappað og á persónulegum nótum. Við segjum söguna á milli laga og bregðum upp myndum og myndbrotum frá ferli söngvaskáldanna svo það má eiginlega segja að þetta sé „live“ heimildarmynd,” segir Dagný og hlær. Við höfum sjálf mjög gaman af þessu og myndum aldrei gera þetta öðruvísi. Vonandi njóta gestir eins og við.”
Rúnni Júll verður fyrstur í röðinni þann 6. febrúar, fjallað verður um Magga Kjartans 1. mars og tónleikaröðinni lýkur með Bjartmari þann 5. apríl. Miðasala fer fram á hljomaholl.is og er miðaverð kr. 3.700. Boðið er upp á afslátt fyrir þá sem kaupa miða á alla tónleikaröðina.