Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Fimmtudagur 22. nóvember 2001 kl. 08:50

„Við getum ekki lifað í samræmi við það sem fólk í kringum okkur talar um“

Hjördís Árnadóttir hefur um árabil starfað sem félagsmálastjóri hjá Reykjanesbæ. Hún hefur aflað sér víðtækrar þekkingar og reynslu á þessum tíma en Silja Dögg Gunnarsdóttir hitti hana á dögunum og spurði hana spjörunum úr varðandi félagsþjónustu í Reykjanesbæ, meðferðarúrræði fyrir unglinga, vistunarmöguleika fyrir krakka sem eiga erfitt heima fyrir, forvarnamál, tómstundastarf og síðast en ekki síst foreldrahlutverkið og ábyrgð foreldra.Foreldrastarf í skólum
Kennarar hafa á stundum kvartað yfir dræmri mætingu á foreldrafundi í skólum. Hjördís vill þó ekki meina að foreldrar séu almennt áhugalausir. Hún segir að meirihluti foreldra standi sig vel og mæting á uppákomur innan skólanna sé að aukast. Hins vegar fari oft mest fyrir þeim foreldrum sem eru á röngu róli.

Svo virðist sem sumir foreldrar séu óduglegir við að mæta á foreldrafundi og reyna hvað þeir geta að firra sig ábyrgð. Er þetta rétt?
„Ég er nú þeirrar skoðunar að þeir foreldrar sem eru ábyrgir og hafa sig í frammi, þeim mun fleiri aðhyllast þessa leið. Þá koma hinir smátt og smátt inn. Sá hópur sem er á röngu róli er alltaf meira áberandi en hinn, þó að það séu miklu færri í honum. Þó að fáir mæti á almenna foreldrafundi, eins og t.d. hjá foreldrafélögum, þá megum við ekki dæma allt út frá mætingu á þessa fundi. Á síðustu tveimur árum höfum við séð vaxandi aðsókn foreldra á ýmis konar fyrirlestra um uppeldismál sem hafa verið haldnir á vegum foreldrafélaganna en þá hafa verið allt upp í 200 manns sem hafa mætt. Foreldrafélögin í öllum fjórum skólunum eru mjög öflug og eru einnig með sameiginlega starfsvettvang. Þau verða því sterk eining og sameiginlega eru þau með nokkra fyrirlestra á hverju ári. Þetta er að skila sér.
Varðandi ábyrgðina þá erum við öll bara manneskjur en við höfum tilhneigingu til að vera fegin ef einhver tekur af okkur ábyrgðina. Talað er um að skólar, íþróttafélög og aðrir eigi að bera ábyrgð á börnunum en foreldrarnir hafa svolítið gleymst í þessari umræðu. Auðvitað bera viðkomandi aðilar ábyrgð á börnunum á meðan þau eru þar en foreldrarnir bera fyrst og fremst ábyrgð á uppeldi barna sinna.“

Meðferðar- og
vistunarúrræði
Sum börn fara út af sporinu. Í sumum tilfellum búa þau við slæmar heimilisaðstæður en það er ekki alltaf svoleiðis. Meðferðarúrræði fyrir börn og unglinga í vanda er af skornum skammti en þau börn sem komast í meðferð ná í flestum tilfellum að snúa lífi sínu til betri vegar, að sögn Hjördísar. Einnig eru til þau börn sem þurfa að fara í vistun um óákveðin tíma á meðan aðstæður þeirra eru kannaðar út frá barnaverndarlögum, þ.e. ef grunur er um kynferðislega misnotkun, ofbeldi og/eða vanrækslu. Vistunarúrræði eru fá en Reykjavíkurbörn er eina sveitarfélagið á landinu sem hefur burði til að reka slík heimili.

