Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Víðir, Þórólfur og Alma miklu betri en pólitíkusarnir sem ráða för í Danmörku
Lárus sér um reglulegar hitafarsfréttir frá Danmörku til vina sinna á Íslandi - og hefur gaman af :-)
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
sunnudaginn 19. apríl 2020 kl. 13:12

Víðir, Þórólfur og Alma miklu betri en pólitíkusarnir sem ráða för í Danmörku

Lárus Frans Guðmundsson býr í Solrød Strand í Danmörku. Bærinn er á Stór Kaupmannahafnarsvæðinu og þar hefur hann búið síðan 2004 ásamt Ástu Birnu, eiginkonu sinni. Þau eiga fjögur börn. Tvö búa heima, einn í Odense og einn í Reykjanesbæ. Lárus starfar sem verkefnastjóri hjá tölvufyrirtæki, SimCorp, en þar fóru allir heim að vinna eftir að landið lokaði. Utan vinnu hefur Lárus verið að hjóla og styðja Team Rynkeby söfnunarverkefnið.

Hér má lesa viðtalið við Lárus í Víkurfréttum - smellið hér

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Víkurfréttum lét forvitni á að vita hvernig Suðurnesjafólk í útlöndum er að upplifa heimsfaraldurinn á sínu svæði. „Fólk er rólegt hér í kringum okkur, flestir eru heima þar sem skólum og leikskólum var lokað og allir opinberir starfsmenn sendir heim. Flest fyrirtæki gerðu það sama, fólk fer sjaldnar í búð, verslar fyrir fleiri daga í einu og í stað þess að börnin séu með þá er það bara fullorðnir,“ segir Lárus í samtali við Víkurfréttir.

– Hefurðu áhyggjur?

Já og nei, við erum hraust og börnin okkar en tengdaforeldrar mínir erum um áttræðisaldurinn og mamma að nálgast sjötugt og því eru þau í áhættuhóp.

– Hvaða áhrif hefur faraldurinn á þitt daglega líf? Hvernig eru dagarnir hjá þér núna? Hefur þú gert miklar breytingar í daglegu lífi?

Já, við erum náttúrlega bara heima. Breyting hjá mér á vinnunni er lítil, við notum Teams fyrir okkar fundi og höldum því áfram. Sem verkefnisstjóri er ég mikið á fundum og flakka um bygginguna og það sem breyttist mest hjá mér er að ég labbaði um 7000–8000 skref á dag en sit núna á loftinu heima.

Utan vinnu eru líka breytingar en dóttirinn er á karate æfingum fjórum, fimm sinnum í viku og eru við foreldranir með að styðja okkar klúbb. Öllum mótum og viðburðum hefur verið aflýst. Ég hef sjálfur verið að hjóla síðastliðin ár og það er allt með öðru sniði núna og ekki svipur hjá sjón.


– Hvenær fórstu að taka COVID-19 alvarlega?

Við fengum heimsókn í síðustu viku febrúar af sýktum einstaklingi í vinnuna og var ein deild send heim eftir þá heimsókn. Ég er hluti af IT-viðbragðsteymi hjá fyrirtækinu og það var kallað saman. Við höfðum auðvitað fylgst með fréttum frá Íslandi en yfirvöld í Danmörku voru töluvert seinni til að bregðast við og þegar það gerðist þá var það af fullum þunga. Sem dæmi þá voru allir sem komu frá Ischgl-skíðasvæðinu settir í sóttkví á Íslandi en sama dag fór vinnufélagi minn þangað á skíði og mætti svo til vinnu.

– Hvernig ert þú að fara varlega í þessu ástandi?

Við höldum okkur heima við, förum ekki í heimsóknir eða hittum vini. Þegar við förum út að versla þá reynum við að halda tveim metrum í næsta mann og notum spritt. Heimavið þá er maður farinn að þvo sér í tíma og ótíma.

– Hvernig finnst þér yfirvöld á þínum stað vera að standa sig?

Ekkert sérstaklega, hér eru það pólitíkusar sem ráða ferðinni og að bera það saman við Ísland þá eru Víðir, Þórólfur og Alma miklu betri. Sem dæmi á blaðamannafundi þegar landinu var lokað þá sagði forsætisráðherra að þetta væri pólitísk ákvörðun og sóttvarnalæknir hér sagði að það væru ekki læknisfræðilegar ástæður til að loka landamærum. Þrátt fyrir að það hafi verið samstaða á pólitíska sviðinu á þeim punkti þá eru núna mismunandi skoðanir komnar fram, sérstaklega hvernig eigi að aflétta þeim.

– Hefur þú fylgst með aðgerðum heima á Íslandi og borið þær saman við það sem er verið að gera á þínu svæði?

Já og það verður að spyrja að leikslokum en það er ótti að kúrfan í Danmörku hafi ekki náð að rísa nóg og að við verðum í lengri tíma að fara í gegn en önnur lönd. Nú á að opna aftur leikskóla og grunnskóla fyrir yngstu bekkina (0.–5. bekk) en aðrar lokanir eru í gildi til 10. maí.

– Hefur eitthvað komið til tals að yfirgefa svæðið og koma heim til Íslands?

Nei, veit ekki hvert við ættum svo sem að fara. Við búum hér og verðum hér þangað til við ákveðum annað og þá myndum við flytja heimilið.

– Ertu í miklum samskiptum við þitt fólk og vini heima á Íslandi núna? Meira en vanalega?

Já, að einhverju leyti. Þar sem við erum meira heima er meiri tími til að vera í samskiptum við fjölskylduna á Íslandi. Þetta er samt sá tími ársins að ég sendi oftar myndir úr garðinum, af hitamælinum og grillinu, fæ þannig viðbrögð að heiman þar sem oft er snjór ennþá en 10–15 gráður hér yfir daginn þegar sólin skín.

–Hvernig hagar þú innkaupum í dag?

Nei, við höfum verslað í þeim matvörubúðum sem við gerðum áður, sem eru hér í bænum. Við veljum tíma þegar er minna að gera í búðunum ef við getum.

– Hvað gerir þú ráð fyrir að ástandið muni vara lengi?

Við verðum líklega út þetta ár með einhverjar ráðstafanir, við gerum ráð fyrir að fara á karatemót í Póllandi og Slóvakíu í haust og keyrum líklega á báða staði.

– Hvernig eru aðrir fjölskyldumeðlimir að upplifa ástandið? Er ótti?

Við upplifum ekki ótta í okkar fjölskyldu, fólk er varkárt og passar sig og sem betur fer höfum við sloppið ennþá en Ásta er ein af þeim sem þarf að mæta í vinnu og því erum við með spritt í bílnum sem dæmi. – Hvað finnst þér mikilvægast á þessum tímum?
Að við tökum öll ábyrgð og hugsum um hvort annað, verjum tíma með börnunum okkar og hlýðum Víði.

MARGT FLEIRA Í FJÖLBREYTTUM 76 BLS. VÍKURFRÉTTUM VIKUNNAR