Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

„Við lærðum mikið af síðasta tímabili”
Fimmtudagur 20. janúar 2005 kl. 14:24

„Við lærðum mikið af síðasta tímabili”

-Jóhann B. Guðmundsson, atvinnumaður í knattspyrnu, um veru sína í Gautaborg

Fótboltaundirbúningstíminn í Svíþjóð er hafinn og þar með annað tímabil Jóhanns B. Guðmundssonar með liði sínu Örgryte. Jóhann spilaði 17 leiki af 26 á sínu fyrsta tímabili og átti við meiðsli að stríða undir lok þess. Þetta er 8. knattspyrnuár Jóhanns í atvinnumennsku erlendis og er Örgryte þriðja erlenda liðið sem hann spilar með.

Örgryte var í miklu basli nær allt tímabilið, lenti í umspili um áframhaldandi sæti í efstu deild og mikil heppni réði því að liðið féll ekki.
„Síðasta tímabil var mjög erfitt. Við vorum í rauninni með alveg nýtt lið og mikið af ungum leikmönnum. Þar sem félagið hefur verið í fjárhagslegum vandræðum höfum við þurft að selja okkar bestu leikmenn svo að við vissum fyrirfram að þetta yrði erfitt. Þjálfarinn, Finninn Jukka Ikkelainen, var einnig nýr og stóðst engan veginn undir væntingum. Við lærðum mikið af þessu tímabili og komum eflaust reynslunni ríkari til leiks í vor.”

Mikil ónægja skapaðist meðal leikmanna með þjálfarann Jukka Ikkelainen og var nýr þjálfari ráðinn í hans stað skömmu fyrir jól.
„Nýi þjálfarinn heitir Zoran Lukic og þjálfaði Djurgården og gerði þá að tvöföldum meisturum, 2002-2003. Ég hef heyrt að hann sé mjög strangur sem er kærkomin breyting eftir fyrri þjálfara en hann var alltof linur. Þessi maður er mjög virtur þjálfari í Svíþjóð. Mér líst mjög vel á þessar breytingar og þær virðast ekki ætla að hafa áhrif á veru mína í klúbbnum. Lukic lætur okkur púla en æfingarnar eru skemmtilegar og þetta lofar allt saman mjög góðu. Yfirleitt er  það líka þannig þegar nýr þjálfari er ráðinn að menn fá smá spark í rassinn og allir vilja standa sig.”

Meiðsli settu strik í reikninginn hjá þér síðasta tímabil. Hvað gerðist?
„Ég meiddist í æfingaleik á seinni hluta tímabilsins og missti af níu leikjum. Ég lenti í samstuði og ristarbein brákaðist. Meiðslin voru á mjög óþægilegum stað uppá það að geta spilað fótbolta svo ég er rétt að komast í gang núna. Það var mjög erfitt að verða að sitja upp í stúku og horfa á liðið sigla hraðbyri inn í 1. deild en sem betur fer tryggði félagi minn, Tryggvi Guðmundsson, okkur sæti í efstu deild á þessu ári með smá heppni á ögurstundu.
 
Hvernig líkar þér að búa í Svíþjóð?
„Við fjölskyldan höfum það mjög fínt. Við höfum komið okkur vel fyrir og svo er tveggja ára sonur minn, Davíð Snær, byrjaður í leikskóla og er hæstánægður með það. Það er virkilega gaman að fylgjast með honum koma heim með nýtt sænskt orð á nánast hverjum degi. Gautaborg er mjög skemmtileg borg og margt hægt að gera sér til afþreyingar. Strákarnir í liðinu eru fínir og svo höfum við mjög gott fólk í kringum okkur eins og Tryggva Guðmunds og hans fjölskyldu, Atla Þórarins og hans fjölskyldu og auðvitað Hjálmar Jóns. Við höfum verið dugleg við að hittast og hafa það gott saman.

Myndir úr einkasafni. 1: Jóhann ásamt Hjálmari Jónssyni og Tryggva Guðmundssyni. 2: Jóhann og Hjálmar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024