Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Fimmtudagur 27. september 2001 kl. 09:23

Vigdís Finnbogadóttir kennir frönsku í Keflavík

Frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands og núverandi velgjörðarsendiherra tungumála hjá UNESCO mun kenna grunnskólabörnum á Suðurnesjum frönsku. Námskeiðið í Reykjanesbæ fer fram 29. september og 20. október og stendur 2 x 4 klst. auk verkefnavinnu. Kennslan fer fram í frönskustofu Fjölbrautaskóla Suðurnesja, en Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum fer með framkvæmd verkefnisins fyrir hönd Háskóla Íslands.

Auk Vigdísar munu þau Gérard Lemarquis og Jórunn Tómasdóttir kenna hópnum. Nemendur verða virkjaðir og reynt að kenna þeim gagnlegan orðaforða sem gerir þeim kleift að þekkja ákveðna hluti svo sem nöfn daga og mánuða, geta sagt hvað klukkan er og skilja algeng orðatiltæki. Lögð verður áhersla á málnotkun í daglegu lífi. Forvitni barnanna verður vakin á menningu viðkomandi þjóðar. Leikir, sögur, söngvar og annað sem höfðar til barna verður uppistaðan í kennslunni.
Háskóli Íslands var 100 ára á þessu ári og í tilefni aldarafmælis var ákveðið að efla tengsl hans við landsbyggðina með ýmsum hætti. Í samstarfi við símenntunarmiðstöðvar, grunnskóla og Ríkisútvarpið verða haldin á fjórtán stöðum tungumálanámskeið fyrir börn yngri en þau sem þegar læra tungumál í skólum. Munu um 300 börn geta sótt námskeiðin. Eitt námskeið verður haldið á hverjum stað og tungumál og aldursflokkar valdir í samráði við heimamenn.
Kennd verða byrjendanámskeið fyrir börn í grunnskólum í dönsku, ensku, frönsku, ítölsku, spænsku og þýsku. Börnin verða á aldrinum 7 – 11 ára en aldur þeirra verður mismunandi eftir stöðum. Í hverjum hópi verða ekki fleiri en 22 börn og verða tveir kennarar með hvern hóp. Hér í Keflavík verður kennd franska og hafa allir skólar á Suðurnesjum fengið tækifæri til að velja nemendur í frönskuhópinn.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024