Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Video: Reykjanesið með augum ferðamanna
Þriðjudagur 30. ágúst 2016 kl. 10:40

Video: Reykjanesið með augum ferðamanna

Íslendingum fjölgar um 60% á svæðinu - Umferðin á Reykjanesi að aukast í takt við straum ferðamanna á Íslandi

Suðurnesjamenn fara ekki varhluta af auknum ferðamannastraumi til landsins. Augljós merki um áhrif ferðamennskunnar er vöxturinn í bílaleigugeiranum og gríðarleg umsvif og álag í flugstöðinni. Nú er svo komið að sífellt fleiri ferðamenn sækja Reykjanesið og helstu perlur þess heim. Bláa Lónið er orðið fyrirbæri út af fyrir sig þar sem færri komast að en vilja. Áhugaverðir staðir á svæðinu draga sífellt að sér fleiri ferðamenn. Blaðamenn Víkurfrétta heimsóttu þessa staði í liðinni viku og ræddu við ferðamenn og staðarhaldara. Hrafnhildur Ýr  Hafsteinsdóttir, verkefnastjóri ferðamála hjá Reykjanesbæ, segir að aukning ferðamanna á landinu sé í takt við aukningu á Reykjanesi. Hún segir 30% fleiri erlenda ferðamenn hafa heimsótt upplýsingamiðstöð í Duus húsum í Reykjanesbæ en í fyrra. Heimsóknum Íslendinga hefur hins vegar fjölgað þar um 60%. „Það er almenn tilfinning fólks að umferðin á svæðinu sé að aukast í takt við umferð ferðamanna á Íslandi sem og fyrirspurnir um svæðið,“ segir Hrafnhildur. Bæði hefur gistinóttum og gistirýmum á svæðinu fjölgað auk þess sem dvöl ferðafólks er að lengjast.

Sérstök tilfinning að labba yfir brúna

Henning Hexeberg er hlaupari frá Noregi sem margsinnis hefur komið til Íslands. Hann segir sérstakan kraft búa á Reykjanesi. „Ég elska Ísland og hef komið hingað oft á síðustu 20 árum. Hef ferðast mest hér í kring en líka farið norður á Akureyri. Reykjanesið er framandi staður, að geta verið á milli Evrópu og Ameríku er magnað og gefur mér sérstaka tilfinningu þegar ég labba yfir brúna. Það er einhver tilfinning sem ég hef í maganum um að þetta sé skrítið og öðruvísi. Ég vona að fleira fólk frétti af þessum stað og komi og upplifi þetta,“ hafði Norðmaðurinn á orði við blaðamenn Víkurfrétta á brúnni milli heimsálfa.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Besta ljósmyndin kom á Garðskaga

Maros Tunak er áhugaljósmyndari frá Tékklandi hefur komið tvisvar til Íslands síðustu fimm ár. Hann kemur til Íslands vegna sérstöðu landsins sem hann segir vera vegna hreinnar náttúru. Hann er að ferðast ásamt konu sinni Veroniku og systur hennar Klöru. Maros hefur sérstaklega gaman af því að ljósmynda landið enda mikið um opin og hrein svæði að hans sögn. Uppáhalds ljósmyndin sem Maros tók í ferðalaginu er af Garðskagavita og hann getur ekki útskýrt af hverju myndin snertir hann sterkar en aðrar myndir sem hann tók. „Við byrjum ferðalagið á Reykjanesi og förum svo um Suðurlandið og allan hringveginn. Þegar ég ferðaðist til Íslands fyrir fimm árum heimsótti ég einnig Reykjanesið og vildi koma aftur.“

Orkan og sagan hafa aðdráttarafl

Sigurður Þorsteinsson, veitingamaður á Garðskaga, segir söguna og orku frá svæðinu hafa sérstakt aðdráttarafl fyrir ferðamenn. „Þetta hefur farið langt fram úr væntingum hjá okkur. Okkur hefur verið sérstaklega vel tekið af heimamönnum frá Reykjanessvæðinu. Fólk úr bænum hefur líka verið að heimsækja okkur þegar það hefur heyrt af kaffihúsinu,“ segir Sigurður en litla kaffihúsið á Garðskaga hefur fallið vel í kramið hjá fólki. „Ferðamennirnir sem koma til okkar eru oft að skoða svæðið áður en þau fljúga aftur út og þá reynum við að segja þeim skemmtilegar sögur af svæðinu og dreifa þeim áfram um Reykjanesið. Fólk getur oft ekki gefið ástæðu af hverju það er hrifið af þessu svæði en mig grunar að það sé orkan sem kemur frá sjónum og sögurnar um að eitt sinn hafi þetta verið mikilvægur staður vegna fiskveiða. Fólk alveg elskar að heyra sögur frá því hvernig staðurinn hér var áður fyrr. Fólki finnst mjög merkilegt að við skulum bara nýverið hafa gert um gamla vitann og opnað í sumar eftir að hann hafi staðið auður í 60 ár.“

