Viðtal - Eyjólfur Gíslason „Mikilvægt að læra af fortíðinni“
Eyjólfur Gíslason er 24 ára Keflvíkingur sem ætlar sér stóra hluti í framtíðinni. Að undanförnu hefur Eyjólfur setið að skrifum en hann hyggst gefa út bók síðar á þessu ári. Í bókinni fjallar hann um tíma í lífi sínu er hann barðist við átröskun og ýmislegt annað sem honum liggur á hjarta. Eyjólfur er búsettur í Reykjavík þar sem hann starfar hjá Nova en einnig hefur Eyjólfur unnið að fyrirlestrum sem hann ætlar sér að flytja um land allt á næstunni. Við hjá Víkurfréttum fengum Eyjólf til að fræða okkur um verkefni sín og um leið forvitnast aðeins um áhugamál hans og hvað hann gerir sér til afþreyingar.
„Að undanförnu hef ég verið að skrifa bók sem kemur út á þessu ári. Í henni greini ég frá ákveðnum upplifunum mínum þegar ég var veikur strákur með átröskun. Mér finnst það mikilvægt innlegg í umræðuna að koma fram með hvernig þetta var hjá mér og sýna fram á að staðreyndin í málinu er að allir geta fengið átröskun, óháð kyni eða kynhneigð. Á næstu dögum og vikum er ég síðan í undirbúningi fyrir fyrirlestraröð sem er áætlað að ég fari með út um allt land. Upphafið af því var að fyrir stuttu síðan kom ég fram á Forvarnardegi Verzlunarskóla Íslands með tvo fyrirlestra undir yfirskriftinni „Draumar eru gerðir til þess að rætast“ en í þeim fyrirlestri fjalla ég um átröskun, samkynhneigð og þá fordóma sem skapast í kringum þetta tvennt. Það er i raun óháð umfjöllunarefninu sem fólk getur tengt sig við þetta, því það eru flestir sem hafa upplifað eitthvað neikvætt í lífinu og ég legg áherslu á að ræða um það á uppbyggilegan hátt. Mér finnst leiðinlegt að þurfa að tala um allt þetta neikvæða í fyrirlestrinum, en það er nauðsynlegt til þess að kynnast sögu minni. Um leið legg ég mikla áherslu á að hið jákvæða komi fram og hvernig maður setur sér markmið til þess að láta drauma sína rætast,“ segir Eyjólfur aðspurður um hvaða verkefni hann sé að fást við þessa dagana.
Mikilvægt að sættast við fortíðina og draga af henni lærdóm
„Ég hef síðastliðin ár tekið að mér að hjálpa einstaklingum, sem hafa átt erfitt m.a. vegna átröskunar. Það hefur gefið mér mikið og á þeirri braut ætla ég að halda áfram með bókinni minni og þeim fyrirlestrum sem ég mun koma til með að halda á næstu vikum og mánuðum. Umræðan í samfélaginu er mikilvæg og ég tel mig geta miðlað af hreinskilni og frá hjartanu um mikilæg málefni sem snerta flest allar fjölskyldur á Íslandi með einum eða öðrum hætti. Það er setning sem ég segi í fyrirlsetrinum mínum sem hljóðar þannig ,,Fortíðin er sigurinn að framtíðinni." Þannig hugsa ég lífið mitt í dag. Það er mikilvægt að sættast við fortíð sína, leitast eftir því að læra af henni og taka með sér þann lærdóm inn í framtíðina. Þannig stendur þú uppi sem sigurvegari. Þegar fyrirlestrinum mínum er lokið í hvert skipti þá vonast ég eftir því að áheyrendur mínir hugsi um sitt líf, sína drauma og hvernig þeir ætla að láta þá rætast. Það er jú í okkar valdi að skapa okkar tækifæri, láta drauma okkar rætast og ná okkar markmiðum.“
Þegar Eyjólfur er spurður hvort hann sakni Keflavíkur segir hann; „Ég bý í miðborg Reykjavíkur og kann vel við borgarlífið. Það verður að segjast að möguleikarnir eru fleiri í Reykjavík heldur en fyrir sunnan. Þar er margt sem spilar inn í en það er nauðsynlegt að benda á þann vanda sem uppi er í samfélaginu á Suðurnesjum. Vandi sem ríkisstjórn Íslands hefur kosið að líta framhjá með öfgafullum hætti að mínu mati. Þegar maður býr ekki í heimabæ sínum þá getur maður alltaf fundið eitthvað sem maður saknar, en í mínu tilviki þá væri það aðallega návígið við fjölskylduna, annað er bara veraldlegs eðlis og skiptir engu máli. Mikilvægasta af öllu er að sinna hlutverki mínu sem faðir. Ég á son sem skiptir mig öllu hjartans máli og er það mikilvægasta í mínu lífi.“
Hver eru þín framtíðaráform?
