Víkurfréttir í góða þrjá áratugi
Útgáfufélag Víkurfrétta, Víkurfréttir ehf., varð 30 ára sl. mánudag en félagið var stofnað 7. janúar 1983. Útgáfa Víkurfrétta hófst hins vegar síðsumars 1980 en 14. ágúst það ár kom fyrsta tölublað Víkurfrétta út. Fyrstu árin kom blaðið út hálfsmánaðarlega eða til ársloka 1982. Þá var blaðið gefið út af Prentsmiðjunni Grágás í Keflavík. Núverandi útgáfufyrirtæki, Víkurfréttir ehf., keypti útgáfu blaðsins um áramótin 1982-3 og þá var ákveðið að gefa blaðið út vikulega. Nýja félagið hóf vikulega útgáfu á blaðinu í mars 1983 og Grágás sá áfram um prentvinnslu og umbrot en nú fyrir nýja eigendur.
Úr verslunum inn á heimili
Fyrstu árin var Víkurfréttum dreift í verslanir og þjónustufyrirtæki, þar sem lesendur nálguðust blaðið. Fljótlega var þjónustan efld í Keflavík og Njarðvík og Víkurfréttir komu sér upp vaskri sveit blaðbera sem dreifðu blaðinu inn á heimili alla fimmtudaga. Í öðrum sveitarfélögum Suðurnesja var blaðið áfram í verslunum og á bensínstöðvum. Best var þjónustan þó í Höfnum þar sem Jón Borgarsson og fjölskylda sáu um dreifingu blaðsins inn á öll heimili til fjölda ára. Dreifingarþjónustan hefur alltaf verið að eflast og nú sér Íslandspóstur um dreifingu blaðsins inn á öll heimili og í fyrirtæki á Suðurnesjum. Upplag blaðsins hefur líka aukist og er nú á níunda þúsund.
Í sauðalitunum
Fyrstu árin máttu lesendur sætta sig við svart/hvítt blað í viku hverri og enginn kvartaði, enda tíðkaðist ekki að blöðin væru litprentuð nema á stórhátíðum. Dagblöðin voru svart/hvít eða prentuð í mesta lagi með einum aukalit. Litprentun var í Víkurfréttum um jól og þá aðeins á útsíðum.
Árið 1993 urðu breytingar á eignarhaldi Víkurfrétta ehf. þegar Emil Páll Jónsson sem stofnaði fyrirtækið með Páli Ketilssyni fór út úr því haustið 1993. Páll og fjölskylda eignuðust félagið að fullu. Ári síðar urðu önnur umskipti þegar prentun blaðsins fluttist frá Prentsmiðjunni Grágás yfir til Stapaprents. Fljótlega eftir þá breytingu var broti blaðsins breytt, síðurnar minnkaðar um 10% og litprentun hafin á um helmingi blaðsins. Stapaprent hafði á þessum tíma yfir að ráða prentvél sem gat prentað 16 síður á örk. Þannig voru 8 síður í lit og aðrar 8 í svarthvítu. Allt umfram það var þó áfram í svart/hvítu. Þetta var tímafrek prentun. Litasíður þurftu að vera komnar til prentunar á þriðjudegi í blaði sem kom út á fimmtudegi. Þetta þýddi í raun það að forsíðan var tilbúin tveimur sólarhringum áður en blaðið kom út.
Á þessum tímamótum fór uppsetning blaðins, umbrot og hönnun, sem áður var í höndum starfsmanna prentsmiðja, smám saman að færast yfir til starfsmanna Víkurfrétta en þarna var tölvan komin sterk inn í slíka vinnslu. Tölvan var gríðarleg bylting og sparaði verulegar fjárhæðir og mikinn tíma fyrir útgefendur blaða. Myndvinnsla gjörbreyttist og enn meira með stafrænni tækni sem hélt innreið sína stuttu síðar. Síðla árs 1995 birtist fyrsta „stafræna“ ljósmyndin á forsíðu Víkurfrétta. Fjórum árum síðar var nær öll ljósmyndun orðin stafræn hjá Víkurfréttum.
