Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

„Vil ná árangri í öllu sem ég geri“
Mási ásamt börnum sínum, Kristjáni Jökli og Laufeyju Kristínu, í hátíðarbúningi á 17. júní fyrir nokkrum árum.
Mánudagur 29. júní 2015 kl. 09:11

„Vil ná árangri í öllu sem ég geri“

Mási er listhneigð lögregla sem lætur drauma sína rætast.

Lögreglumaðurinn, kylfingurinn og áhugaljósmyndarinn Marinó Már Magnússon fæddist í Reykjavík 1971 en flutti í Grænásinn í Njarðvík sex ára. Frá unga aldri hefur Marinó, sem oftast er kallaður Mási, hrifist af fallegum ljósmyndum og nú stendur yfir sýning á nokkrum mynda hans í golfskálanum í Leirunni. Víkurfréttir ræddu við Marinó, sem oftast er kallaður Mási, um listina sem hann hefur erft frá foreldrum sínum, áhugamálið golfið og hvernig hann nær að núllstilla sig eftir erfiðar vaktir. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Með foreldrum sínum við skírn sonar síns, Kristjáns Jökuls, fyrir 13 árum. 

Margir hafa í tímans rás spurt Mása hvaðan tónlistar- og aðrir listhæfileikar koma og segir hann einfalt að svara því. „Þeir koma frá foreldrum mínum. Faðir minn heitinn, Magnús Blöndal Jóhannsson, var tónskáld og starfaði mikið við leikhús og var virtur hljómsveitarstjórnandi. Móðir mín, Kristín Sveinbjörnsdóttir, hafði fallega útvarpsrödd og stjórnaði Óskalagaþætti sjúklinga á Ríkisútvarpinu til fjölda ára. Einnig er hún öflug myndlistarkona. Ætli ég hafi ekki fengið sitthvað frá þeim báðum.“

 

Tvisvar keppt á erlendum mótum

Mási hefur starfað sem lögreglumaður í 22 ár og segir það krefjandi starf sem reyni gríðarlega á andlega. „Blessunarlega á ég yndislega fjölskyldu og nýti mér ítrekað til að kúpla mig frá starfinu. Ég hef reynt eftir mesta mætti að skilja vinnuna eftir þegar ég yfirgef vaktina og í flestum tilfellum hefur það gengið upp.“ Ein besta slökun sem Mási segist fá eftir erfiðar vinnutarnir er að fara einn á golfvöllinn og spila nokkrar holur og þá í hvaða veðri sem er. „Þar fæ ég snertingu við náttúruna og tíma með sjálfum mér og góða hreyfingu í bland. Það má segja að golfið sé ástríða hjá mér og hef ég stundað þá íþrótt frá því ég var hnokki.“ Hann tók sér að vísu frí frá golfinu frá 1997 til 2006 en þá bjó hann í Reykjavík og hafði engan tíma né aðstöðu til að stunda golfið eins og hann hefði viljað. Enda var hann líka að koma sér upp fjölskyldu. „Ég hafði ekki áhuga á einhverju gutli. Þegar ég tek mér eitthvað fyrir hendur þá þarf ég að geta lagt mig 100% fram. Ég hef gríðarlegan metnað og vil ná árangri í öllu sem ég tek mér fyrir hendur. Í dag er ég með fjóra í forgjöf og tek þátt í keppnum og mótum. Afar gaman er að fá tækifæri til að keppa í golfi í útlöndum en tvisvar sinnum hef ég fengið tækifæri til þess með landsliði lögreglunnar í golfi,“ segir Mási glaðbeittur. 

Sumarkvöld í Leiru. 

RAX stærsta fyrirmyndin 

Spurður um hvenær áhugi á ljósmyndun hófst segir Mási fyrirmynd sína hafa verið hinn geðþekki og frábæri ljósmyndari Ragnar Axelsson, eða RAX. „Ég fylltist svo mikilli lotningu eftir að hafa séð myndir hans á forsíðum blaða hér áður fyrr. Málið var að ég skildi myndefnið og uppbyggingu mynda hans. Ég hugsaði alltaf að ég gæti þetta sjálfur.“ Frá því Mási var barn hafi hann séð heiminn í mótívum, línum og einhverskonar formum. Honum finnst eins og að hann geti búið til áhugavert myndefni úr einföldustu hlutum. Þegar hann var 25 ára gamall ákvað hann að reyna fyrir sér í laumi. „Ég átti enga myndavél og fékk lánaða gamla Pentax myndavél sem faðir minn heitinn átti og fór að leika mér með hana. Ég missti fljótt móðinn þar sem þetta var dýrt áhugamál og framköllun og filmur kostuðu handlegg, þ.e. ef þú vildir gera þetta af einhverju viti.“

Skógafoss. 