„Á komandi árum ætla ég að klára námið mitt en Ég er í félags-og fjölmiðlafræði ásamt því sem ég tek stjórnmálafræði samhliða. Þannig ég lengi námið mitt og sækist eftir að fá tvær gráður í lokin ef allt gengur eftir. Er hálfnaður með námið. og jafnvel mennta mig enn frekar. Ég ætla að gefa út bókina mína og fylgja henni vel eftir ásamt því að vinna að frekari sérverkefnum og leitast eftir því að skapa mér enn frekari tækifæri á hinum ýmsu sviðum. Ég hef stóra drauma sem ég ætla mér að láta rætast.“
Áhugamál
„Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á leiklist og því listræna í heiminum. Einnig eru skriftir ofarlega í huga mínum á hverjum degi um þessar mundir þar sem ég er eins og áður segir að skrifa mína fyrstu bók. “
Bitinn
„Þegar ég kem til Keflavíkur í heimsókn finnst mér nauðsynlegt að fá mér hamborgara hjá Villa.“
Bókin
„Ég hef ekki verið að lesa mikið nýlega og ætti að gera miklu meira af því. Þegar maður er sjálfur að skrifa þá gefur maður sér ekki tíma til þess að lesa mikið.“
Tónlistin
„Ég er að hlusta núna á nýja diskinn hennar Adele, sem mér finnst einstaklega góður og nær manni strax enda tekur röddin hennar mann á annan stað, gæsahúð alveg í gegn. Mitt uppáhald hefur alltaf verið Eric Clapton frá því að ég og pabbi hlustuðum saman á hann þegar ég var yngri. Annars er ég með uppáhald fyrir fallegum textum sem hafa góða merkingu. “
Þátturinn
„Þegar kemur að þáttum þá er ég algjörlega forfallinn Glee aðdáandi og get alveg hoppað úr sófanum og sungið með þeim í Glee Club ef þess ber undir. Síðastliðin kvöld hef ég verið í Keeping up with the Kardashians maraþoni. Svo til að toppa þetta allt saman þá horfi ég á Gossip Girl.“
Kvikmyndin
„Ég sá The Black Swan síðast og hún er alveg mögnuð. Þar sýnir Natalie Portman stórleik og á skilið öll þau verðlaun sem hægt er að fá fyrir frammistöðu sína í myndinni. Ég hef aldrei átt mína uppáhaldsmynd en margar gætu komið til greina. Mér finnst myndir sem skilja eftir sig umhugsun um ákveðin málefni vera merkilegastar. Mér finnst það gefandi að geta upplifað ákveðnar tilfinningar í gegnum kvikmyndahandrit og leik í kvikmyndum. Ef það gerist í kvikmynd, þá er hún vel gerð. En ég get alltaf sett Hairspray í tækið og skemmt mér konunglega, og ætti svosem ekkert að vera að segja frá því svona rétt til að halda kúlinu.“
Vefsíðan
„Að sjálfssögðu vf.is. Ásamt því finnst mér ótrúlega gaman að skoða saganendalausa.blogspot.com, itsnothelgi.blogspot.com auk þess sæki ég allar helstu fréttasíður til að afla mér upplýsinga um stöðu mála í heiminum. Ég vafra um netið og finnst skemmtilegt að detta inn á síður sem eru áhugverðar.“