Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Viðar-Hjálmar slógu í gegn
Mánudagur 23. janúar 2012 kl. 11:19

Viðar-Hjálmar slógu í gegn

Föstudaginn síðastliðinn opnaði Aðalheiður S. Eysteinsdóttir sýninguna Á Bóndadag í Listasafni Reykjanesbæjar. Fjöldi fólks var viðstatt opnunina en boðið var upp á þorramat og léttar veitingar sem runnu vel ofan í mannskapinn. Sérstaka athygli vakti þegar meðlimir hljómsveitarinnar Hjálma báru inn á svið tvífara sína sem listamenn höfðu búið til úr við. Var það mál manna að viðar-Hjálmarnir gæfu þeim sem af holdi eru ekkert eftir og vöktu þeir mikla kátínu gesta.

Sýningin er liður í verkefninu Réttardagur- 50 sýninga röð og mun vera sú 34. í röðinni. Stefnt er að því að setja upp 50 sýningar á tímabilinu júní 2008 til júní 2013 sem allar fjalla á einn eða annan hátt um sauðkindina og þá menningu sem skapast út frá henni. Nú þegar hafa sýningarnar ratað í flesta landshluta auk Hollands, Þýskalands og Bretlands. Verkefnið vinnur Aðalheiður yfirleitt í samstarfi við heimamenn og aðra listamenn á hverjum stað fyrir sig.

Myndasafn frá opnuninni má sjá hér



Hvor er Kiddi?


Að þessu sinni taka 11 listamenn auk Aðalheiðar, þátt í því að gera Þorrablótsstemmningu á Bóndaginn í Reykjanesbæ. Gestalistamennirnir eru Arnar Ómarsson og Sean Millington sem gera rýmið fyrir viðburðinn, Guðbrandur Siglaugsson gerir textaverk, Gunnhildur Helgadóttir gerir borðbúnað, Jón Laxdal gerir fylgihluti, Nikolaj Lorentz Mentze gerir hljóðfæri og hljómsveitin Hjálmar verður með uppákomu við opnun. Á opnuninni flytur Aðalheiður dansverk og boðið verður upp á veitingar að þjóðlegum sið.

Listasafn Reykjanesbæjar hefur í nokkur ár staðið fyrir kynningu á íslenskri myndlist í Leifsstöð á Keflavíkurflugvelli. Í næstu viku verður hægt að sjá þar skúlptúra eftir Aðalheiði undir heitinu „Ferðalangar“.

Listasafn Reykjanesbæjar er opið alla daga 12.00-17.00 og um helgar 13.00-17.00, aðgangur er ókeypis. Sýningin stendur til 18. mars.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024