Viðtal: Bros kostar ekki neitt
Angela Amaro ólst upp á kaffihúsi í Portúgal - Nú rekur hún hið líflega Ráðhúskaffi í hjarta Reykjanesbæjar
Það er alltaf notaleg stemning á Ráðhúskaffi Reykjanesbæjar hjá Angelu Amaro. Hún þekkir nánast alla sína gesti persónulega og þykir vænt um marga þeirra. Fastagestir eru á öllum aldri og koma margir daglega til þess að sækja í veitingar eða góðan félagsskap. Angela fluttist til Íslands árið 1995 aðeins 21 árs gömul frá heimalandi sínu Portúgal.
„Ég hafði heyrt um saltfiskinn frá Íslandi en vissi annars ekkert um landið og hvar það var á korti, hvað þá hvar Patreksfjörður væri staðsettur,“ segir Angela og hlær en hún fluttist fyrst vestur á firði til þess að vinna í fiski. Hún ólst upp í Almeirim sem er klukkustundar fjarlægð frá Lissabon. Svæðið er mikið vínræktarhérð og þar búa um 20 þúsund manns. Angela á ekki langt að sækja kaffihúsaandann en foreldrar hennar ráku kaffihús í bænum. „Ég var 12 ára þegar þau opnuðu staðinn og ég hélt mjög mikið til þar. Síðar meir vann ég þar og sá m.a. um bókhaldið og eiginlega sinnti allflestu. Þegar ég setti á fót Ráðhúskaffi var reksturinn því ekki alveg nýr fyrir mér. Móðir mín er kokkur og ég lærði heilmikið af henni á kaffihúsinu í Portúgal, bæði bakstur og eldamennsku,“ segir Angela. Kaffi er alveg heilagt í Portúgal að sögn Angelu. Fólk sækir mikið í kaffihúsin og er algengt að fólk hittist fyrir vinnu, eftir hádegismat og á kvöldin og fái sér einn espresso. Fólk er ekki að fá sér kaffi heima heldur lítur fólk á þetta sem félagslegan viðburð að fá sér kaffi.
Hvernig var fyrsta árið á Íslandi?
„Ég bara ákvað strax að hugsa „hingað er ég komin til að vinna og reyna safna mér pening“. Ég ætlaði síðan aftur út og hefja nám en hér er ég enn. Ég fann fljótlega hvað mér fannst gott að vera hér. Ég dvaldi í tvö ár á Patreksfirði og flutti síðan til Hafnarfjarðar 1997. Þar kynnist ég eiginmanni mínum sem er einmitt frá Patró. Þegar hann klárar námið sitt fær hann vinnu í Reykjanesbæ og því flytjum við hingað ári seinna. Við eigum bæði eitt barn fyrir og saman eigum við son.“
Lærði íslensku á leikskólanum
Angela var ekki ýkja góð í ensku þegar hún fluttist hingað og alls ekki í íslensku. Tungumálið kom þó þegar hún fór að vinna með börnum. „Þegar ég kom til Reykjanesbæjar bauð mér yndisleg kona að koma í starfskynningu á leikskóla. Þar var ég í mánuð og hjálpaði sú reynsla mér að ákveða að taka næsta skref. Hjallatún opnaði stuttu seinna og sótti ég um starf þar sem ég fékk. Það reyndist mér vel upp á samskipti og að læra tungumálið. Ég lærði líka langmest um íslenska menningu á leikskólanum. Ég var eini útlendingurinn að vinna þar og þess vegna töluðu allir við mig íslensku. Með því komst mun auðveldara inn í samfélagið. Ég fékk aukið sjálfstraust við það það að læra hversu sjálfstæðar konurnar eru á Íslandi.“
Eftir tímann á leikskólanum fékk Angela vinnu í Fríhöfninni sem var mjög skemmtileg að hennar sögn. „Ég kunni vel við mig í flugvallarumhverfinu en það var svolítið erfitt að vera í vaktavinnu samhliða fjölskyldurekstri.“
Nú eru komin þrjú ár síðan Angela tók við rekstri Ráðhúskaffis. Hún var við vinnu í Fríhöfninni þegar hún fékk óvænt tilboð sem hún gat ekki hafnað.
„Mér fannst alltaf vanta kaffihús hér á svæðið og ég hafði alltaf hugsað mér að opna eitt slíkt, kannski vegna uppeldisins. Svo bara gerðist það allt í einu. Axel Jónsson hjá Skólamat hafði samband við mig til þess að reka kaffihúsið. Ég ákvað að taka sénsinn og hella mér út í þetta, ég fékk góða tilfinningu fyrir þessu og þurfti ekki mikið að hugsa mig um. Það þýðir þó ekki að þetta hafi verið auðvelt að byggja upp fyrirtækið. Ég tók svo við af Axel í mötuneytinu hér í Ráðhúsinu og er að útbúa mat fyrir um 30 starfsmenn á dag í hádeginu, og svo kemur fólk að utan einnig í hádegismat,“ segir Angela og brosir.
