Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Mannlíf

Viku bið eftir hjólaviðgerð í Reykjanesbæ
Druslan bundin saman, var stundum sagt um DBS hjólin: Sjálfur heldur Helgi upp á gamalt DBS hjól sem hann fann á ruslahaugunum. „Það er framleitt af Fálkanum með leyfi frá DBS. Þannig að þetta er íslensk framleiðsla og mjög vandað.“
Fimmtudagur 26. maí 2016 kl. 10:01

Viku bið eftir hjólaviðgerð í Reykjanesbæ

Sprenging í hjólreiðum á Suðurnesjum

Helgi Valdimar Viðarsson Biering segist hafa farið af stað með hjólreiðaverkstæði sitt vegna þess að hann átti í erfiðleikum með að finna stað þar sem hann gæti látið gera við hjólið sitt. „Þar sem að ég er vélvirki þá lét ég það ekkert stoppa mig,“ segir Helgi sem undanfarin fimm ár hefur séð um að gera við reiðhjól fyrir íbúa Suðurnesja.

Hann hefur lært ýmislegt á þeim tíma en hann hefur verið ansi lunkinn við reiðhjólin alveg frá því að hann var strákur. „Þá löguðu menn bara sín hjól sjálfir. Það hefur þó verið mikil þróun í þessu síðan frá tímum gömlu DBS og Kalkhoff hjólanna. Maður aðlagar sig að þessari þróun,“ segir Helgi sem hefur ekki ennþá fengið inn til sín hjól sem hann hefur ekki getað lappað upp á.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Hjólamenningin að aukast

Fyrsta sumarið fékk Helgi inn til sín 20 til 30 hjól. „Eftir það varð bara sprenging. Líkt og hefur verið að gerast í ferðamannaiðnaðinum hjá okkur.“ Síðasta sumar var þó frekar dapurt en þá var fremur kalt í verðri. Fyrsta hjólið kom inn til Helga í júní en í ár komu þau tveimur mánuðum fyrr. Það er því ljóst að hugur er í Suðurnesjafólki. „Hjólamenningin er að aukast sem betur fer,“ segir Helgi.

Berst við rokið á veturna

Sjálfur er Helgi mikill hjólamaður. Hann notar sitt hjól allan ársins hring og skiptir bara yfir á vetrardekkin þegar það á við. Fyrst þegar hann fór að hjóla á veturna fyrir rúmum 15 árum, þá segir hann að fólk hafi gjarnan rekið upp stór augu þegar hann mætti á hjólinu. „Nú erum við nokkur sem erum að hjóla allt árið og ég mæli alveg með því.“ Helgi notar hjólið sem samgöngutæki. Það getur stundum verið bölvað basl. „Þar er helst rokið sem er að trufla okkur hérna á svæðinu. Það er þá mikilvægt að vera á góðu hjóli sem er í góðu standi og vel stillt fyrir viðkomandi. Það hjálpar vel í baráttunni við náttúruöflin.“

Helgi segir að þrátt fyrir að vöxtur sé í hjólreiðum á Suðurnesjum þá megi gera talsvert betur. „Við vorum mjög sein af stað hérna. Við eigum ennþá langt í land í hjólagöngustígum. Þetta er þó á réttri leið, það má ekki taka það af okkur. Það er töluverð aukning á hjólum í bænum.“ Helgi hefur orðið var við töluvert meira af vönduðum og dýrum hjólum og þá einnig hjólum sem fólk er að kaupa erlendis frá.

Viku biðlisti eftir viðgerð

Verkstæði Helga er hlaðið hjólum um allar trissur. Nú er hann búinn að sprengja utan af sér og leitar að stærra húsnæði. Þegar hafa komið inn rúmlega 50 hjól og sér Helgi fram á annríkt sumar. Eins og staðan er núna er viku biðlisti hjá Helga og því er um að gera að drífa sig að draga hjólið fram úr skúrnum. Viðgerðarmaðurinn lumar á góðum ráðum til þess að halda hjólunum góðum og virkum. „Ég ráðlegg fólki að smyrja reglulega keðjurnar sínar með góðri keðjufeiti. Þar á ég gott leyndarmál. Ég nota keðjufeiti frá Kent chain lube 2. Fólk á ekki að nota WD40 eða koppafeiti. Til þess að halda hjólunum góðum þá er um að gera að þrífa þau.“ Helst á fólk í vandræðum með keðjur, gíra og bremsur.