Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Video: Flöskuskeytið frá Svövu  kom í leitirnar á Hjaltlandseyjum
Mánudagur 5. febrúar 2007 kl. 02:11

Video: Flöskuskeytið frá Svövu kom í leitirnar á Hjaltlandseyjum

-skemmtilegt ævintýri 9 ára telpu úr Njarðvík.

„Ég skildi ekki hvað hann var að segja í símanum og lét mömmu hafa hann en það var skemmtilegt að flöskuskeytið skyldi finnast", sagði Svava Rún Sturludóttir, 9 ára stelpa úr Njarðvík en hún kastaði hálfslítra Egils-plastflösku með flöskuskeyti út í sjó við Kálfatjörn á Vatnsleysuströnd í mars í fyrra. Skeytið fannst 28. desember við suðurströnd Hjaltlandseyja um 1500 kílómetra frá Íslandi, nánar tiltekið á lítilli strönd sem heitir Silwick.

Finnandinn var 9 ára strákur, Gary Johnson og heimablaðið í bænum, Shetlands Times birti mynd af peyjanum með flöskuna góðu frá Svövu. „Það var ævintýradagur hjá okkur í fjölskyldunni og við ákváðum að sjá hvort flöskuskeyti myndi skila sér eitthvert. Ég henti því út í sjó rétt hjá kirkjunni á Vatnsleysuströnd. Pabbi hjálpaði mér að skrifa á bréfið nafnið mitt og áhugamál og setti svo símanúmerið okkar með", sagði Svava sem sýndi blaðamanni VF úrklippu frá Hjaltlandseyjablaðinu.

Gastu eitthvað talað við strákinn þegar hann hringdi?
„Nei, ég rétt mömmu símann og hún sagði mér að fjölskyldan hans hafi verið mjög spent og viljað jafnvel hitta okkur".

Svava lætur ekki hér við sitja heldur útbjó nýtt flöskuskeyti, aftur í Egils-flösku og aftur skyldi haldið að Kálfatjörn, nú einnig að viðstöddum fréttamönnum frá Víkurfréttum sl. mánudag. Mikil fjara var þegar komið var á staðinn, ekki ósvipað og þegar Svava og Sturla pabbi hennar hentu flöskunni í sjóinn í mars á síðasta ári. „Það verður gaman að sjá hvort þetta skeyti komist til einhvers annars krakka", sagði Svava sem henti flöskunni ákveðið út í Atlantshafið við ströndina á Vatnsleysu.

Svava sagði bekkjarsystkinum sínum frá þessum viðburði og þau voru áhugasöm um hvernig þetta allt hefði farið fram. „Ég held að margir krakkar  hér í Njarðvík hafi ætlað að prófa þetta. Það er bara gaman. Vonandi finnast flöskurnar þeirra líka", sagði unga Njarðvíkurmærin og enn og aftur fékk hún pabba með sér í lið. Þau skrifuðu bréf í tölvunni á svipaðan hátt og síðast.

 

Sjá video í vefsjónvarpi Víkurfrétta.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024