Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Viðburðaríkt ár hjá Manni ársins á Suðurnesjum 2017
Sunnudagur 30. desember 2018 kl. 07:00

Viðburðaríkt ár hjá Manni ársins á Suðurnesjum 2017

„Þetta ár er búið að vera mjög viðburðarríkt, krefjandi og skemmtilegt,“ segir Elenora Rós Georgesdóttir en hún var valinn maður ársins 2017. Víkurfréttir litu til hennar núna rétt fyrir jól en þá var hún nýbúin að baka stóra súkkulaðitertu sem lesendur vefsíðu Víkurfrétta fengu að bjóða í. Keilir á Ásbrú bauð 30 þús. kr. í kökuna flottu og gaf hana svo til leikskólabarnanna á Velli. Allur ágóði rann í Velferðarsjóð Suðurnesja.

Vill opna bakarí og kaffihús á Suðurnesjum
„Ég vildi fara í framhaldsnám tengt áhugamáli mínu en það er að baka. Ég hef bakað síðan ég var ellefu ára. Mamma fékk aldrei að hjálpa mér að baka en hún fékk að þrífa eftir mig,“ segir Elenora hlæjandi og verður dálítið grallaraleg á svipinn þegar hún segir þetta.

„Ég er bakaranemi hjá Brauð & Co og það er rosalega gaman að læra þar. Þó að námið sé mjög krefjandi þá er það einnig gefandi og þroskandi. Þetta er verklegt nám og skiptist þannig í bóklegt nám í MK og verklegt nám á vinnustað sem er í mínu tilfelli Brauð & Co. Ég læri að aga sjálfa mig í þessu námi því ég verð að mæta á réttum tíma og ef ekki, þá er talað við mann. Þetta er aðeins öðruvísi þegar maður er í skóla, aðeins strangara að vera á vinnustað. Núna er ég að keyra inneftir til Reykjavíkur á hverjum degi og ég viðurkenni að ég verð stundum svolítið þreytt og hlakka til þegar ég fer í MK næsta haust og hitti vini mína þar. Ég þarf alveg að skipuleggja tíma minn þegar ég vil hitta vini mína núna því stundum á ég að vera mætt í vinnu eldsnemma og þá er betra að fara að sofa fyrr um kvöldið. Ég þarf samt ekki að mæta í bakaríið eins snemma og bakararnir sjálfir en þeir eru að mæta frá miðnætti til klukkan þrjú um nóttina. Það er unnið á vöktum.“



Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóri Keilis fór með tertuna flottu á leikskólann Velli á Ásbrú.

Gaman að búa til uppskrift
„Þetta er búið að vera mjög viðburðarríkt ár. Ég tók þátt í kökublaði Vikunnar um daginn og vann smákökukeppni sem Nói Síríus og Kornax stóðu fyrir. Mér finnst mjög gaman að búa til uppskriftir en það er alltaf ákveðið sem þarf að vera í uppskrift til þess að hún heppnist. Það er ákveðin eðlisfræði og ég prófa mig áfram, finnst gaman að því. Draumur minn er að opna bakarí hérna suðurfrá og kaffihús þegar ég er búin að læra. Það væri mjög skemmtilegt.“

Finnst skemmtilegt að hjálpa fólki
Elenora Rós hefur sjálf reynslu af því að liggja á sjúkrahúsi sem lítið barn og hefur staðið fyrir söfnun handa Barnaspítala Hringsins. „Ég var svo mikið veik sem barn og veit að hver króna skiptir máli sem safnað er fyrir spítalann. Mér finnst ótrúlega skemmtilegt að hjálpa fólki. Ég fékk um síðustu helgi hóp af fólki og fyrirtækjum í lið með mér og hélt viðburð til styrktar minningarsjóði Einars Darra í Fríkirkjunni Reykjavík. Þar söfnuðust 200.000 krónur sem mér fannst alveg frábært en þessir peningar fara í forvarnarfræðslu á vegum minningarsjóðs Einars Darra.“



Dale Carnegie-þjálfari

„Já, árið 2018 var ótrúlega spennandi. Ég fór til Danmerkur að heimsækja bróður minn og fjölskyldu hans. Svo fékk ég að skoða bakarí á Englandi. Ég fékk allskonar skemmtileg verkefni sem bara komu til mín. Ég var beðin um að vera Dale Carnegie-þjálfari en það hafði verið draumur minn alveg síðan ég fór sjálf á námskeið hjá þeim. Mér fannst rosalega skemmtilegt að vera þjálfari og styðja aðra í að verða sjálfsöruggari. Svo var mér boðið að vera með í Girls for Girls-verkefni sem kemur frá Harvard-háskóla sem var haldið hér á Íslandi. Þar er verið að koma ungum stelpum saman sem hvetja hver aðra, hlusta og læra af hver annarri. Það var mjög lærdómsríkt og hvetjandi. Ég ákvað að segja JÁ við áskorunum á þessu ári, ekki segja nei. Það skiptir máli að vera opin fyrir tækifærum.“

Tekur sér stundum hvíldardag
Þegar hlustað er á Elenoru Rós finnur maður glöggt hvað hún er orkumikil og dugleg að hrinda verkefnum í framkvæmd. „Stundum verð ég þó að eiga dag með sjálfri mér. Ef ég vil slaka á tek ég dag í það og þá ligg ég í rúminu og finnst best að lesa í bók. Það er svo róandi. Ég hef það huggulegt með sjálfri mér því ég veit að til þess að halda það út í svona mörgu þá verð ég líka að fá hvíld. Mamma minnir mig líka á það þegar hún sér að ég er að gera of mikið. Amma er líka góð og hefur kennt mér slökun. Það er mjög gott og þá slaka ég vel á og nota þetta stundum til að sofa vel. Það er svo gott að kunna slökun og svo finnst mér æðislegt að fara í rólegan jógatíma.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Elenora var beðin að baka tertu fyrir Mann ársins á Suðurnesjum 2017 og fréttamenn VF komu til hennar til að ná í kökuna sem var svo fyrir hana. Það kom henni mikið á óvart eins og sjá má.



Með mömmu og pabba og Páli ritstjóra VF, eftir að hafa verið valin Maður ársins á Suðurnesjum.


 

Myndirnar hér að neðan eru úr lífi og fjöri Elenoru á árinu.

Viðtal: [email protected]