Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Víðir í Garði fagnar 70 ára afmæli
Laugardagur 4. nóvember 2006 kl. 13:05

Víðir í Garði fagnar 70 ára afmæli

Knattspyrnufélagið Víðir í Garði heldur upp á 70 ára afmæli sitt í kvöld, laugardaginn 4. nóvember. Af því tilefni verður efnt til matarveislu og skemmtidagskrár í samkomuhúsinu í Garði sama dag. 

 

Knattspyrnufélagið Víðir var stofnað árið 1936 og var með í deildarkeppninni af og til fram til ársins 1968. Um miðjan 9. áratugarins átti liðið hvað mestri velgengni að fagna en árið 1982 vann það sér sæti í gömlu annarri deildinni (nú fyrsta deild). Árið 1985 var eftirminnileg stemmning í Garðinum þegar liðið vann sér sæti í 1. deild (nú úrvalsdeild) við mikinn fögnuð bæjarbúa. Þvert ofan í allar hrakspár spilaði Víðir í efstu deild í þrjú ár uns það féll niður í 2. deild. Síðan þá hefur gengið verið upp og ofan og síðustu tvær leiktíðir hefur liðið spilað í 3.deild. Með ráðningu Steinars Ingimundarssonar sem þjálfara eru bundnar vonir við að hægt verði að rífa liðið upp úr þeirri lægð sem það hefur verið í.  

 

Afmælisfagnaðurinn verður á laugardaginn, eins og áður sagði. Í matarveislunni verður boðið uppá bland af sjávarréttum og lambakjöti.  Ætlunin er að bjóða upp gamla búninga, happadrætti að hætti Sigurjóns og veitt verða verðlaun fyrir bestu leikmenn sumarsins, auk annarra skemmtiatriða sem eru í vinnslu.  Gleðisveitin Buff leikur svo fyrir dansi fram á nótt. 

 

Borðhald hefst klukkan 20 og verður húsið opnað klukkan 19:15.

 

Mynd: Á Víðisvellinum frá árum áður.  Engu líkara en að Björn Vilhelms sé þarna að taka hælsendingu á Guðjón Guðmundsson, fyrrum fyrirliða Víðis.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024