Meiri lit, meiri lit
Á þessum tíma var ásókn í litaauglýsingar að aukast mjög, jafnframt því sem kröfur auglýsenda um að skila auglýsingum nær útgáfudegi en áður hafði verið, urðu háværar. Þetta gerðist á sama tíma og mikil tölvubylting varð í uppsetningu blaða. Það var því ljóst að breytingar varð að gera á prentun blaðsins til að svara nýjum kröfum á þessu sviði. Það þýddi að prentun þurfti að vera hraðari og öflugri og því miður var það ekki í boði á Suðurnesjum.
Það var því síðla árs 1999 að Víkurfréttir sömdu við Prentsmiðjuna Odda um prentun blaðsins. Jafnframt var fullvinnsla blaðsins til prentunar komin til Víkurfrétta. Blaðið var því búið að koma sér upp eigin prentsmiðju, þannig þó undir þeim formerkjum að prentvélin var á hinum enda símalínunnar. Víkurfréttum er skilað til prentunar á svokölluðu PDF-sniði og sent til prentsmiðjunnar um Netið.
Fyrstu mánuðina var blaðinu ekið til Reykjavíkur á geisladiskum. Eins og svo margt annað, þá hefur þróunin á Netinu verið gríðarlega hröð og það hafa Víkurfréttir nýtt sér. Nú tekur örfáar mínútur að afrita blaðið frá Víkurfréttum og til prentsmiðjunnar.
Næsta stóra breyting á útiliti og formi blaðsins átti sér stað á vordögum 2011. Til að ná fram enn frekari hagræðingu eftir erfitt bankahrun var ákveðið að skipta um prentsmiðju. Frá 14. apríl 2011 hefur prentsmiðjan Landsprent annast prentun Víkurfrétta í stærstu og öflugustu prentvél landsins. Í þeirri prentvél er Morgunblaðið prentað daglega og einnig mörg af héraðsfréttablöðum landsins. Víkurfréttum er skilað til prentunar síðdegis á miðvikudögum og er blaðið prentað á miðvikudagskvöldi og komið til Íslandspósts til dreifingar, sem síðan dreifir blaðinu á fimmtudögum.
Blaðið hefur alla tíð verið í forystuhlutverki á Suðurnesjum og verið stærsta frétta- og auglýsingablað svæðisins og einnig verið leiðandi í útgáfu meðal bæjar- og héraðsfréttablaða á landinu öllu.
Öflug útgáfa á netinu
Víkurfréttir hafa verið í fremstu röð á Netinu frá upphafi. Vefur Víkurfrétta var stofnaður árið 1995. Víkurfréttir eru fyrsti íslenski fjölmiðillinn sem dreifði fréttum á netinu án endurgjalds. Fyrstu árin var vefurinn þó aðeins uppfærður vikulega á fimmtudögum, þegar blaðið var komið úr prentun. Um áramótin 1999-2000 var hins vegar settur kraftur í vefinn og hann uppfærður daglega með nýjustu fréttum. Aðsóknin fór að aukast umtalsvert við þetta og í dag eru Víkurfréttir á Netinu á meðal mest lesnu fréttavefsíðna landsins.
Tíu árum eftir stofnun vf.is eða árið 2005 hófu Víkurfréttir rekstur golfvefjarins www.kylfingur.is. Vinsældir hans hafa aukist á hverju ári enda er golf næst stærsta íþróttagrein landsins. Starfsmenn frá Víkurfréttum hafa frá árinu 2000 einnig sinnt vinnslu tímaritsins Golfs á Íslandi sem gefið er út af Golfsambandi Íslands. Páll Ketilsson hefur verið ritstjóri blaðsins síðan 2003. Tímaritið kemur út fimm sinnum á ári og var á síðasta ári 124 til 132 blaðsíður í hvert skipti.
