Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Vildi alltaf hafa spunaspilin með
Eyþór ásamt dóttur sinni
Thelma Hrund Hermannsdóttir
Thelma Hrund Hermannsdóttir skrifar
laugardaginn 17. september 2022 kl. 15:00

Vildi alltaf hafa spunaspilin með

Frístundin

„Regla númer eitt í spunaspilunum hjá okkur er að allir eiga að skemmta sér,“ segir Eyþór Árni Úlfarsson, umsjónarmaður Spilahópsins Uppspuni. Eyþór byrjaði að spila spunaspil þegar hann var á fjórtánda ári og segir það vera ómissandi hlut í sínu lífi. „Ég fann að þetta væri eitthvað sem ég vildi alltaf hafa í mínu lífi, alveg sama hvað annað ég var að gera. Jafnvel þegar ég var að ganga í gegnum hin og þessi tímabil í lífi mínu, ég vildi alltaf hafa spunaspilin með,“ segir Eyþór. 
Hvernig kviknaði þessi brennandi áhugi á spunaspilum?

„Það er löng saga. Ég byrjaði að spila spunaspil þegar ég var á fjórtánda aldursári. Það einhvern veginn lukkaðist þannig til að góður vinur minn sem heitir Kristján fékk helling af bókum, teningum og ýmsu öðru efni til þess að læra að spila spunaspilið Dungeons and Dragons í fermingargjöf frá vinum sínum. Gaman að segja frá því að Kristján er einn klárasti maður sem ég hef kynnst. Hann tók sér einhverjar tvær vikur í að lesa og læra allt um spilið og svo hittumst við, ég og Kristján og annar vinur okkar, og hann lét okkur búa til karaktera, fór yfir það skref fyrir skref hvað við ættum að gera og í raun kenndi okkur þetta frá a til ö. Við spiluðum svo reglulega saman í mörg ár, yfirleitt í stofunni heima hjá mömmu minni og pabba. Við vorum þrír fyrsta árið en svo var einn og einn sem var að detta inn og út. Það leið ekki á löngu fyrr en við fórum að prófa önnur spil.“

Þú hefur ekki hætt síðan þá?

„Það er mjög mismunandi hvort fólk haldi áfram í þessu þegar það verður fullorðið eða ekki. Sumir missa áhugann og sumir hafa ekki tíma. Ég fann að þetta væri eitthvað sem ég vildi alltaf hafa í mínu lífi, alveg sama hvað annað ég var að gera. Jafnvel þegar ég var að ganga í gegnum hin og þessi tímabil í lífi mínu, ég vildi alltaf hafa spunaspilin með.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Eyþór fór af stað með skipulagða klúbbstarfsemi fyrir spunaspilara í Reykjanesbæ. Hvernig kom það til?

„Í kringum árið 2007 var ég í föstum spilahópi sem spilaði alltaf reglulega. Ég sat heima hjá mér og var að velta því fyrir mér hvað það gerði mér gott að spila spunaspil, hvað ég fékk mikið út úr því. Ég kynntist svo mörgu fólki í gegnum þetta og fannst svo gaman að geta tjáð mig með öðrum hætti í gegnum spilið. Mér datt þá í hug að það þyrfti að vera einhver starfsemi í Reykjanesbæ sem byði upp á að taka að sér ákveðna týpu af ungu fólki sem hefði kannski áhuga á sci-fi eða fantasy-myndum, -þáttum eða tölvuleikjum, í raun þessar „nördatýpur“. Þetta fólk er sjaldan í íþróttum og á kannski ekki auðvelt með samskipti og félagslega þáttinn. Það var enginn sem bauð upp á eitthvað slíkt hérna svo ég ákvað að ég myndi taka á skarið.“

Hvernig gekk það?

„Ég var rosalega kvíðinn fyrir því að láta reyna á það en ég var rosalega einbeittur og mig langaði til þess að láta þetta verða að veruleika. Það var fólk tilbúið til að letja mig, það var einn strákur sem sagði við mig að hann hefði prófað að búa til einhvers konar klúbb með svipuðu sniði á sínum tíma og að það hefði ekki gengið. Ég ákvað samt að reyna og ég hafði samband við umsjónarmann 88 Hússins, Hafþór Barða, því ég vissi að það var staður sem bauð upp á ýmsa félagsstarfsemi. Ég hringdi í hann og ég byrjaði að reyna að tjá mig og segja honum frá þessari hugmynd en var augljóslega mjög stressaður. Hann skildi ekki alveg hvert ég var að fara með þetta og sagði við mig: „Heyrðu vinur, það hljómar eins og þú sért með ágætis hugmynd en gætir þú sett þetta niður á blað og sent mér tölvupóst um það hver pælingin er?“ Ég man hvað það var mikill léttir, ég skrifaði mjög langan og ítarlegan texta um hugmyndina og sendi honum í tölvupósti. Ég var tilbúinn til þess að halda utan um þetta og þessi starfsemi ætti ekki að kosta, ég tjáði honum að ég vissi að það væri ákveðinn hópur fólks sem þurfti á þessu að halda og hver ávinningurinn yrði. Það voru ekki liðnir nema tveir eða þrír dagar þegar hann hringdi í mig aftur og sagði að honum litist mjög vel á þetta og vildi að starfsemin myndi byrja sem fyrst.“

