Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

  • „Vildu allt fyrir mig gera“
  • „Vildu allt fyrir mig gera“
Laugardagur 16. maí 2015 kl. 09:00

„Vildu allt fyrir mig gera“

Sá tækifæri í veðráttunni á Íslandi og lagði grunn að samstarfi tveggja flugskóla.

Þegar Jenný María Unnarsdóttir talaði um að ætla að fara í flugnám voru viðbrögðin oft á þá leið að hún fengi aldrei vinnu við það, ekkert væri að gera í þessu og að námið væri rándýrt. Þegar hún var svo komin lengra í náminu varð fólk mun jákvæðara. „Ég þurfti þó alveg virkilega að sýna fram á að þetta væri eitthvað sem ég ætlaði mér. Fólkið mitt hefur þó alltaf stutt mig í því sem ég hef tekið mér fyrir hendur og allir hafa sýnt mér virkilega mikinn stuðning. Kærastinn minn hefur einnig staðið við bakið á mér eins og klettur þó að hann sé ekkert tengdur fluginu, “ segir Jenný María. Faðir hennar, Unnar Stefánsson, er flugvirki og móðir hennar, María Isabel Grace Fisher, var flugfreyja hjá Icelandair í 13 ár.

„Við systkinin ólumst upp í þessum flugheimi og fórum mikið til útlanda í stað þess að ferðast innanlands. Við tvíburabróðir minn vorum búin að rífast dálítið um það hver ætti að verða flugmaðurinn í fjölskyldunni. Hann langaði alltaf að verða flugmaður en er svo flugveikur að hann getur það ekki. Ég er samt alltaf að hvetja hann til að láta á það reyna því sagt er að líkaminn aðlagist,“ segir Jenný María, en undir niðri langaði hana alltaf að læra flug. Hún segir að þau tvíburasystkinin séu ekki mjög lík en hafi mótað hvort annað mjög mikið.



Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Komin í flugmannsætið á tvíþekju í skemmtigarði. 

Alsæl skotta á svip um borð í flugvél. 

Systkini með systkinum

„Við vorum þrjú systkinin sem fæddumst á þremur árum. Mamma og pabbi voru búin að reyna að eignast barn í níu ár þegar við systkinin komum loks í heiminn. Þremur árum síðar kom litli bróðir og hann barðist um athyglina. Ég varð að vera frekar sjálfstæð til þess að týnast ekki í þessum göslaraskap á heimilinu. Í íþróttum var ég ein af 30 strákum í fótbolta þar til ég varð11 ára. Ég hef alltaf átt auðvelt með að eignast strákavini, það byrjaði fyst í gegnum bróður minn. Við áttum alltaf í smá innri samkeppni en við vorum mjög náin og lærðum t.d. alltaf saman.“ Til marks um það hversu samtaka þau systkin eru náðu þau sér fyrir fjórum árum í systkini sem kærustu og kærasta, alveg óvænt.



Öll fjölskyldan. 

Spilaði við jarðarför ömmu sinnar

Jenný María byrjaði snemma að skipuleggja sig. Hún æfði körfubolta og lenti nokkrum sinnum í landsliðsúrtökum. Hún lærði einnig á píanó og tekur aðeins í það ennþá til að finna ró og útrás við að skapa. „Amma mín dó í fyrra og hafði fyrir mörgum árum beðið mig um að spila við jarðarförina sína. Það var mjög erfitt en gekk samt ótrúlega vel, engar feilnótur slegnar og ég fann fyrir einhverjum auka styrk meðan á því stóð.“

Mæðgurnar. 