Helgarblað og sjónvarpsdagskrá og jafnvel tvisvar í viku
Víkurfréttir hafa prófað ýmislegt á þessum 30 árum sem liðin eru síðan stofnað var til útgáfufélags núverandi eiganda. Sumt gengur og annað ekki. Þannig var Víkur-fréttum um tíma dreift tvisvar í viku veturinn 1986, á þriðjudögum og fimmtudögum. Á þessum tíma var annað vikublað, Reykjanes, gefið út á svæðinu og það reyndi líka tveggja daga útgáfu. Dreifingu tvisvar í viku var fljótlega hætt hjá báðum aðilum. Ekki löngu síðar tóku Víkurfréttir við útgáfu Reykjaness og gáfu það út fyrir Sjálfstæðisflokkinn um nokkurt skeið eða þar til útgáfa þess var lögð niður. Þannig var Reykjanesi dreift á miðvikudögum og Víkurfréttum á fimmtudögum í hverri viku.
Nokkrum árum síðar keyptu Víkurfréttir vikuritið Sjónvarps-Pésann sem dreift var á Suðurnesjum.
Útgáfa þess var löguð að útgáfu Víkurfrétta en var síðan fljótlega hætt, enda þrengingar á auglýsingamarkaði og ekki pláss fyrir sjónvarpsdagskrárblaðið.
Víkurfréttir hófu útgáfu á Tímariti Víkurfrétta á haustmánuðum 1999. Tímaritið kom út einu sinni það árið en sama haust var gerð tilraun með útgáfu Helgarblaðs Víkurfrétta, sem var blað sem var selt. Sú tilraun varð ekki fullreynd. Viðtökur voru góðar en umtalsverða fjölgun hefði þurfti í starfsliði blaðsins til að gefa út sérstakt helgarblað. Helgarblaðstilraunin stóð í mánuð og gefin voru út þrjú Helgarblöð Víkurfrétta.
Kraftur var hins vegar settur í útgáfu Tímarits Víkurfrétta, TVF, strax árið 2000 og blaðið gefið út reglulega. Útgáfu TVF var hætt í lok árs 2007 en það ár komu út þrjú tölublöð af TVF og samtals urðu tölublöð TVF 26 frá því útgáfan hófst síðla árs 1999 til 2007.
Víkurfréttir gáfu einnig út í mörg ár vikulegt fréttablað Varnarliðsins, The White Falcon. Þar var ritstjórn í höndum Varnarliðsins en Víkurfréttir seldu auglýsingar í blaðið.
Um tíma gáfu Víkurfréttir einnig út Bæjartíðindi í Grindavík.
Yfirburðir ár eftir ár
Þrisvar hefur lestur og viðhorf til blaðsins verið kannað af Gallup og ávallt hafa yfirburðir Víkur-frétta komið fram. Síðasta könnun sem gerð var sýndi að rúm 90% Suðurnesjamanna lesa blaðið í viku hverri eða oftar. Þá er ánægja með blaðið einnig mikil. Lestur Víkur-frétta er örugglega heimsmet þegar kemur að lestri eða áhorfi á svæðisbundinn fjölmiðil.
Strandhögg á höfuðborgarsvæðinu
Árið 2004 hófu Víkurfréttir ehf. útgáfu VF vikublaðs í Hafnarfirði og Garðabæ. Opnuð var skrifstofa í Hafnarfirði en útgáfu blaðsins var hætt í júlí 2008.
Fréttastofa Suðurnesja
Þjónusta við aðra fjölmiðla hefur verið mikil. Nú er svo komið að Víkurfréttir reka umfangsmikla ljósmyndaþjónustu við íslensku dagblöðin. Víkurfréttir byrjuðu fréttaþjónustu fyrir Stöð 2 frá árinu 1993. Í fimmtán ár eða fram að bankahruni var þessi starfsemi viðamikil. Þegar mest var birtust um 150 fréttir og innslög frá Suðurnesjum á Stöð 2 á einu ári. Í dag annast Víkurfréttir sjónvarpsupptökur fyrir bæði Stöð 2 og RÚV á Suðurnesjum.