Mikil viðbrögð við mynd á Facebook  

Það var svo eftir aldamótin sem stafræna tæknin hóf innreið sína og þá breyttist heimur ljósmyndarans til muna. Árið 2012 ákvað Mási að reyna fyrir sér á ný og fjárfesti í frekar ódýrri Canon myndavél með ágætum linsum. „Ég birti eina og eina mynd á Facebook og þá má segja að hjólin hafi farið að snúast því ég fékk vægast sagt frábærar undirtektir. Fólk kom upp að mér á ólíklegustu stöðum til að hrósa mér fyrir fallegar myndir. Það varð mér hvatning til að fjárfesta í betri tegund af myndavél og skarpari linsum.“ Mási segist alltaf hafa haft gaman af að taka landslagsmyndir en sérstaklega finnst honum skemmtilegt að taka myndir af fólki og þá aðallega af fólki við dagleg störf. „Sérstaklega þegar fólk er ekki að gefa myndavélinni gaum, þ.e. er ekki uppsett myndefnið. Ef ég á að taka hópmyndir af fólki finnst mér skemmtilegustu myndirnar þegar fólkið er að stilla sér upp og veit ekki að ég er að taka myndir af því á meðan. Mér finnst óendanlega gaman að taka portrait-myndir af fólki og mig langar að einbeita mér að því verkefni á næstu misserum.“

Frá kveðjuathöfn Sigríðar Bjarkar, fyrrum lögreglustjóra. 

Tíu myndir á sýningu í Leirunni

Mest gefandi við ljósmyndun yfirleitt segir Mási vera að fanga augnablik og stemningu sem oftar en ekki eru jafnfljótt að hverfa og þau birtast. „Þá er um að gera að vera snöggur til og að sjálfsögðu leyfa ímyndunaraflinu að taka völdin. Ég hef ekki verið nógu duglegur að mynda undanfarið og stundum liggur myndavélin óhreyfð svo vikum skiptir í töskunni minni.“ Um þessar mundir stendur yfir sýning á ljósmyndum eftir hann í golfskálanum í Leirunni sem verður fram á haust. „Fyrr í vetur kom að máli við mig formaður klúbbsins og spurði hvort hann mætti velja tíu myndir eftir mig til að setja upp í klúbbhúsinu. Ég tók að sjálfsögðu vel í það.“ 

Keilir. 

Trommur, gítar og tónsmíðar

Mási þykir afar listrænn og auk ljósmyndunar hefur tónlist alltaf skipað stóran sess í lífi hans. Hann var barnungur þegar hann áttaði sig á því að hann væri taktviss og móðir hans gaf honum trommusett þegar hann var 12 ára gamall. „Ég hef notið þess að spila á trommur undanfarin ár með hinum og þessum og hef ég fengið skemmtileg verkefni í hendurnar af þeim sökum. Svo sjálfmenntaði ég mig á gítar og finnst afar gama að taka í hann. Einnig hef ég verið að fikta við að semja tónlist sjálfur og stefni á að einbeita mér frekar að því á næstu misserum,“ segir Mási en einhvern veginn eins og margt annað virðist það liggja ágætlega fyrir honum. „Ég hef alla tíð haft áhuga á söng og raulaði mest fyrir sjálfan mig og móður mína á unglingsárum.“ 

Kindur í Grindavík. 

Söngnám og Brúðkaup Fígarós

Eiginkona Mása, flugfreyjan Sonja Kristín Sverrisdóttir, gaf honum í jólagjöf fyrir nokkrum árum einkatíma hjá Jóhanni Smára Sævarssyni, óperusöngvara og söngkennara. Það var svo í desember 2013 sem Mási ákvað að nýta sér tímann (4-5 árum síðar) og þá var ekki aftur snúið. „Jóhann Smári hvatti mig til að hefja söngnám í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar sem ég og gerði. Þar hef ég svo verið við nám í eitt og hálft ár og hefur lokið grunnprófi í söng. Ég stefni á að halda áfram og klára námið. Ég verð að viðurkenna að þetta er eitt það skemmtilegasta sem ég hef tekið mér fyrir hendur og er nú af mörgu að taka. Ég var svo lánsamur, fyrir tilstilli Jóhanns Smára, að fá að taka þátt í uppfærslu á Brúðkaupi Fígarós eftir Wolfgang Amadeus Mozart. Ég fór þar með hlutverk tónlistarkennarans Basilio. Fyrir mig sjálfan var þetta gríðarleg áskorun,“ segir Mási, sem hingað til hafði getað falið sig bakvið trommurnar. „Þarna tók ég þátt í terzett og svo söng ég aríu og þurfti að hafa mig allan við þar sem ég þarf að leika og syngja á sama tíma. Þetta er talsvert hlutverk fyrir söngnemanda á 1. ári,“ segir Mási að lokum en alltaf til í ný ævintýri og áskoranir. 

VF/Olga Björt