Við konan myndum gott teymi við eldhúsverkin
Kristján Helgi Jóhannsson er staddur Í eldhúsinu hjá Víkurfréttum þessa vikuna og ætlar að deila gómsætum rétti með lesendum Víkurfrétta. Fyrir valinu varð dýrindis lamba rib-ey og norður-afrískar kartöflur, hvorki meira né minna. Kristján er slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður hjá Brunavörnum Suðurnesja.
„Ég vil meina það að ég leggi mitt af mörkum í eldhúsinu. Ég og konan mín reynum yfirleitt að hjálpast að með eldhúsverkin enda myndum við gott teymi. Ég sé alltaf um að grilla en er alltaf að eflast í því að búa til ekta íslenskan heimilismat og hef mjög gaman af því að stússast í þessu. Rétturinn sem ég deili með lesendum er ekkert endilega minn sérréttur en þetta er réttur sem ég gríp oft til þegar ekki viðrar vel fyrir grillmat og okkur langar í einskonar „sumarmat“. Svo finnst öllum í fjölskyldunni lambakjöt alveg einstaklega gott.“
Uppskriftin:
Lamba rib-eye
4 x 150-200 g stk.
5-6 msk Ísíó 4 eða Olive olía.
Ferskt rósmarín saxað u.þ.b. 2 msk.
3-4 hvítlauksgeirar saxaðir
Safi úr ½ sítrónu
Salt og pipar
Olíu, rósmarín, hvítlauk, salt og pipar blandað saman í skál. Hrært vel saman og dreift vel yfir allt kjötið. Látið liggja á í a.m.k. 30 mín. Hita pönnu vel og loka kjötinu á henni (tæp ½ mín á hverri hlið). Láta kjötið standa í 3-4 mín áður en það er sett í 180° heitan ofn í 12-13 mín. Kjötið svo tekið út og látið standa í 5-6 mín. Passar að fá sér einn Thule á meðan beðið er.
Norður-afrískar kartöflur
5-6 þokkalega stórar kartöflur
1 stór sæt kartafla
½ rófa
3-4 gulrætur
1-2 hvítlauksgeirar
1 rauðlaukur
5-6 perlulaukar
10 þurrkaðar apríkósur
dass af salt
dass af pipar
2 tsk kanill
2 tsk cumin
½ tsk chili pipar (má sleppa)
1 bolli olía (Ísíó 4 eða Olive olía)
Ofninn hitaður í 200°C. Allt grænmeti skorið í jafnstóra bita (u.þ.b. 2x2 cm). Olíu, cumin, chili pipar, salti og pipar blandað saman, hrært vel saman og dreift yfir allt saman. Bakað í ofni í 30-40 mín eða þar til að allt er orðið meyrt. Gott að hræra í réttinum 2-3svar meðan hann er að bakast.
Rjómasveppasósa (A la Kolla hans Berta)
Ein askja Flúðasveppir
50-75 g íslenskt smjör
½ l matreiðslurjómi
1 tsk aromat krydd
½ -1 msk sojasósa
1 teningur lambakraftur
Maizena mjöl til að þykkja
Smjörið brætt og sveppir steiktir vel áður en rjóma og rest af hráefni er bætt út í.
Thule, rauðvín eða Coca Cola til að skola þessu öllu niður. Allt annað á ekki við.