Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Vildu gera eitthvað uppbyggilegt og fluttu á Ásbrú
Mánudagur 2. maí 2011 kl. 09:59

Vildu gera eitthvað uppbyggilegt og fluttu á Ásbrú

Una Kristín Árnadóttir og Björn Sverrisson búa með þremur börnum sínum í nemendaíbúðum Keilis á Ásbrú. Una á ættir sínar að rekja í Mývatnssveitina en Björn kemur frá Siglufirði. Þau voru með eigið fyrirtæki í innréttingasmíði en þegar efnahagskreppan skall á fór mjög að draga úr verkefnum fyrir fyrirtækið þeirra og að lokum misstu þau sjálf vinnuna.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


„Það var annað hvort að fara að skæla og vera þunglyndur yfir öllu saman eða að fara og gera eitthvað gott. Við ákváðum því bæði að skella okkur í nám,“ segir Una Kristín.

Eftir hrunið hafi reksturinn orðið erfiðari og erfiðari með hverjum mánuðinum. Ellefu starfsmenn voru hjá fyrirtækinu fyrir hrun en þeim fækkaði næstum um hver mánaðamót. Eins var húsnæði dregið saman frá því að vera 900 fermetrar og niður í 200 fermetra. Björn segir að undir það síðasta hafi hann verið orðinn einn eftir í fyrirtækinu og það hafi ekki einu sinni dugað til og því sjálfhætt.
„Tæpu ári eftir hrunið ákvað ég að gera eitthvað uppbyggilegt og setti því stefnuna á að læra að reka fyrirtæki,“ segir Björn.



Byrjuðu bæði í námi hjá Keili

Unu vantaði grunninn í sitt nám og byrjaði því í háskólastoðum. Þaðan fór hún í fjarnám hjá Keili en Björn fór í staðnámið. Hann segir það hafa gengið prýðilega, enda góð aðstaða hjá Keili og mjög góðir kennarar. Þá hafi námsefnið verið tekið vel og þétt yfir árið þannig að undirbúningurinn hafi verið góður fyrir áframhaldandi nám í viðskiptafræði í Háskólanum í Reykjavík. „Ég kom mjög vel undirbúinn fyrir það nám frá Keili og ekki getað haft það betra, enda ekki verið í skóla í þrettán ár“.


Una er í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands og segist hafa fengið að heyra það hvað Keilisnemendur hafa komið vel undirbúnir undir námið við HÍ og að hjá Keili sé greinilega verið að kenna nemendum að fara inn í háskólann.


„Sumir sem eru með mér í náminu hafa sagt að þeir hafi viljað fara í Keili til að koma sér í gang fyrir háskólanámið,“ segir Una Kristín. Björn bætir því hins vegar við að hann hefði viljað vera lengur í námi hjá Keili og getað menntað sig meira þar. Hann kunni það vel við Keili og þá aðstöðu sem þar er til náms. „Það er þægilegt að geta labbað hér niður í skóla og ég hefði ekki þurft að hugsa mig tvisvar um ef frekara nám hefði verið í boði fyrir mig,“ segir Björn.



Ekki erfið ákvörðun að flytja á Ásbrú


Þau Una og Björn segja það ekki hafa verið erfiða ákvörðun að rífa sig upp og setjast að á Ásbrú. Íbúðirnar séu góðar og það fari vel um þau. „Þau sem eru að reka þetta eru elskuleg og yndisleg og bregðast alltaf vel við ef það er eitthvað sem þarf að laga,“ segja þau bæði.


Una byrjaði í fjarnámi við Háskóla Íslands og var þá heimavið og tók námið í lotum. Núna fara þau hins vegar bæði með rútunni í skólann á morgnana og koma aftur heim síðdegis. Börnin þeirra eru á sama tíma í sínum skólum á Ásbrú. Tvö þeirra í Háaleitisskóla og það yngsta í leikskólanum Háaleiti. Þau Una og Björn hrósa bæði Háaleitisskóla og leikskólanum Háaleiti fyrir gott starf. Þau segjast kunna að meta það átak sem gert hefur verið í agamálum í skólanum og börnin komi sátt heim alla daga. Þá kemur yngsta dóttirin syngjandi heim úr leikskólanum.


Þau benda á að aðstæður þeirra sem búa á Ásbrú séu mismunandi. Nú stefni í að elsta barnið á heimilinu fari næsta haust í Njarðvíkurskóla í stað þess að halda áfram í Háaleitisskóla. Elsta barnið á heimilinu hafi haft það verkefni að fylgja yngri systkinum sínum í skólann og leikskólann því foreldrarnir taki rútuna á sama tíma til Reykjavíkur til að fara þar í sitt nám. Það verði breytingar á þessu í haust sem finna þurfi lausn á innan fjölskyldunnar.



Góðar samgöngur til Reykjavíkur


Þau Una og Björn eru ánægð með tíðar rútuferðir milli Ásbrúar og Reykjavíkur og hrósa þeim samgöngum. Þegar til Reykjavíkur er komið nýti þau sér strætisvagna til að komast á áfangastað. Flesta daga eru þau svo komin aftur heim milli kl. 15 og 17. Flestir nýti sér það á morgnana að leggja sig í rútunni á leiðinni í bæinn en undanfarið hafa þó verið heitar umræður um Icesave. Þá sé einnig hægt að fara á netið í rútunni. Þau segja að með tíðum samgöngum á milli Reykjavíkur og Ásbrúar hafi þau náð að láta skólatíma sinn og barnanna ganga upp. Þau hafi tvo aðila á Ásbrú til að leita til ef upp koma vandræði en þau hafi ekki þurft að nýta sér það til þessa.



Vilja vera áfram á Ásbrú


Fjölskyldan getur hugsað sér að vera áfram á Ásbrú. Þannig segist Björn vera að velta því fyrir sér að fara í sjávarútvegsfræði. Hún sé aðeins kennd við Háskólann á Akureyri en hins vegar sé hægt að stunda hana í fjarnámi frá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum. Þá sé hann til staðar á Suðurnesjum.


Börnin á heimilinu eru einnig sátt við lífið og tilveruna á Ásbrú. Elsta dóttirin hefur verið í BRYN ballett akademíunni og sonurinn tók þátt í gospelkórnum hjá Hjálpræðishernum síðasta vetur.