Kaffihúsið er eflaust með þeim minni á landinu og er boðið uppá kaffi, drykki og meðlæti. Stefnt er á að bæta við vöfflum og sjávarréttasúpu síðar. „Við erum að reyna að kynna allt svæðið, Sandgerði og Reykjanesbæ líka. Ef við vinnum öll saman ná allir árangri. Það hefur vantað afþreyingu, við verðum að hugsa hvernig við höldum ferðamanninum hér á svæðinu í lengri tíma. Við fáum oft fyrirspurnir frá erlendum ferðaskrifstofum um hvað sé hægt að skipuleggja héðan, eins og að fara Suðurstrandarveginn. En við þurfum að setja meiri fókus á það að skoða hvernig við getum þjónustað fólk á meðan það er hérna. Ef fólk hefur nóg að gera hérna og er ánægt þá spyrst það út. Ferðamönnum mun fjölga meira hér á næstunni og erum við að bregðast við því með því að auka við salernisaðstöðu. Grindavík er nú þegar að gera frábæra hluti en við í Garði, Sandgerði og Reykjanesbæ þurfum að standa og vinna betur saman.“

Gullmoli fyrir ferðamenn

German Khlopin, tónlistarkennari frá Rússlandi, hefur búið um árabil í Reykjanesbæ. Hann fer reglulega um Reykjanesið og nýtur þess að vera ferðamaður á nýjum heimaslóðum. Hann var við Valahnjúk ásamt Jekaterinu eiginkonu sinni þegar blaðamenn bar þar að garði. „Mér finnst gaman að koma á þetta svæði vegna hafsins og sólarinnar en líka gaman þegar það er rok og rigning. Þetta eru kjöraðstæður fyrir ljósmyndara að taka flottar myndir frá Íslandi. Ég og konan mín heimsækjum þetta svæði reglulega og tökum myndir. Ég er mjög hrifinn af Reykjanesinu, Garðinum og  Bláa Lóninu. Garðskaginn er æðislegur staður til að taka myndir, þar nær maður svo flottum skugga og sérstaklega við sólsetur.“

German hefur búið í nokkrum öðrum löndum og segir bláa himininn það sérstakasta við Ísland, hvernig  hann getur breyst á örskotsstundu og verið mismunandi á litinn ef maður horfir í mismunandi áttir. „Ferska loftið er líka er eitthvað sem finnst ekki á meginlandi Evrópu. Mér finnst að það ætti að bjóða fleiri ferðir um Reykjanesið og Reykjanesbæ. Þetta er gullmoli sem við getum boðið ferðamönnum, rétt hjá flugvellinum og Bláa lóninu.“

Ferðamönnum líður vel í öruggu umhverfi

Þeir sem hafa gert sér ferð út á Garðskaga í sumar hafa eflaust tekið eftir myndarlegri byggingu sem rís í nágrenni við vitana tvo. Þar byggja stórhuga heimamenn glæsilegt hótel með mikil tengsl við náttúruöflin. „Þetta byrjaði sem hugmynd yfir kaffibolla. Við erum búnir að reka gistiheimili í Garðinum í fjögur ár og verið mikil traffík. Þegar maður talar við fólk kemst maður fljótt að því að því líkar vel að vera hér í sveitinni og upplifa kyrrðina, norðurljósin og nálægðina við dýrin. Við ákváðum því að stækka við okkur,“ segir Gísli Heiðarsson en hann á sjálfur bjálka sumarhús og ákvað því að hafa hótelið þannig. Húsið kemur nánast tilbúið frá finnsku fyrirtæki og tekur svo skamman tíma að setja það saman fyrir vana menn.

„Þann 6. júní kom húsið og nokkrir Finnar með. Við settum þetta upp með þeim og tók það okkur fjórar vikur. Það var ótrúlega gaman að setja húsið saman en líka erfitt, það eru spes aðferðir sem notaðar eru við þetta. Eftir á hyggja var það besta hugmyndin að fá Finnana til okkar til þess að aðstoða við þetta,“ segir Gísli en 24 rúmgóð herbergi verða í hótelinu.
„Allir ferðamenn sem ég hef talað við segjast ætla að koma aftur til landsins og skoða meira. Það segir manni mikið. Einnig finnst fólki Ísland öruggt land og líður vel hér. Það andar að sér kalda og ferska loftinu daginn sem það lendir sem hefur örugglega með sér svipaða upplifun og þegar Íslendingar lenda í sólarlöndum og anda að sér heita loftinu þar.“
Við heimamenn finnum fyrir auknum áhuga á Garðinum og mikið líf núna með nýja kaffihúsinu og svo veitingastaðnum sem fer að opna.“ Gísli er þó ekki í vafa um hvað sé best við Garðinn. „Ætli það sé ekki knattspyrnufélagið Víðir,“ segir hann sposkur á svip.

[email protected]


 

 

 

Reykjanes