Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Víðtæk páskaeggjaleit í dag í tilefni af 30 ára afmæli Víkurfrétta
Fimmtudagur 1. apríl 2010 kl. 09:30

Víðtæk páskaeggjaleit í dag í tilefni af 30 ára afmæli Víkurfrétta


Víkurfréttir efna til páskaeggjaleitar í dag í tilefni af því að um þessar mundir eru liðin 30 ár frá stofnun blaðsins. Af því tilefni hafa 30 vegleg páskaegg verið falin í hverju byggðalagi Suðurnesja eða alls 150 páskaegg.  Til mikils að vinna fyrir þá sem finna páskaeggin.  Í hverju þeirra er nefnilega vinningur, sá stærsti utanlandsferð að eigin vali til einhverra áfangastaða Icelandair í Evrópu. Þá er ein Playstation 3 - tölva í vinning og fjórir I-Pod spilarar frá Tölvulistanum, þyrluferð á goðstöðvarnar með Norðurflugi og fjöldinn allur af smærri vinningum.

„Við vorum ákveðnir í að gera eitthvað skemmtilegt með dyggum lesendum okkar í tilefni 30 ára afmælisins. Úr því að það hitti á páskana fannst okkur tilvalið að efna til páskaeggjaleitar í hverju sveitarfélagi á svæðinu til að fá sem flesta með. Við fengum ýmsa aðila til að koma að þessu með okkur með veglega vinninga þannig að þetta verður bara gaman,“ segir Páll Ketilsson, eigandi og ritstjóri Víkurfrétta.

Páskaeggin hafa verið falin á völdum svæðum í hverju sveitarfélagi til að gera leitina auðveldari.

Í Reykjanesbæ eru eggin falin á lóðinni umhverfis Njarðvíkurkirkju. Í Garði eru þau falin í grjótgarðinum við Flösina og í Sandgerði á lóðinni við Vörðuna. Þá eru einnig nokkur egg falin við fuglaskoðunarhúsið á tjörninni.
Í Vogum eru eggin falin í Aragerði.  Í Grindavík eru þau falin á tveimur stöðum, þ.e. í Sólhofinu og svæðinu þar í kring. Einnig á nýja tjaldsvæðinu.

Til að gera leikinn auðveldan og skemmtilegan eru páskaeggin ekkert allt of vel falin þannig að nú er um gera að drífa alla fjölskylduna út að leita.


Efri mynd:
Páll Ketilsson, ritstjóri, og Hilmar Bragi Bárðarson, fréttastjóri með hluta páskaeggjanna sem voru sérframleidd af Sambó fyrir Víkurfréttir. Innan í hverju eggi er nefnilega vinningur.

Neðri mynd:
Starfsmenn Víkurfrétta fóru um svæðin í morgun og földu páskaegginn. Hér felur Páll Ketilsson eitt eggið undir tré á ónefndum stað.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024