Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

(Video) Gullfaxi kemur til Keflavíkur
Þriðjudagur 14. febrúar 2006 kl. 21:18

(Video) Gullfaxi kemur til Keflavíkur

Gullfaxi, fyrsta þota Íslendinga lenti í Keflavík í dag til að taka eldsneyti. Vélin kom til Reykjavíkur árið 1967 og var Jóhannes Snorrason, flugstjóri í þeirri ferð.

Gamli Gullfaxi er nú í eigu USP hraðflutningafélagsins en það er jafnframt níunda stærsta flugfélag í heimi með marga tugi flugvéla sem fljúga yfir tvö þúsund ferðir á dag. Auk fréttamanna Víkurfrétta var Snorri Snorrason, fyrrverandi flugmaður og áhugaljósmyndari að taka á móti gamla Gullfaxa - en hann flaug þessari merku vél mörgum sinnum á tíu árum. „Þetta var og er enn stórkostleg vél, var mikil bylting frá DC 6, Skymaster og slíkum vélum, sem ég hafði flogið. Það er gaman að skoða hana nú rétt tæpum fjörtíu árum eftir að hún lenti á Íslandi“, sagði Snorri en það var bróðir hans, Jóhannes, sem flaug vélinni frá Seattle á sínum tíma.

Gullfaxi fór úr eigu Íslendinga árið 1984 en lenti tvívegis í Keflavík í ársbyrjun 2003. Vélin á nú að baki um 50 þúsund flugtíma og vel yfir þrjátíu þúsund lendingar sem telst ansi mikið. Flugfélag Íslands sem keypti Gullfaxa eignaðist um ári síðar eins flugvél sem fékk nafnið Sólfaxi og ótrúlegt en satt þá er hún í eigu UPS félagsins og gegnir sama hlutverki og gamli Gullfaxi.

Það var ekki að sjá að aldurinn hefði nein áhrif á gamla Gullfaxa þegar vélin kom við í Keflavík í dag þó hún sé líklega mest notaða flugvél úr íslenska flotanum. Hún flaug létt um loftin blá - en hún var komin þangað aftur rúmum hálftíma eftir lendingu í Keflavík á leið í enn eitt
verkefnið.

Video: Frétt um Gullfaxa sem unnin var fyrir Ísland í dag. (5 mínútur - ótextað)  (.wmv)

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024