Við höfum alltaf verið með handavinnu
Hafa verið saman í saumaklúbbi í 58 ár.
Saumaklúbbsdömur í Njarðvík fagna bráðum 60 ára afmæli klúbbsins. Sektuðu hvor aðra fyrir að bjóða of margar kökur
„Við saumum, prjónum, heklum, drekkum kaffi og tölum mikið,“ segja fimm njarðvískar saumklúbbskonur en þær hafa hist í 58 ár. Þær eru ýmist orðnar áttræðar eða nálægt því. Þetta eru þær Katrín Björk Friðjónsdóttir (Dædý), Jóhanna Árnadóttir (Hanna), Sigríður Jónsdóttir (Sigga), Ada Elísabet Benjamínsdóttir (Lella) og Guðrún Ásta Björnsdóttir (Gunna Ásta.
Það er létt yfir þeim kerlum þegar tíðindamaður Víkurfrétta smyglar sér inn í klúbbinn. Það sem kemur honum á óvart er að þetta er alvöru saumaklúbbur. Þær eru að telja eitthvað varðandi prjónaskapinn og tvær þeirra halda saman á prjóni. Allar með eitthvað prjónadót í höndunum. „Við höfum alltaf verið með handavinnu þó svo að það sé eitthvað minna í dag en áður,“ segja þær þegar blaðamaður segist aldrei hafa séð neitt slíkt í sumaklúbbum eiginkonunnar. „Enda eiga þær að kalla þetta kjaftaklúbb en ekki saumaklúbb,“ heyrðist þá í einni í sextuga klúbbnum. Önnur bætir því við að þær tali auðvitað mikið saman þegar þær hittast mánaðarlega. „Þetta líður allt of fljótt.“ Fyrstu árin hittust þær vikulega, því var breytt einhverjum árum síðar í hálfsmánaðarhitting en núna er haldinn klúbbur einu sinni í mánuði. Það er náttúrulega miklu meira að gera í samfélaginu í dag og síðustu ár en í gamla daga segja þær líka. Þær ferðuðust líka mikið í gamla daga, fóru með köllunum sínum í ferðir hér heima og einnig einhvern tíma til útlanda. „Já, við fórum til Mallorca árið 1971,“ bætti ein þeirra við.
En um hvað tala þær í þessum tæplega sextuga saumaklúbbi?
„Við tölum um börnin og barnabörnin. Það er alltaf gaman að gera það. Ekki pólitík. Hér áður ræddum við líka málin sem komu upp á kvenfélagsfundum og hjónaböllin. Kjólana þar og kannski eitthvað fleira þaðan. Hjónaböllin voru aðalböllin í gamla daga.“ Þær hlægja. Ein heldur á Ipad og þar fletta þær myndum og skoða hitt og þetta. Tæknin hefur sem sagt laumað sér inn í gamla saumaklúbbinn þó svo þær láti sig ekki muna um að prjóna sokka og lopapeysur á börnin og barnabörnin.
Þær voru flestar sjö í klúbbnum en eru núna fimm, ein er látin. Þær muna ekki eftir fyrsta fundinum en segja að þær hafi allar verið um tvítugt eða yngri þegar þær byrjuðu að hittast. „Ég var ekki einu sinni búin að kynnast kallinum og átti engin börn,“ segir ein og fær svohljóðandi spurningu á móti: „Varstu ekki einu sinni farin að laumast?“ og uppsker hlátur í hópnum.
Veitingar í saumaklúbbum eru oftast stórt atriði og það er engin undantekning í þessum klúbbi þeirra njarðvísku. „Það var alltaf keppikefli að hafa sem veglegastar kaffiveitingar á fundunum. Það gekk svo langt að við ákváðum að sú sem byði upp á fleiri en 3 gerðir fengi 50 krónu sekt. Það gekk ekki lengi en í seinni tíð höfum við snúið okkur meira út í mat frekar en kaffibrauð. Það kom hugmynd um það sem fékk góðan hljómgrunn. Við hittumst alltaf á kvöldin en svo kom upp tillaga nýlega að hittast um miðjan dag. Nú hittumst við í fyrsta sinn klukkan þrjú um daginn og erum þá bara til klukkan sex. Það hentar okkur betur í dag,“ segja þær í kór.
Saumaklúbburinn saman kominn fyrir rúmlega 50 árum síðan.
Katrín og Guðrún með prjóna á lofti en Ipadinn er ekki langt undan.
Lella, Hanna og Sigga telja á prjóninum.