Jenný María segist vita hvað hún vill og gera það sem hún getur til að komast þangað sem fyrst. Ég fór á kynningu í FS árið 2010, nýbyrjuð í skólanum. „Á þeim aldri þegar maður er svona ósjálfstæðastur, allt svo stórt og nýtt.“ Hún var búin að týna vinkonum sínum á þemadögunum og gekk framhjá stofunni þar sem Keilir var með kynningu, en flugskólinn var stofnaður 2008. „Ég settist aftast og út í horn og þorði ekki að spyrja að neinu. Fyrir tilviljun rakst ég síðar á konu sem hafði staðið að kynningunni og þorði loks að spyrja nokkurra spurninga og hún bókaði mig í kynnisflug í framhaldi af því. Eftir kynninsflugið fann ég að þetta var eitthvað sem ég ætlaði mér að gera í framtíðinni, það var á kristaltæru.“

Keilir og Keilir. 

Nemendurnir og starfsfólkið eru skólinn

Jenný kláraði stúdentspróf frá FS á þremur árum og fór svo beint í flugnámið. „Ég hef verið mjög ánægð með námsferlið hjá Keili. Verklegi þátturinn dró mig að í fyrstu enda er skólinn með bestu kennsluvélar á landinu að mínu mati. Ég bý að því að hafa kynnst fólki hvaðanæva úr heiminum því að Íslendingar eru orðnir í minnihluta meðal nemenda hjá flugakademíunni.“ Hún segir námið snúast mikið um nemendurna og þeir, ásamt starfsfólkinu, geri skólann að því sem hann sé. „Mér fannst allir alltaf vera til í að reyna að gera sitt besta í að láta hlutina ganga upp. Það var ég ánægð með,“ segir Jenný María. Misjafnt sé hvers konar hugarfar fólk hafi með gagnvart námi. Jenný María segist hafa lagt sig fram við að vera kurteis og gefa eitthvað auka af sér og fékk það rúmlega til baka frá starfsfólki skólans. „Ég fékk til að mynda að taka þátt í skemmtilegum verkefnum á vegum skólans, kynningum, opnum dögum og öðru slíku. Einnig tók ég að mér það verkefni að flytja útskriftarræðu fyrir hönd bekkjarins. Það var sko sannarlega áskorun en engu að síður rosalega skemmtilegt.“

Einkaflugmannsnámið kláraði Jenný María á rúmlega hálfu ári og er að klára blindflugið (síðustu hluta af atvinnuflugmannsnáminu) á næstu vikum. „Þá verð ég í þeirri stöðu að geta farið í flugkennaranám og einnig get ég sótt um vinnu í haust hjá lágfargjaldaflugfélagi sem dæmi. Maður veit í rauninni ekki alveg hvað maður er að fara út í ef maður fer síðarnefndu leiðina vegna þess að maður getur verið látinn fljúga út úr fjölmörgum flugvöllum í Evrópu. Manni er bara úthlutað eitthverjum heimavelli þegar að því kemur. Hér heima er ég ekki með neinar skuldbindingar svo ég gæti auðveldlega haldið út í slíkt ævintýri og finnst það vera spennandi kostur vegna minna persónuaðstæðna og aldurs. Það er líka eflaust þroskandi að vinna fjarri heimalandinu. Maður kemur líklega víðsýnni heim, kann gott að meta og verður ánægðari fyrir vikið.“



Friðrik Ólafsson, yfirkennari hjá Keili og Jenný María

Stuðlaði að samstarfi tveggja flugskóla

Flugakademía Keilis og European American Aviation (EAA) í Flórída undirrituðu fyrir skömmu samstarfsyfirlýsingu sem auðveldar nemendum Keilis að sækja tímasöfnun í Bandaríkjunum og nemendum erlendis frá að koma í skírteinabreytingu hér á landi. Þetta samstarf varð til vegna þess að Jenný María fór tvisvar til Flórída til að reyna að uppfylla flugtímafjölda sem þurfti til að hefja blindflugsnám. Veðrið á Íslandi gerði flugmönnum og flugnemum erfitt fyrir í vetur. „Ég hefði aldrei náð að ljúka við tímanna hér á landi vegna veðurs. Það var mjög þroskandi að fara þarna út og algjörlega treysta á sjálfa mig. Þetta er reynsla sem ég mæli hiklaust með fyrir hvern þann sem hefur kost á.“



