Við Gunnuhver í 10 gráðu frosti
Anna Ósk Erlingsdóttir lenti í ævintýrum í myndatöku fyrir tískuþátt.
Sandgerðingurinn og ljósmyndarinn Anna Ósk Erlingsdóttir hefur vakið athygli fyrir fallegan tískuþátt í nýjasta tölublaði íslenska tímaritsins MAN. Myndirnar voru teknar við Gunnuhver á Reykjanesi. „Það var tíu gráðu frost úti og áður en myndatakan hófst þurftum við að hjálpa amerískum túristum sem höfðu fest sig í skafli á afleggjaranum að Gunnhver. Eftir það festist förðunardaman líka í skafli fyrir framan bílinn minn svo að við urðum að ganga með allt okkar hafurtask og fyrirsæturnar tvær að staðnum þar sem myndirnar voru teknar. Þær þurftu svo greyin að skipta um föt í þessum kulda. Algjörar hetjur og þetta var ótrúlegt ævintýri,“ segir Anna Ósk í samtali við Víkurfréttir.
Eins og gefur að skilja geta töluverðar fórnir verið færðar til að ná góðum skotum og Anna Ósk er orðin ansi vön slíku í starfi sínu víða um heim, eins og fram kom í viðtali við hana í jólablaði Víkurfrétta 2013.
Það er nóg að gera hjá Önnu Ósk, sem m.a. er búin að bóka sig sem liðbeinanda á fjórum ljósmyndanámskeiðum hjá Art College í vor. Eftir það liggur leið hennar til Ástralíu með unnustanum, þar sem hún hefur áður dvalið og kann vel við sig þar.
Hér eru fleiri myndir úr tískuþættinum sem tekinn var við Gunnuhver:
Forsíða MAN tímaritsins.