Margir góðir starfsmenn á þrjátíu árum
Fjölmargir hafa starfað hjá Víkur-fréttum þá rúmu þrjá áratugi sem blaðið hefur verið gefið út. Sumir hafa stoppað stutt á ritstjórninni, á meðan aðrir hafa verið lengur. Af núverandi starfsmönnum hefur Hilmar Bragi Bárðarson starfað lengst hjá Víkurfréttum, í 25 ár. Aldís Jónsdóttir hefur starfað á skrifstofu blaðsins í 23 ár. Páll ritstjóri hefur verið eigandi blaðsins frá árinu 1983 og unnið við það nánast frá stofnun því hann var lausapenni hjá stofnendunum. Í dag eru lykilstarfsmenn hjá Víkurfréttum með mikla reynslu af útgáfumálum og annað starfsfólk með góða þekkingu á faginu.
Hvað ber framtíðin í skauti sér?
Þegar ég tók pistil saman um aldarfjórðungs afmæli blaðsins árið 2005 sáum við hjá Víkurfréttum mikla möguleika í frekari vinnslu á sjónvarpsefni inn á vefinn okkar og til birtingar á öðrum efnisveitum. Talsverð vinna var þá lögð í að koma upp efnisveitu eða grunni að sjónvarpsstöð Víkurfrétta á Kapalkerfinu í Reykjanesbæ. Því miður entist okkur ekki kraftur til að koma því verkefni alla leið, því við efnahagshrunið árið 2008 varð að beita aðhaldi í rekstri fyrirtækisins og setja „gæluverkefni“ eins og sjónvarp á ís. Við höfum þó frá þessum tíma aukið mjög framboð af lifandi efni á vf.is.
Árið 2009 framleiddu Víkurfréttir einnig þrjá hálftíma sjónvarpsþætti sem sýndir voru á ÍNN og fjölluðu um mannlífið á Suðurnesjum.
Róðurinn hefur verið þungur fyrir atvinnulífið á Suðurnesjum í kreppu sl. fjögurra ára. Víkurfréttir hafa þurft að sníða sér stakk eftir vexti í þeim ólgusjó sem verið hefur á Suðurnesjum, enda hefur það ítrekað komið fram að kreppan hefur bitið hvað harðast á Suðurnesjum. Ýmis teikn eru um að framundan séu bjartari tímar á Suðurnesjum og botninum hafi verið náð, þegar horft er til atvinnuástands á svæðinu.
Við hér hjá Víkurfréttum horfum einnig til framtíðar og skoðum alla möguleika í miðlun þess efnis sem verður til hjá Víkurfréttum. Hvort sem það er miðlun frétta á prenti eða á netinu. Möguleikar til miðlunar efnis eru óþrjótandi í dag. Tilkoma Facebook og Twitt-er hefur aukið möguleikana á að koma efni Víkurfrétta víðar. Þá er fólk í dag farið að nota snjallsíma og spjaldtölvur til að sækja efnið, þó svo yfirgnæfandi meirihluti vilji þó alltaf fá blaðið sitt á prenti.
Á nýliðnu ári gerðum við miklar endurbætur á vf.is og samræmdum útlit vefjanna vf.is og kylfingur.is. Aðgengi að efni á síðunum var einfaldað og hefur fallið í góðan jarðveg. Aðsókn að vefsíðunum er alltaf að aukast. Næstu misseri er ætlunin að auka framboð á efni fyrir ungt fólk á vf.is og ná til hóps sem er minna að lesa blöð en er að verða stór hópur lesenda á netinu og nýtir sér mikið miðla eins og Facebook. Það hefur sýnt sig að efni sem snertir yngri lesendahópinn er með aukinn lestur og er mikið miðlað áfram á samfélagsmiðlum.
Með hækkandi sól tekst okkur vonandi einnig að bæta enn frekar í með framleiðslu á meira af lifandi efni á vf.is. Margar góðar hugmyndir eru að gerjast á meðal starfsfólks Víkurfrétta í þeim efnum en ennþá strandar á því að við erum kannski ekki nógu mörg til að láta alla okkar drauma verða að veruleika. Þá kalla hugmyndirnar á frekari tekjur til að standa undir þeim. Við höfum þá trú að nú þegar bjartari tímar eru framundan, verði hægt að vekja nokkra drauma af værum blundi.
Samantekt:
Hilmar Bragi Bárðarson,
fréttastjóri Víkurfrétta.