Jenný María segist hafa varið hálfri önninni í að koma skírteinabreytingu í gegn í náminu og setja upp ferðina í heild sinni enda algjörlega að vaða út í djúpu laugina í fyrra skiptið. „Ég hef alltaf haft gaman af því að aðstoða aðra og þegar ég var í náminu var ég reiðubúin að svara fyrirspurnum í gegnum Facebook.
 Skólinn á Flórída er í eigu þýskra hjóna sem vildu allt fyrir mig gera. Þetta gekk allt saman bara eins og í sögu. Ég nefndi svo við eigandann úti að sniðugt væri fyrir skólana tvo að fara í einhvers konar konar samstarf. EAA myndu fá að vita með u.þ.b. 2-3 mánaða fyrirvara hversu mörgum nemendum væri von á og á sama tíma myndi þetta létta á flota skólans hér heima og að sjálfsögðu gera nemendum kleift að fljúga marga tíma á stuttu tímabili vegna góðrar veðráttu. Hann ætlaði að skoða það.“

Kærastinn Viktor og faðirinn Unnar. 

Fjölmargar fyrirspurnir

Jenný hélt síðan heim á leið, ekki alveg búin með flugtímana sem þurfti til að byrja blindflug og ekki komin með vinnu. „Ég ákvað þá bara að gera kynningu í power point fyrir Keili um EAA og hvað samstarfið biði upp á. Ég var reglulega í sambandi við aðila frá Keili á þessu nokkurra mánaða tímabili á milli ferða til Florida enda langaði mig mikið að samstarfið yrði að veruleika. Í apríl fór ég aftur út, þá með fjölskyldunni og skólinn úti reddaði mér fjórum flugtímum á dag svo sú ferð var því einnig frí meðfram fluginu.“ Þarna var eigandi flugskólans úti kominn með allar upplýsingar og skrifaði undir viljayfirlýsingu um samstarf. Jenný var beðin um að vera alveg yfir þessu máli sem tengiliður á milli skólanna tveggja og aðstoð fyrir nemendur. „Ég ætlaði ekki að fá neitt fyrir þessa hugmynd en er mjög spennt að fá að halda utan um þetta verkefni. Það er yndislegt að fá að hjálpa til við að láta drauma annarra rætast. Nú þegar, er einn nemandi frá EAA búinn að bóka sig í bóklegt atvinnuflugmannsnám hjá Keili í samstarfi við skólann á Flórída og í skírteinabreytingu. Ég hef fengið fjölmargar fyrirspurnir um þetta samstarf frá því að það var gert opinbert fyrir örfáum vikum.“ Spennandi verði að sjá hvernig samstarfið þróist enda frábært tækifæri fyrir nemendur Keilis.



Ásamt kærastanum Viktori Gíslasyni. 

Með vinkonum í flugi. 

Hindranir eru yfirstíganlegar

Jenný María mun starfa við innritun hjá IGS í sumar, samhliða því að sjá um samstarf Keilis og skólans í Flórida. „Ég er því tengdari fluginu heldur en síðustu tvö sumur en þá vann ég hjá Landsbankanum. Ég fylgdist með mömmu og pabba hjá Icelandair og hef því alltaf sagt að þar ætli ég mér að enda einn daginn.“ Hún segir það alltof oft gerast að fólk geri ekki nákvæmlega það sem það vilji gera af einhverjum ástæðum. „Ég vil eindregið hvetja fólk að taka fyrsta skrefið í átt að draumum sínum eða markmiðum, sama hversu stórir draumarnir eða fjarlægur áfangastaðurinn virðist vera. Það er aldrei of snemmt eða of seint. Hindranirnar sem koma upp verða síðan allflestar yfirstíganlegar vegna þess að fólk hefur áhuga eða ástríðu fyrir því sem það er að gera hverju sinni.“

VF/Olga Björt