Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Fimmtudagur 17. október 2002 kl. 08:38

Viðhorf og viðbrögð gagnvart fötluðum einstaklingum mikið breytt

Síðasta sunnudag var Einar Guðberg Gunnarsson gerður að fyrsta heiðursfélaga Þroskahjálpar Suðurnesja á 25 ára afmælishátíð félagsins sem haldin var í Stapa. Einar var fyrsti formaður félagsins og hefur um árabil unnið mjög að málefnum félagsins og beitt sér í þágu þess. Einar var einn helsti hvatamaður að stofnun félagsins fyrir 25 árum, auk annarra frumkvöðla að stofnun þess. Í þakkarræðu sem Einar hélt á afmælishátíðinni sagði hann að margt hefði áunnist í málefnum fatlaðra en stærsti sigurinn væri sú breyting sem orðið hefði á viðhorfi til fatlaðra: “Ég gleymi því aldrei þegar ég fór með Val son minn í bíó fyrir 25 árum. Fólk hópaðist í kringum okkur til að líta á þetta undur sem því þótti Valur vera. Í dag þekkist þetta ekki og það þykir mér vera stærsti sigurinn," segir Einar.Valur sonur Einars er 31 árs gamall og í ræðu sinni lýsti Einar því að þegar Valur fæddist var þeim ráðlagt að koma barninu fyrir til vistunar á Skálatúni: “Við fórum í þangað í heimsókn með opnum huga og okkur var vel tekið, en við okkur blasti hrein martröð. Allur aðbúnaður var hræðilegur enda hælið þá rekið af miklum vanefnum. Í stórum skála voru klósett í röðum við einn vegginn, án nokkurs skilrúms og sturtur við annan, án nokkurra hengja. Og í “geymslunni" eins og við kölluðum hana, blöstu við okkur 44 andlit fatlaðra barna og við sem héldum að Valur væri sá eini með þessa tegund fötlunar. Hvaðan komu öll þessi börn? Heimleiðin einkenndist af djúpum martraðakenndum hugsunum og þegar við komum heim hétum við foreldrar Vals því að þetta skyldi aldrei verða hans hlutskipti. Þegar við kynntumst foreldrum annarra barna á Suðurnesjum, sem strengt höfðu sömu heit, fórum við að ræða stofnun hagsmunafélags á Suðurnesjum. Stofnfundurinn var loks haldinn hér í Stapa, eftir stífan undirbúning sem einkenndist af miklum eldmóði, þann 10. október 1977," segir Einar.

Í samtali við Víkurfréttir sagði Einar að fyrir rúmum 30 árum þegar Valur fæddist hafi verið litið á það sem sjálfgefin hlut að stofna bú og eignast börn: “Þegar Valur fæddist þá lét læknir okkur foreldrana vita að ekki væri allt með felldu með drenginn og að við gætum gengið að því sem vísu að hann væri vangefinn, eins og það var kallað þá. Þessar fréttir vöktu ótal spurningar hjá okkur, en það var fátt um svör," segir Einar.
Eins og áður segir var aðstaða fyrir fötluð börn á Íslandi ekki upp á marga fiska á þessum tíma og virtist lausnin vera að koma þeim fyrir í “geymslum" út um allt land: “Í sumum tilfellum var fötluðum börnum komið fyrir í “geymslum" erlendis og í einstaka tilfellum var systkinum þessara fötluðu einstaklinga jafnvel ekki kunnugt um tilvist þeirra," segir Einar og bætir við að í dag séu viðhorf og viðbrögð gagnvart fötluðum einstaklingum eins og best verður á kosið:

“Þrátt fyrir að mikið hafi áunnist í málefnum fatlaðra þá er um baráttu að ræða sem aldrei mun ljúka. Ég og Valur viljum koma á framfæri sérstöku þakklæti og baráttukveðjum til stjórnar Þroskahjálpar á Suðurnesjum og langar okkur að minnast þeirra sem hafa unnið frábært starf að uppbyggingu félagsins en eru fallnir frá.
Þessir aðilar eru: Séra Páll Þórðarsson, Hallur Guðmundsson, Ingiþór Geirsson slökkviliðsstjóri og þrír skjólstæðingar félagsins þeir Sigurður Sigurðsson, Guðmundur Hallsson og Ragnar Ingiþórsson sem Ragnarssel er nefnt eftir," segir Einar að lokum.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024