Við verðum líka að sameina íbúana
– segir Gísli Heiðarsson, formaður Knattspyrnufélagsins Víðis í Garði. Rekur með bræðrum sínum hótel á Garðskaga sem er með nærri 100% nýtingu. Annar aðili byggir baðaðstöðu með heitum potti og sjósundi í fjörunni við Garðskaga. Reykjanes á helling inni sem ferðamannastaður.
„Framtíð ferðaþjónustu í Garðinum og á Reykjanesi í heild sinni er björt,“ segir Gísli Heiðarsson, einn þriggja eigenda hótelsins Light-house Inn í Garðinum, hinir eigendurnir eru eldri bræður hans, Einar og Þorsteinn. Gísli er framkvæmdastjóri en vel hefur gengið allar götur síðan hótelið hóf göngu sína árið 2017. Þar áður höfðu bræðurnir rekið gistiheimilið Guesthouse Garður frá árinu 2009 og fyrir það höfðu þeir verið í fiskvinnslu en ákváðu að venda kvæði sínu í kross og sjá ekki eftir því. Lighthouse Inn hefur gengið mjög vel og var stækkun komin á teikniborðið en COVID setti þær fyrirætlanir á ís í bili allavega.
„Þegar við rákum gistiheimilið þá sáum við hvað fólki líkaði vel að vera svona nálægt vitanum, umhverfið hér í kring er mjög fallegt og þegar sveitarfélagið auglýsti lóðir fyrir hótelbyggingu stukkum við á tækifærið og vorum fyrstir að sækja um lóðina þar sem hótelið er. Við hófum framkvæmdir árið 2016 og náðum að opna ári seinna, erum með 26 herbergi og vorum langt komnir með stækkun en COVID setti smá strik í reikninginn og við héldum að okkur höndum. Elsti bróðir minn, Einar, er hættur að vinna og farinn að spila golf og við Þorsteinn erum að reka hótelið saman. Nýtingin á herbergjunum var 95% á síðasta ári, það er fáheyrt í þessum bransa og það sem vantaði upp í 100% var afbókun á síðustu stundu og ekki tókst að selja herbergið. Svona hefur þetta verið allan tímann, þetta er mest ferðafólk sem annað hvort er nýlent eða er að fara af landi brott en þó er farið að bera meira á því að gestir okkar stoppi lengur og skoði Reykjanesið. Ég er sannfærður um að svæðið á helling inni og ekki skemmir fyrir uppbyggingin úti á Reykjanesskaga, svo ég tali nú ekki um Grindavík. Þegar bærinn opnar aftur mun hann pottþétt virka sem segull á erlent ferðafólk,“ segir Gísli.
Við höfum verið með veitingastað á hótelinu frá 2021 en annar aðili hefur rekið hann, við leigjum bara út aðstöðuna. Tapas-staðurinn El faro var fyrst og var mjög vinsæll og oft á tíðum skapaðist hálfgert vandamál hjá okkur því bílastæðin voru full. Eigendurnir voru Viktor sonur minn og Jenný tengdadóttir ásamt tveimur kokkum þeim, Álvaro og Inmu. Tengdadóttirin var flugmaður hjá Icelandair og missti vinnuna í COVID og sonurinn í flugnámi hjá Icelandair. Þegar þau byrjuðu aftur að fljúga í fyrra luku þau leik í veitingabransanum ásamt því að Alvaro og Inma eignuðust barn. Nýr aðili tók því við, hann var að vinna á El faro og stofnaði sinn eigin stað, Eos. Þetta er veitingastaður fyrir almenning en langmest eru það gestir hótelsins sem stunda staðinn, sem er sömuleiðis mjög góður.
Svo er spennandi verkefni að fara í gang við hliðina á okkur, nálægt fjörunni á Garðskaga, Mermaid geothermal seaweed spa. Þetta verður baðaðstaða með heitum potti, sjósundi, nuddi o.fl. og þarinn og þangið er m.a. notað. Þetta er mjög spennandi verkefni og mun styðja vel við okkur á hótelinu og aðra í ferðaþjónustugeiranum hér á svæðinu, ég er bjartsýnn á framtíð ferðaþjónustu hér í Garðinum og á Suðurnesjum í heild sinni.“
Gullaldarlið Víðis
Gísli varði mark Víðismanna á ótrúlegum uppgangstíma félagsins á níunda áratugnum en þá náði liðið að leika á meðal þeirra bestu og var nánast eingöngu skipað heimamönnum. Þegar Víðir komst upp í efstu deild árið 1984 bjuggu tæplega 900 manns í Garði og oftast voru margfalt fleiri áhorfendur á heimaleikjum liðsins. Liðið lék þrjú ár í deild þeirra bestu og lék til úrslita í bikarnum árið 1987. Eftir fall það ár komst liðið aftur upp árið árið 1990 en féll strax árið eftir og síðan þá hefur róðurinn verið þungur. Gísli var lengi viðloðandi starf félagsins og ákvað að taka við formennsku fyrir þetta tímabil.
