Viðtökur framar björtustu vonum
Síðasta jólasýningin í kvöld
Leikfélag Keflavíkur sýnir um þessar mundir jólaleikrit eftir þá Jón Bjarna Ísaksson og Arnór Sindra Sölvason, sem báðir eru félagar í Leikfélagi Keflavíkur. Jólaleikritið heitir Jólin koma… eða hvað? og hefur því verið verið tekið ákaflega vel að sögn þeirra félaga. Blaðamaður Víkurfrétta settist niður með þessum ungu og efnilegu höfundum sem leikstýra verkinu ásamt því að semja en þetta er í fyrsta sinn sem þeir reyna fyrir sér á báðum sviðum. Þeir hafa síðan í ágústmánuði hafa þeir nánast lítið annað gert en að hrærast í heimi þeim sem þeir setja á svið á fjölum Frumleikhússins þessa dagana. Nú þegar hafa verið sýndar sjö sýningar og segja þeir Jón Bjarni og Arnór að viðtökur hafi verið framar þeirra björtustu vonum, og í raun langt síðan sýning hjá leikfélaginu var jafn vel sótt. „Þetta er fjölskylduleikrit með gamansömu ívafi,“ segir Jón Bjarni og eru þeir sérstaklega ánægðir með hve gríni þeirra hafi verið vel tekið og mikið hlegið á sýningum. Allir ættu því að hafa gaman af sýningunni.
Spennufall eftir frumsýningu
Eftir mikla vinnu og töluvert stress má segja að það hafi hreinlega slokknað á þeim piltum þegar þeir stóðu á sviðinu eftir frumsýningu og áhorfendur klöppuðu þeim lof í lófa. „Maður var í hálfgerðri vímu eftir þetta allt saman og maður áttaði sig á því að nú væri þetta bara búið,“ segir Arnór en þeir viðurkenna að síðustu mánuði hafi þeir gefið svefn að mestu leyti upp á bátinn.
Það hafði lengi blundað í þeim að skrifa sitt eigið verk en þeir hafa verið viðloðandi Leikhúsið um nokkurra ára skeið en þeir eru aðeins 19 og 21 árs gamlir. Jón Bjarni hefur verið mikið að leika og hann sér fyrir sér að sækja um í Leiklistarskólanum fljótlega. Arnór ætlar að stúdera fjölmiðlafræði en hann gæti hugsað sér að vinna í fjölmiðlum eða við eitthvað skapandi. Það er sannarlega mikið verka að setja upp eitt stykki leiksýningu og að mörgu að huga. Strákarnir segjast hafa fengið mikinn stuðning frá sínum nánustu og öllum hjá leikfélaginu til þess að sýningin yrði að veruleika. Þrjár mismunandi sögur tvinnast saman í leikritinu og koma saman í lokin með ægilegum endaspretti. Verkið hefur mikið lof og er síðasta sýning í kvöld en þó búast þeir félagar við því að jafnvel verði bætt við fleiri sýningum ef áhugi er fyrir hendi.