Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Viðurkenning fyrir markvissa stafa- og lestrarkennslu
Mánudagur 25. júlí 2011 kl. 17:50

Viðurkenning fyrir markvissa stafa- og lestrarkennslu

Í lok júní voru afhent hvatningarverðlaun Fræðsluráðs Reykjanesbæjar þar sem leikskólakennurum á Bakka í leikskólanum Heiðarseli var afhent viðurkenning fyrir markvissa stafa- og lestrarkennslu með elstu börnum leikskólans. Víkurfréttir tók þær Ólöfu Guðmundsdóttur aðstoðarleikskólastjóra, Hjördísi Grétu Traustadóttur og Halldóru Björk Guðmundsdóttur leikskólakennara á deildinni tali og spurði aðeins út í starfið á Heiðarseli og verkefnið.

Hvernig kom hugmyndin að lestrarverkefninu?

Árið 2003 fór Reykjanesbær af stað með lestrarmenningarátak sem áætlað var sem þriggja ára verkefni. Þegar því lauk héldum við áfram að þróa okkar starf. Þetta hefur í raun alltaf verið hluti af starfi leikskólans en síðustu ár hefur verið unnið markvisst með þætti tengda málörvun með öllum aldurshópum leikskólans.

Við byrjuðum haustið 2004 með markvissa hljóða- og stafainnlögn með elstu börnunum. Lögð er mikil áhersla á að byrja frá grunni, þar sem byrjað er að vinna með yngstu börnunum um leið og þau hefja leikskólagöngu sína og síðan er byggt ofan á þá þekkingu eftir aldri og þroska hvers barns. Þegar börn eru ung byrja þau að þroska með sér mikilvægan skilning á bókstöfum, hljóðkerfisvitund þeirra og orðaforði þróast, þau læra að skilja ritmál og skilja að ritmál hefur tilgang. Á síðasta ári barnsins í leikskólanum er markmiðið svo að það þekki sem flesta bókstafi og hljóð þeirra og það er plús ef þau eru orðin læs. Við erum alltaf að byggja ofan á út frá áhuga og getu hvers einstaklings.

Elstu börnin fara í lestrartíma tvisvar í viku, í öðrum tímanum er verið að leggja inn hljóð og stafi. Sú vinna þróast síðan þegar barn þekkir alla stafina og hljóð þeirra, í hringekju þar sem unnin eru ákveðin verkefni á hverjum stað (stöðvavinna). Þau lesa til dæmis á einni stöð og para orð við myndir á annarri. Í seinni tímanum er upprifjun á staf og hljóði, unnið er með þulur, vísur og framhaldssögur en við leggjum mikið upp úr skilningi á orðum. Börnum í dag vantar skilning á gamla íslenska málinu, hugtökum og slíku. Elstu börnin fara auk þessara stunda í vinnustund aðra daga vikunnar, þar sem þau fara í tónlistartíma hjá tónlistarkennara, lífsleikni þar sem unnið er með kennsluefnið Stig af stigi og stærðfræði þar sem þau vinna með kennslubókina Kátt er í Kynjadal og kennsluefnið Numicon. Einnig fara börnin í hreyfingu í sal og í vettvangsferðir um bæinn til að skoða útilistaverk sem tengjast sögunni um Gogga og Valla á ferð og flugi í Reykjanesbæ en kennarar Heiðarsels gáfu þá bók út árið 2004. Allir þessir þættir tengjast inn á málörvun.

Einstaklingsmiðað nám

Leikskólakennararnir segja að það komi fljótlega í ljós hversu mikinn áhuga börnin hafi á þessari vinnu, þetta fari allt eftir getu og áhuga hvers og eins. Því er kennslan sniðin að barnahópnum hverju sinni.

Þær eru allar sammála um að þetta verkefni sé skemmtilegur hluti af starfinu. „Foreldrar eru farnir að gera meiri kröfur og reynum við að verða við þeim. Nýjar áherslur hjá okkur síðastliðinn vetur eru til dæmis að leggja áherslu á skrift og ritmál en við höfum lengi verið með allt ritmál sýnilegt. Yngstu börnin byrja fyrst á því að krota sem þróast yfir í teikningar og bókstafi, þaðan í orð og síðan í setningar.“

Hvernig eru viðbrögðin frá grunnskólakennurum, eru börnin betur undirbúin fyrir grunnskóla?

„Já við höfum heyrt að þau séu betur undirbúin en þetta er orðið svipað hjá öllum leikskólunum í Reykjanesbæ. Hluti starfsins sem áður var unninn í 1. bekk hefur færst meira inn í leikskólann.

Við höfum líka verið að byggja upp gott samstarf við Heiðarskóla þar sem kennararnir í skólanum koma til okkar til að kynnast starfinu og við í leikskólanum förum yfir í Heiðarskóla með börnin, bæði í skipulagðar heimsóknir í kennslustundir, á bókasafnið og á útileiksvæðið. Þannig að kennararnir þekkja mörg barnanna þegar þau byrja í grunnskólanum.

Lögð er áhersla á vandvirkni hjá elstu börnunum við verkefnavinnu sína, þau setja sér reglur um hegðun í þeim stundum þar sem unnið er að elstu barna verkefnum. Með þessu eiga þau auðveldara með að aðlagast þegar þau koma í grunnskólann. Flest börnin sem eru að fara í grunnskóla á Heiðarseli núna eru annaðhvort orðin læs eða við það að verða læs.

Finnst ykkur vera aukinn metnaður í leikskólastarfi?

„Já, algjörlega, mikill metnaður. Fólk er farið að líta á leikskóla allt öðrum augum enda er leikskólinn fyrsta skólastig barnsins. Þegar ég var að byrja að vinna í leikskóla fyrir 35 árum, þá var meira verið að gæta barnanna,“ segir Hjördís. „Nú er meiri kennsla og foreldrar eru farnir að skoða leikskóla út frá stefnu þeirra og spyrja sig hvað þeir vilji fyrir sitt barn,“ bætir hún við.

Heiðarsel gefur út námskrá fyrir hvern aldurshóp fyrir sig þannig að foreldrar geta séð hver séu markmiðin með hverjum þætti leikskólastarfsins. Á leikskólanum Heiðarseli er mjög stöðugur starfsmannahópur og hátt hlutfall menntaðra kennara.

Mynd/EJS: Ólöf, Halldóra og Hjördís við Heiðarsel.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024