„Þetta var ævintýri hjá okkur og efa ég að þetta afrek verði leikið eftir, að svo lítið bæjarfélag geti haldið úti liði í efstu deild, nánast eingöngu skipað heimamönnum. Við vorum mjög samheldir og börðumst venjulega meira en andstæðingurinn og það fleytti okkur langt og vorum með frábæra þjálfara. Þegar við komumst upp aftur var ekki sami andi og samstaða og þar með var búið að rífa nokkar vígtennurnar úr okkur og því stöldruðum við bara við í eitt ár í efstu deild það árið. Ég er mjög stoltur af því að tilheyra þessum hópi og gaman að segja frá því að í ár eru 40 ár liðin síðan Víðir komst upp í efstu deild og ætlum við sem skipuðum liðið að hittast eftir seinasta heimaleik Víðis, 7. september og gera okkur glaðan dag.
Ég var búinn að vera í stjórn í fimmtán ár og tók mér pásu en ákvað að gefa kost á mér í formanninn fyrir þetta tímabil og ætla að taka nokkur ár. Ég tel mig búa yfir ákveðinni reynslu, bæði hvað varðar knattspyrnu og eins rekstur og tel mig geta látið gott af mér leiða. Þetta er öðruvísi landslag í dag en þegar ég var að spila og við vorum nánast eingöngu með heimamenn. Í dag eru alltaf nokkrir útlendingar í liðinu en svona er þróunin og við verðum að einfaldlega að vinna með þá stöðu,“ segir Gísli.
Sameining – gervigrasvöllur
Eitt af þeim málum sem nýr formaður knattspyrnudeildar Víðis þarf að takast á við er fyrirhuguð bygging nýs gervigrasvallar, þ.e. hvar völlurinn eigi að rísa.
„Það eru auðvitað stór mál í gangi eins og niðursetning nýs gervigrasvallar, ég mun beita mér í því máli. Stjórn Víðis er með áskorun til bæjarráðs sem tekin verður fyrir í vikunni en hún miðar af því að nýr gervigrasvöllur muni rísa á milli Garðs og Sandgerðis. Þetta verður jú eitthvað dýrari framkvæmd en við erum tilbúnir að bíða þó svo að lengri tíma muni taka að reisa völlinn. Sameining þessara nágrannabæja hefur í raun ekki miklu breytt, það eina að það er komið nýtt nafn en áfram er þetta Garður og Sandgerði. Svona sameining hlýtur að einhverju leyti að eiga snúast um að sameina fólkið en svona einhliða ákvörðun mun ekki gera neitt annað en ala á sundrungu okkar á milli. Það er mikið talað um sameiningu Víðis og Reynis, auðvitað væri það eina vitið því við erum að slást um sömu krónur og sömu leikmennina en svona ákvörðun með að leggja gervigrasvöllinn á öðrum staðnum, er ekki beint til þess fallin að auka líkur á sameiningu félaganna.
Það væri hægt að gera þessa hluti svo miklu betur, ég vona t.d. að skipulagsmál byggingarsvæðis breytist frá því að Sandgerði byggist í átt að Reykjanesbæ, yfir í að byggt verði í átt að Garði. Með því að byggja upp nýtt íþróttasvæði mitt á milli má með tíð og tíma byggja íbúðarhúsnæði þar sem núverandi íþróttavæði er í bæjunum.
Varðandi þennan fyrirhugaða gervigrasvöll þá vona ég að við gefum okkur meiri tíma í verkefnið, látum völlinn rísa mitt á milli og förum að huga að sameiningu liðanna. Svo má ekki gleyma að fótbolti hentar ekki öllum, með því að sameina félögin í eitt félag væri hægt að bjóða upp á fleiri íþróttir.
Samhliða byggingu þessa gervigrasvallar mitt á milli væri auðvitað kjörið að byggja þjónustukjarna, stórar matvöruverslanir, skóla, leikskóla og fl. Það er ekki nóg að koma með nýtt nafn á sameinað sveitarfélag, við verðum líka að sameina íbúana svo allir rói í sömu átt, þannig byggist upp jákvætt og gott samfélag. Ég vona innilega að bæjarráðið muni íhuga vel þessa áskorun okkar,“ sagði Gísli að lokum.