Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

„Víkingaskipið Íslendingur einhver fegursti hlutur á Íslandi“
Sveinn V. Björgvinsson um borð í Íslendingi, höfuðdjásni Víkingaheima
Mánudagur 20. júlí 2015 kl. 10:22

„Víkingaskipið Íslendingur einhver fegursti hlutur á Íslandi“

-segir Sveinn V. Björgvinsson framkvæmdastjóri Víkingaheima

„Það er alveg ótrúlega gaman að sjá hversu mikil og djúp áhrif víkingaskipið Íslendingur hefur á safngesti, alveg sama hvort þeir eru innlendir eða erlendir. Enda fullyrði ég hiklaust að Íslendingur, skipið hans Gunnars Marels, er einhver fegursti hlutur á Íslandi, segir Sveinn V. Björgvinsson framkvæmdastjóri Víkingaheima á Fitjum í Njarðvík.

Eins og fram kom í Víkurfréttum fyrir stuttu, tóku nýir rekstraraðilar við safninu Víkingaheimar þann 17. júní sl. Eigendur að félaginu Víkingaheimar ehf., eru þeir sömu og eiga útgáfufélagið Guðrúnu en það fyrirtæki sérhæfir sig í útgáfu íslenskra miðaldabókmennta á erlendum tungumálum. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hvað fær fólk til að taka við rekstri eins og Víkingaheimum, rekstri sem hefur ekki gengið neitt sérstaklega vel fram að þessu?

„Já það er góð spurning. Það er fyrst og fremst áhugi á viðfangsefninu. Það er oft hægt að gera miklu betur en gert hefur verið áður. Þessir nýju rekstraraðilar sem tóku við í sumar, hafa mikinn áhuga á þessu safni  og öllu því sem það tengist og þegar Reykjanesbær auglýsti eftir nýjum rekstraraðilum að safninu þá var ekkert annað að gera en að slá til og prófa að spreyta sig á þessum rekstri,“ sagði Sveinn

Munum við sjá einhverjar áherslubreytingar á safninu frá því sem fyrir var?

„Bæði já og nei. Höfuðáherslan er auðvitað að ná að snúa rekstrinum við fyrst og fremst. Hvað varðar safnið sjálft og innanstokksmuni eru kannski ekki miklar breytingar í vændum, alla vega ekki í fyrstu. Helsta djásn safnsins er auðvitað þetta stórglæsilega skip hans Gunnars Marels, Íslendingur. Þetta skip er auðvitað bara stórkostlegur gripur og sennilega einhver flottasti safngripur á Íslandi. Þetta er ekki bara gullfallegt skip heldur er það líka mjög merkur gripur. Það má ekki gleyma því að það er búið að sigla Íslendingi alla leið til Ameríku þar sem hann fékk mikla kynningu ásamt landi og þjóð á aldamótaárinu 2000. Við munum því áfram gera skipinu mjög hátt undir höfði í okkar sýningum sem og í öllu kynningarstarfi. Hvað sýningar almennt varðar þá stefnum við auðvitað að því að halda áfram góðu starfi og reyna að bæta okkur og safnið á öllum sviðum og kannski fyrst og fremst að færa sýningar yfir í nútímann. Þá er ég aðallega að tala um að nýta okkur nútímatækni við sýningar á hina ýmsu vegu en það á svona eftir að gerast smátt og smátt.“

Eigið þið von á því að geta fengið fjárfesta í lið með ykkur?

„Já já við bindum miklar vonir við það, en það er þó ekkert sem er tímabært að tala um enn sem komið er. Það kemur bara allt í ljós síðar.“

Sveinn sagði að starfsmenn Víkingaheima séu alls fjórir í dag og þar af séu tveir fastir starfsmenn. Það er óbreytt frá því sem var áður en þeir tóku við rekstrinum en stefnt er að því að bæta við starfsfólki ef framtíðaráform fyrirtækisins ganga eftir. 

Nú eruð þið með sýningu í gangi sem heitir landnám Íslands. Munið þið gera Suðurnesjunum einhver sérstök skil á þeirri sýningu?

„Já í sýningunni Landnám Íslands eru fornminjar frá Höfnum, frá Vogi úti í Höfnum þar sem hann Bjarni fornleifafræðingur er búinn að vera að vinna að uppgreftri. Hér hefur verið undanfarin fjögur til fimm ár verið óbeint samstarf við það verkefni og hér í Víkingaheimum eru munir til sýningar frá þeim uppgreftri, að sjálfsögð í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands. Við höfum mikinn áhuga á því að efla það eins og aðrar þær sýningar sem við erum með í gangi. Svo erum við með sérstaka sýningu um norrænu goðafræðina sem er á efri hæðinni hjá okkur. Allt tengist þetta auðvitað sögu lands og þjóðar og við viljum gera þessu áfram hátt undir höfði.“

Hver er framtíðarsýn hinna nýju rekstraraðila Víkingaheima?

„Ef okkar markmið nást varðandi markaðsstarf, aukningu gesta og aðkomu fjárfesta, þá er markmiðið hiklaust að stækka safnið. Það mundi þá einnig gera okkur kleift að fá til okkar erlendar sýningar í samstarfi við erlend aðila og erlend söfn. Síðan stefnum við að því með tíð og tíma að efla verslunina í sjálfu safninu og að hér sé hægt að bjóða gestum uppá veitingar eftir að þeir hafa lokið við að skoða sig um í safninu,“ sagði Sveinn að lokum.

Erlendir ferðamenn að skoða sig um í Víkingaheimum