Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Vígsla Knarrarneskirkju á Vatnleysuströnd
Knarrarneskirkja er falleg bændakirkja í 19. aldar stíl. VF-mynd: Jón Hilmarsson
Jón Hilmarsson
Jón Hilmarsson skrifar
þriðjudaginn 3. ágúst 2021 kl. 07:56

Vígsla Knarrarneskirkju á Vatnleysuströnd

Næstkomandi sunnudag, þann 8. ágúst, fer fram vígsla Knarrarneskirkju á Vatnsleysuströnd.

Kirkjuna reistu hjónin Birgir Þórarinsson og Anna Rut Sverrisdóttir en fyrir sex árum var tekin skóflustunga að þessari bændakirkju, sem er í 19. aldar stíl, í túninu hjá þeim hjónum að Minna-Knarrarnesi á Vatnsleysuströnd.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Draumur að rætast með kirkjunni

Mikið hefur verið lagt í kirkjuna og listmunina sem í henni eru. Altarissteinninn kemur úr  fjörunni. „Í Mósesbók eru fyrirmæli um hvernig altari á að vera. Það skal gert úr óhöggnum steini. Ég var í gönguferð hér í fjörunni þegar ég sá þennan stein. Hann höfðaði sérstaklega til mín og passar fullkomlega sem altarissteinn. Það var síðan heljarinnar mál að flytja steininn inn í kirkjuna og koma honum vel fyrir, hann er um 350 kg. Fáeinum mínútum eftir að steinninn var uppsettur gerði jarðskjálfta upp á 5,4. Steininn sakaði þó ekki né þá sex karlmenn sem lyftu honum upp á stall,“ að sögn Birgis. Kirkjuklukkan er rúmlega 100 ára gömul skipsklukka og kirkjugólfið er sömuleiðis úr aldargömlum gólfborðum, sérstaklega unnin fyrir kirkjuna. Yfirsmiður er Ásgeir Þórisson, innréttingar smíðaði Ólafur Sigurjónsson, Forsæti Flóahreppi og arkitekt er Óli Jóhann Ásmundsson.

Birgir leitaði út fyrir landssteinana með gerð listmuna. Þeir eru eftir handverks- og listamenn frá Úkraínu. Má þar nefna altaristöfluna en hún er gerð eftir forskrift Birgis. Predikunarstólinn er sömuleiðis gerður í Úkraínu en hann er eftirgerð af predikunarstól frá árinu 1594 og er á Þjóðminjasafninu. Birgir sá hins vegar alfarið um steinhleðsluna í kringum kirkjuna. „Þetta hefur verið gamall draumur hjá mér, að byggja kirkju í þessum gamla stíl, sameinar líka menntun og áhugamál.“

Birgir í kirkjunni.

Vígsla 8. ágúst (athöfnin er einungis fyrir boðsgesti)

Séra Karl Sigurbjörnsson, biskup, kemur til með að vígja kirkjuna. Honum til aðstoðar verða Kristján Valur Ingólfsson, vígslubiskup, og séra Kjartan Jónsson, sóknarprestur Kálfatjarnarsóknar. Biskup Íslands, Agnes M. Sigurðardóttir, setur kirkjunni máldaga sem eru starfsreglur og lýsing á kirkjunni, hún verður þannig skráð hjá Þjóðkirkjunni sem hefur tilsjón með henni. Knarrarneskirkja er heimiliskirkja. Hún verður nýtt til ýmissa kirkjulegra athafna og smærri viðburða. Árlegur viðburður í kirkjunni verður Nikulásarmessa sem tengist heilögum Nikulási, verndardýrlingi barna og sjófarenda. Í kirkjunni er meðal annars vegleg mynd af heilögum Nikulási en myndin er gjöf listamannsins til kirkjunnar.