„Vildi sýna fólki að það er allt hægt“
Arnar Helgi Lárusson kláraði sitt fyrsta maraþon um síðastliðna helgi þegar Reykjavíkurmaraþonið fór fram í blíðskaparveðri. Arnar hljóp ekki eins og venja þykir heldur fór hann kílómetrana 42 á handaflinu einu saman. Arnar er lamaður frá brjósti og niður og fór hlaupið í venjulegum hjólastól en ekki sérhönnuðum keppnisstólum eins og oft eru notaðir. Þetta var í fyrsta sinn sem Arnar fer svona langa vegalengd en hann fer jafnan um 15 kílómetra leið frá heimili sínu í Innri-Njarðvík nokkrum sinnum í viku. Ferðin hjá Arnari tók 5 klukkustundir og 8 mínútur á laugardaginn og kveðst hann mjög sáttur við þann tíma. Arnar hóf hlaupið aftastur og fyrstu 10 kílómetrana fór Arnar á klukkutíma og 3 mínútum, sem er undir meðaltíma þeirra sem einungis hlupu 10 kílómetra.
Eftir rúma 20 kílómetra segir Arnar að hann hafi lent harkalega á veggnum margfræga og ósýnilega sem hlauparar tala oft um. „Það var bara eins og einhver héngi aftan í stólnum hjá mér. Ég hélt jafnvel að það væri eitthvað fast í dekkinu og ég var við það að fara að stoppa og athuga hvort það væri eitthvað að. Ég hugsaði þó að ef ég myndi stoppa þá væri þetta bara búið, það var ekki í boði,“ segir Arnar. Hann náði þó að yfirstíga þá erfiðleika og þegar leið á 30 kílómetrana hugsaði Arnar með sér að núna væri bara eftir æfingahringur eins og hann er vanur að fara. „Síðustu 10 kílómetranir voru því nokkuð góðir því það sem hafði haldið í stólinn sleppti takinu, hvort sem það var andlegt eða líkamlegt.“
Arnar er duglegur að æfa í lyftingarsalnum en hann hefur aldrei tekið þátt í skipulögðu hlaupi áður og aldrei farið meira en rúma 20 kílómetra á stólnum. Hann var heldur ekki í íþróttum áður en hann lamaðist í slysi fyrir 10 árum síðan. „Ég ætlaði ekki að vera síðastur, það er í raun eina markmiðið sem ég setti mér,“ Arnar gerði gott betur en það og hafnaði í kringum 600. sæti af rúmlega 800 keppendum. „Keppnin byrjaði fyrst eftir þessa rúmu 20 kílómetra sem var ótrúlega erfiður kafli,“ segir Arnar sem er augljóslega mikill keppnismaður og frekar þrjóskur að eigin sögn.
Arnar segir að allir hlauparar hafi tekið honum ótrúlega vel og hann segir samstarfið við þá sem stóðu að hlaupinu hafa verið mjög gott. „Ég byrjaði bara aftast og hélt mig til hlés þangað til að dreifast fór úr fólksfjöldanum. „Ég ætlaði ekki að reyna að taka framúr einhverjum í þvögunni og eiga á hættu að slasa mig eða einhvern annan.“
Arnar segir að ferðin hafi verið erfið og þá sérstakelga þar sem hitinn var mikill og á köflum hreyfðist vindurinn varla. „Það eru kaflar í hlaupinu sem ég man varla eftir, eins og í Laugardalnum þar sem var skjólsamt og heitt,“
Undirbúningurinn hefur tekið þrjú ár og Arnar segist ekki vita til þess að nokkur Íslendingur hafi farið maraþon á almennum hjólastól en það er talið mun erfiðara en á sérstökum keppnisstól sem eru hannaðir fyrir íþróttir. Þannig stólar eru gríðarlega dýrir og Arnar ákvað að taka bara slaginn á almennum stól eftir að hafa eytt miklum tíma og kröftum í að standsetja keppnisstól sem hann hafði keypt notaðan á internetinu. Hann vildi ekki vera að láta fólk vita að hann ætlaði sér að taka þátt því hann vildi ekki setja aukna pressu á sjálfan sig.
„Þessi draumur kviknaði fyrir nokkrum árum síðan. Ég vissi að ég væri þokkalega sterkur í efri líkamanum og gæti hugsanlega gert þetta með mikilli og agaðri þjálfun.“ Arnar var ekki með neina þjálfara eða ráðgjafa varandi hlaupið heldur gerði hann sjálfur æfingakerfi sem hann fór eftir. Hann lagði sérstaka áherslu á að þjálfa þolið í vöðvum í öxlum og höndum en það eru fremur litlir vöðvar sem fljótlega verða þreyttir. „Mig langaði bara að sýna fólki að það er allt hægt. Tilfinningin að klára þetta er frábær og í raun ólýsanleg,“ segir Arnar sem var þó byrjaður af sjá að hann væri að fara að klára hlaupið þegar rúmir 30 kílómetrar voru að baki.
Sóley Bára Garðarsdóttir, kona Arnars hjólaði með honum alla leiðina og segir Arnar að stuðningur hennar hafi verið ómetanlegur í erfiðustu brekkunum. Aðspurður hvort hann ætli sér að gera þetta aftur þá segir Arnar að hann ætli að melta þetta aðeins. „Ég get ekki verið með of miklar yfirlýsingar en þá verð ég að gera þetta af alvöru og fá mér alvöru keppnisstól,“ sagði Arnar.
Arnar og Sóley Bára kona hans.