Lagði spilin á hilluna fyrir föðurhlutverkið

Klúbburinn fékk heitið Spunaspilaklúbburinn Ýmir og varð starfsemin fljótt mikil. Hópurinn hittist tvisvar í viku og um það bil 80 einstaklingar lærðu að spila og tóku þátt í klúbbnum á því tíu ára tímabili sem Eyþór sá um hann. Árið 2015 urðu tímamót í lífi Eyþórs en þá eignaðist hann dóttur sem varð til þess að hann lagði spilin á hilluna um skeið. „Ég á gullfallega litla stelpu og ég tók ákvörðun þegar hún fæddist að ég ætlaði að helga mig allan að uppeldi hennar. Ég setti þetta þá svolítið í hendurnar á fólki sem ég treysti fyrir því að halda þessu gangandi á meðan en það fór einhvern veginn úr því að vera skipulögð klúbbstarfsemi yfir í nokkra vini sem vildu bara spila saman. Þar með voru þessar forsendur sem ég hafði sett til þess að byrja með farnar út um gluggann,“ segir Eyþór.

Eyþór og dóttir hans

Nú ert þú að sjá um Spilahópinn Uppspuna, hvernig varð hann til?

„Í kringum 2018–2019 hafði barnasálfræðingur samband við Reykjanesbæ vegna þess að hann hafði verið að lesa sig til um hjálpsemi spunaspila við ýmsum félagslegum vandamálum ungmenna. Hann vildi því að það yrði komið upp slíkri starfsemi á ný fyrir börn og ungmenni í bænum og var haft samband við mig og mér þá boðin staða hjá bænum til þess að sjá um það. Svo það var nákvæmlega það sem ég, og nokkrir vel valdir aðilar, gerðum og hægt og rólega fór boltinn aftur að rúlla. Á einhverjum tímapunkti var svo fundið nýtt nafn en hópurinn heitir Spilahópurinn Uppspuni. Það eru einhvern veginn allir alls konar í þessum hóp og það er bara gaman. Ég er náttúrlega búinn að fullorðnast síðan ég byrjaði fyrst með Ými og ég sá strax að þarna voru einstaklingar sem höfðu mikinn áhuga en það vantaði aga og ákveðinn ramma utan um það hvað var verið að gera, bara rétt eins og í öðru tómstundastarfi.“

Fyrir þá sem ekki vita, hvernig virkar spunaspilið Dungeons and Dragons?

„Regla númer eitt í spunaspilunum hjá okkur er að allir eiga að skemmta sér og það á við stjórnandann líka. Í DnD [Dungeons and Dragons] er stjórnandinn kallaður Dungeon Master, ég kýs að kalla þetta bara spunastjórnanda. Hann er sá sem að heldur utan um heiminn og það sem er að gerast í honum. Leikmenn sjá síðan um framgang sögunnar og að búa til allt í kringum hana. Þegar kemur að spunaspilum þá skiptir engu máli hvernig sagan fer, hvort að hetjurnar vinni eða deyi eða eitthvað svoleiðis, það eina sem skiptir máli er hversu lengi fólk er að tala um söguna eftir á. Það segir allt um það hversu vel spilið gekk.“

Eyþór á veglegt safn af teningum en hann gerir ráð fyrir að eiga um það bil 1900 teninga

Hvað gefur þetta þér persónulega?

„Ég hef alltaf haft gaman af því að spila spunaspil. Ég hef viljandi gert það í þessu að prófa eitthvað nýtt, spila með nýju fólki og nýjum stjórnendum af því mér finnst það þroskandi og það kemur manni út fyrir þægindarammann.“

Hvaða skilaboð hefur þú til þeirra sem langar að byrja að spila spunaspil?

„Það getur verið svolítið erfitt að byrja en það er ýmislegt sem hægt er að gera í dag. Ég mæli ekki mikið með að fara í Nexus eða slíkar búðir og kaupa einhvern leiðarvísi og reyna að læra reglurnar þannig. Það er allan daginn auðveldara að finna sér eitthvað fólk sem veit hvað það er að gera, setjast niður með þeim og fylgjast með þeim. Við í Spilahópnum Uppspuna erum með starfsemi í 88 Húsinu á miðvikudögum klukkan 17 og það er alltaf opið fyrir nýtt fólk hjá okkur, hver sem er má slást með í för og við reynum að vera byrjendavæn. Fyrir þá sem ekki eru á Suðurnesjum mæli ég með að kíkja á Facebook-síðu og heimasíðu Hlutkesti og „Roleplayers á Íslandi" á Facebook.“