Hvernig eru meðferðarúrræði fyrir börn og unglinga í neyslu?
„Nokkur meðferðarheimili eru rekin á vegum Barnaverndarstofu. Eitt heimilið er fyrir börn í neyslu en hin fyrir börn með hegðunarvandamál. Oft kemur í ljós að þegar börn eru komin í meðferðina að þau eru líka í neyslu, þó að hún sé kannski ekki ástæðan fyrir því að þau eru vistuð. Það er erfitt að komast í meðferð og það er því algjör lúxus fyrir þessi börn sem komast að. Ég man ekki eftir nema einu tilviki þar sem meðferð hefur ekki skilað tilætluðum árangri. Við sjáum börn sem eru á hraðri leið í glötun með líf sitt, en það snýst við og þau eignast gott líf.“

Hvernig gengur ykkar samstarf við Foreldrahús-Vímulaus æska og hvernig hafa bæjarbúar tekið þessari þjónustu?
„Foreldrahús hefur verið starfrækt í nokkur ár í Reykjavík og ákveðið var að setja upp aðstöðu hér til reynslu, af frumkvæði foreldra hér sem hafa góða reynslu af samstarfinu við Foreldrahúsið sem eiga dreng sem var í neyslu en er nú í meðferð. Þessi þjónusta er fyrir foreldra barna sem eru í neyslu og foreldra sem hafa áhyggjur af því að barnið þeirra sé í neyslu, áfengis- og/eða eiturlyfjaneyslu. Hjá Foreldrahúsi geta foreldrar fengið stuðning frá foreldrum með svipaða reynslu. Reynslan hefur reyndar verið sú að enn er lítil aðsókn að þessari þjónustu.
Við höldum að það sé vegna almennrar hræðslu fólks við að opinbera sig. En við höfum trú á þessu og allt svona tekur tíma. Í litlu samfélagi þá leggur fólk saman tvo og tvo en það er líka eitt af því sem við verðum að læra. Við getum ekki lifað í samræmi við það sem fólkið í kringum okkur er að tala um. Við verðum bara að horfa á það sem er okkur næst og gera okkar besta.“

Hvaða úrræði hafið þið þegar vista þarf börn vegna erfiðleika á heimilinu?
„Okkur vantar sárlega vistunarúrræði en þegar barnaverndarmál eru í vinnslu, þarf stundum að taka börn út af heimilinu. Það getur verið af margvíslegum ástæðum, t.d. mikillar neyslu foreldra, gruns um kynferðislegt eða líkamlegt ofbeldi eða almenna vanrækslu. Öllum sveitarfélögum á landinu utan Reykjavíkur vantar slík vistunarúrræði en þetta er mjög dýrt og Reykjavíkurborg er eina sveitarfélagið sem hefur bolmagn til að reka slík heimili. Til að mæta þessu höfum við komið okkur upp fjölskyldum til að mæta þessari þörf. Eins og er þá getum við vistað börn sem eiga erfitt hjá ákveðnum fjölskyldum hér í bæjarfélagin. Það er kostur en hitt er talið betri kostur, því þá getur farið fram rannsókn í leiðinni líka á samskiptum foreldranna og barnsins. Þá er hægt að meðhöndla málið betur, þ.e. finna út hvað er hægt að gera til að hjálpa öllum aðilum að vinna úr þessu mynstri. Það er möguleiki að sveitarfélög á Suðurnesjum tækju sig saman og
opnuðu slíkt heimili, þá gæti barnið sótt áfram sinn skóla o.s.frv. En eins og fyrr segir þá strandar þetta yfirleitt alltaf á fjármagni.“

Öflugt tómstundastarf
í bæjarfélaginu

Talað hefur verið um að endurskipuleggja æskulýðsstarf í Reykjanesbæ þar sem félagsmiðstöðin Fjörheimar, er fyrir löngu orðin of lítil. Hjördís er sammála því en bendir jafnframt á öflugt íþrótta- og tónlistarstarf.
Hvað með skipulag tómstundastarfs fyrir börn og unglinga - stendur til að breyta því?
„Allt tómstundastarf heyrir undir TÍR. Stefnan er sú að tómstundastarf verði inní skólunum en síðan verði ein miðstöð, sem rekin er af tómstundaráði. Fjörheimar sinna því hlutverki í dag þó að þeir séu sprungnir. Nú er verið að skoða ýmsar leiðir í þessum málum en mér skilst að krakkar í Keflavík séu farnir að sækja Fjörheima líka. Þrátt fyrir það eru Fjörheimar svo lítill staður að þeir koma aldrei til með að geta tekið allan þennan fjölda. Ég tel að tómstundastarf í bæjarfélaginu sé mjög gott en það er margt í boði fyrir utan skólana. Hér er t.d. mjög öflugt íþrótta- og tómstunda starf svo ekki sé minnst á tónlistarskólann. Þegar minnst er á íþróttir má benda á að það er alltaf ákveðinn hópur sem er ekki gefinn fyrir keppnisíþróttir en vilja samt hreyfa sig og vera með. Mér sýnist sem íþróttafélögin séu farin að taka tillit til þessa hóps og eru með eitthvað í boði fyrir þau, sem er af hinu góða.“