Oreo frappó er langvinælast
Það langvinsælasta á kaffihúsinu er Oreo frappuccino sem er kaldur drykkur með mulnum ís, með eða án kaffiskots. Ofan á fer þeyttur rjómi og mulið Oreo kex. Unga fólkið er sérstaklega hrifið af þessum drykk og er gangandi auglýsing fyrir Angelu. Annað sem er vinsælt eru quesedila sem eru tortillapönnukökur með kjúkling, grænmeti og sósu. „Ég reyni að hafa matinn í hollari kantinum en það verða alltaf að vera sætindi líka.
Pastel de nata eru vinsælustu kökurnar í Portúgal og þær geri ég alltaf og sel á laugardögum á kaffihúsinu. Í Lissabon er vinsælasti staðurinn sem gerir þessar kökur að selja um fimm þúsund stykki á dag. Það er erfitt að finna rétta smjördeigið til þess að útbúa kökurnar þannig að ég hef verið að þróa það síðustu tvö ár. Kökurnar eru ekki svo dísætar, eru með mjúku kremi í miðjunni sem samanstendur af eggjarauðu, sykri, rjóma og fer svo í ofn. Nú eru kökurnar orðnar ansi vinsælar hér og fólk sem kemur sérstaklega hingað á laugardögum til þess að fá sér. Ég þarf þó ansi oft að útskýra fyrir fólki hvað þetta er og margir taka sénsinn og smakka. Svo eru nokkrir Portúgalar í Reykjavík sem eru farnir að panta hjá mér nokkur stykki um helgar. Ég væri til í að bjóða uppá meira af portúgölskum veitingum og hef rætt það við móður mína sem er kokkur. Við sjáum til hvernig það fer en það væri gaman að hafa einhverja sérstöðu.“
Pastel de nata eru vinsælustu kökurnar í Portúgal.
Alltaf síbrosandi
Ráðhúskaffi er með mikið af fastagestum og mikið um að eldri borgarar komi í hádeginu, fái sér að borða, lesi blöðin og skoði mannlífið í ráðhúsinu og bókasafninu. „Ég spjalla við marga kúnnana og hef kynnst fullt af góðu fólki sem heimsækir kaffihúsið. Þess vegna finnst mér ekkert leiðinlegt að vera vinna til kl.18 alla daga. Mér finnst mikilvægt að hafa gott viðmót í þjónustunni. Ef ég brosi ekki, þá er eitthvað alvarlegt í gangi. Það sem gleður mig mest er þegar yngstu fastagestirnir, tveggja til þriggja ára börn koma inn, kannast við mig og vinka mér eða knúsa mig. Ferðamenn hafa verið duglegir að koma í sumar, þá koma sumir eftir að þeir lenda en kíkja svo aftur til mín í lok ferðar til þess að segja bless.“
Angela stefnir á að halda ótrauð áfram í rekstrinum og bæta frekar í. Til stendur að móðir hennar komi henni til aðstoðar innan skamms og þá verður aukið við úrval veitinga. „Mér líður vel hér og langar að halda áfram að reka kaffihúsið. Fyrir utan alla góðu kúnnana er þetta líka ofboðslega góður hópur af fólki sem vinnur hér í húsinu, á bókasafninu og ráðhúsinu. Ég vil koma vel fram við alla sem koma í húsið, hvort sem það eru mínir viðskiptavinir eða hælisleitendur sem eru að hitta starfsfólk hjá Reykjanesbæ. Ég brosi til allra, bros kostar ekki neitt.“
Angela er svo liðleg og þægileg og hún dregur að sér fólk. Hún er svo almennileg og geislar af henni vinsemd
Skúli Magnússon er einn af tryggum fastagestum Angelu en hann er sérstaklega hrifinn af súpunum hennar.
„Ég kem hérna mjög oft en stundum er maður að sinna hinum ýmsu verkefnum þannig að ég kem ekki á sama tíma alltaf. Oftast kem ég seinnipartinn í kaffitímanum en ef ég er á ferð niðri í bæ þá kem ég fyrr og fæ mér súpu. Það eru alveg frábærar súpur hérna.
Angela er svo liðleg og þægileg og hún dregur að sér fólk. Hún er svo almennileg og geislar af henni vinsemd. Viðmót hennar gerir staðinn svo góðan og dregur fólk að,“ sagði Skúli í samtali við blaðamann áður en hann gæddi sér á súpunni.
[email protected]