Útivistartíminn er sterkt tæki fyrir foreldra

Forvarnamál hafa verið mikið í umræðunni á síðustu árum. Forvarnaerkefnið Reykjanesbær á réttu róli vakti mikla athygli þegar það fór af stað fyrir rétt um fjórum árum en lítið hefur farið fyrir því að undanförnu. Nú í sumar var ráðinn forvarnafulltrúi, Ragnar Örn Pétursson, og nokkur umræða skapaðist um þá ráðningu. Útideildin hefur verið starfrækt í nokkur ár með góðum árangri sem og foreldraröltið, en það virðist eitthvað vera að dala. Að sögn Hjördísar hafa allar þessar forvarnir gildi en mestu skiptir að foreldrar þori að setja börnum sínum reglur og láti þau hlýta þeim.

Hvernig er forvarnarmálum háttað í Reykjanebæ?
„Forvarnir eru tvíþættar, annars vegar eru þær á vegum Íþrótta- og tómstundaráðs sem hvetur börn og unglinga til íþrótta- og tómstundaiðkunar af ýmsu tagi. Við hjá Fjölskyldu- og félagsþjónustu Reykjanesbæjar vinnum að forvörnum í víðtækari skilningi. Við höfum t.d. lagt mikla áherslu á útivistartímann sem við teljum vera eina bestu forvörnina til að hjálpa
bæði foreldrum og börnum að koma í veg fyrir ennþá stærri vanda. Um leið og útivistartíminn fer að virka hjá fólki, þá er hann orðinn tæki sem fólk getur notað til að stíga samskonar skref í öðrum málum. Efri mörk útivistartímans eiga að vera viðmið en auðvitað verða foreldrar að meta hvenær þeim finnst að börnin þeirra megi vera úti við. Árlega sendum við út auglýsingu um útivistartíma til foreldra 12 ára barna og við höfum einnig sett auglýsingar í blöð til að vekja athygli á honum. Við höfum einnig tekið þátt í útivistarátökum á vegum lögreglunnar og TÍR.“

Hvernig standa foreldrar sig í sínu hlutverki- eru þeir nægilega duglegir við að fylgja þessum reglum eftir?
„Já, almennt eru foreldrar mjög áhugasamir um að reyna að standa sig. Við finnum að þeir foreldrar sem þora að takast á við þessa hluti og þora að setja börnunum sínum reglur og mörk verða miklu öruggari í sínu hlutverki. Foreldrar eiga að styrkja hvorn annan í því að þora að vera ábyrgir foreldrar og taka þessa ábyrgð.“

Nú hefur verið ráðinn forvarnarfulltrúi - hvernig kemur hann inn í ykkar starf?
„Hann er starfsmaður TÍR og er tengiliður tómstundahlutans, sem sér um klúbbastarf í skólum, útideildina o.fl. Nú þegar orðið töluvert samstarf á því sviði milli félagsþjónustunnar og TÍR. Okkar starf skarast á sumum sviðum og öðrum ekki.“

Hvernig er starfsemi útideildar háttað?
„Útideildin heyrir undir TÍR og þar er fólk sem vinnur í félagsmiðstöðvunum. Krakkarnir þekkja því starfsfólkið og deildinni er ætlað að nálgast þau á vinagrundvelli, en ekki að vera yfirvald, sem við
hin erum kannski í þeirra augum. Engu að síður má útideildin ekki taka þátt í að hylma yfir lögbrotum hjá þeim. Útideildin er hugsuð þannig að krakkarnir viti af þeim og sporna þannig við að eitthvað alvarlegt gerist. Þau geta líka leitað til starfsmanna útideildarinnar ef eitthvað kemur upp á.“

Hvernig er forvarnaverkefnið „Reykjanesbær á réttu róli“ statt í dag?
„Verkefnið er hugsað sem forvarnaverkefni á vegum Íþróttabandalagsins og er styrkt af Reykjanesbæ. Það hefur verið í gangi í 4 ár. Fyrsta árið var starfsemin með þeim hætti sem upphaflega var lagt upp með, þ.e. grasrótarhreyfing. Þá voru margar litlar einingar sem sáu um ákveðin forvarnarverkefni. Þessar einingar gerðu það mjög vel en síðan þá hefur þetta losnað svolítið úr böndunum. Eftir því sem ég best veit þá eru þessar grasrótarhreyfingar ekki lengur til staðar og nú er bara einn starfsmaður. Þá er verkefnið búið að missa marks, þ.e. eins og það var hugsað í upphafi. Reyndar varð mikil vakning hjá fólki eftir að vinna við verkefnið hófst á sínum tíma.
Starfsmaður „Reykjanesbæjar á réttu róli“ er í sambandi við foreldrafélögin og foreldraröltið hefur líka verið áhersluatriði. Nú skilst mér að áhugi foreldra á röltinu sé misjafn því að þeir foreldrar sem hafa gefið sig út fyrir að taka þátt í röltinu, upplifa það að þeir séu úti að passa annarra manna börn. Þeirra börn eru heima og þau vilja frekar vera heima með sínum eigin börnum og eyða tíma með þeim. Foreldraröltið er af þessum ástæðum líka að daga uppi.“

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni er „Hafnargötuvandamálið“ úr sögunni?
„Já, það er rétt og við viljum þakka það öllum þessum samverkandi þáttum, þ.e. eilífu hamri um útivistartímann, foreldraröltinu, útideildinni og meðvitund fólksins í bænum okkar.“


Eigum ekki að þurfa að skammast okkar fyrir að sækja þjónustu

Unglingamóttakan opnaði nýlega á Hafnargötunni þar sem unglingar geta komið og leitað ráða hjá hjúkrunarfræðingum og læknum og fengið fyllstu nafnleynd. Hjördísi finnst þessi tilraun góðra gjalda verð en stendur samt fast á því að fólk eigi ekki að þurfa að fara með slíka þjónustu í felur þar sem hún sé sjálfsagður hlutur. Hið sama gildi um félagsþjónustuna.

Nú hefur unglingamóttaka opnað á Hafnargötunni og er ætlað að sinna unglingum sem vilja síður fara á heilsugæslustöðina til að fá þjónustu. Finnst þér þessi starfsemi eiga rétt á sér?
„Já, þetta er gott upp að ákveðnu marki en það þarf að gæta þess vandlega að þar séu ekki framin nein lögbrot, þ.e. að börn séu ekki að gera eitthvað í skjóli „trúnaðar“ sem foreldrar vita ekki um, en eiga að vita um samkvæmt lögum. Slíkan stað hefur vantað ef það er rétt að krakkar séu hræddir við að leita niður á heilsugæslu. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að við eigum ekki að búa til grýlur úr sjálfsagðri þjónustu, eins og t.d. félagsþjónustu, geðþjónustu, áfengisvarnafundum eins og Al anon og AA. Sú þjónusta sem stendur bæjarbúum til boða, hvaða nafni sem hún kallast, á ekki að vera leyndarmál eða til að skammast sín fyrir. Ef að við sem veitum þjónustuna, teljum að fólk þurfi að skammast sín fyrir að sækja hana, þá skammast fólk sín fyrir það. Við þurfum að breyta þessu hugarfari. Ég sé því ekki að það sé endilega rétt að fara með heilbrigðisþjónustu fyrir börn í felur. Þetta á að vera eðlilegur hlutur. En það má vel vera að það sé gert til að ná til krakkanna. Ég ætla því ekki að gera lítið úr þessu framtaki en ég vil meina að félagsþjónustan hér hefur eflst og blómstrað m.a. vegna þessa hugarfars okkar, þ.e. að við sjálf lítum á félagsþjónustuna sem jákvæða þjónustu.“
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024