Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Við fögnum hverju skrefi
Þessir nemendur í Öspinni voru önnum kafnir þegar ljósmyndara bar að garði. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
sunnudaginn 9. júní 2024 kl. 08:30

Við fögnum hverju skrefi

Ösp er nú að ljúka sínu tuttugasta og fyrsta starfsári en deildin er sérúrræði í Njarðvíkurskóla fyrir nemendur með fötlun. Ösp byrjaði sem úrræði fyrir tvo nemendur og var útbúin aðstaða í gæsluvallarhúsi sem stendur rétt við Njarðvíkurskóla. Núna eru nemendurnir orðnir 25 og búið að byggja við húsið jafnt og þétt eftir því sem starfsemin hefur aukist. Kristín Blöndal, deildarstjóri, og Linda Birgisdóttir, yfirþroskaþjálfi, ræddu við Víkurfréttir um starfsemina sem fer fram á deildinni en Ösp hlaut hvatningarverðlaun menntaráðs Reykjanesbæjar í síðustu viku.

Fulltrúar Aspar voru að vonum ánægðir með Hvatningarverðlaunin.

Hefur vaxið og dafnað

„Fyrst voru nemendur að koma hingað á miðstigi en núna í ár erum við að útskrifa í annað sinn nemendur sem eru búnir að fylgja nemendunum uppi í skóla frá fyrsta bekk og alveg upp í þann tíunda. Sem er alveg magnað og það verður mjög skrítið þegar þau fara,“ segir Kristín og það má greina væntumþykju í rómnum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Hér áður voru þau allra yngstu að koma í þriðja bekk en svo fóru krakkar að koma í fyrsta bekk og þá þurftum við að fara að breyta og taka á móti börnum sem voru í raun á leikskólaaldri, því þroskinn var bara þannig.“

Húsnæði Aspar hefur tekið miklum breytingum á þeim tíma sem hún hefur starfað en þangað leita börn með alls konar fatlanir, sum eru í hjólastólum og þurfa meiri umönnun og meira pláss.

„Í yngri árgöngunum hjá okkur eru mikið fleiri strákar, mjög fáar stelpur og ef við spáum í kynjamun þá eru alltaf fleiri strákar hérna á deildinni en stelpur. Þess vegna er svo mikilvægt að ráða inn svona flotta stráka eins og eru að vinna hérna, til að fara með þeim í sund og íþróttir og svona,“ segja þær stöllur þegar þær tala um tvo samstarfsmenn sína.

Nú eru krakkarnir hérna með alls kyns fatlanir, fáið þið alla flóruna?

„Já, þetta er ekki eins og t.d. Lindin sem er einhverfudeild,“ segir Kristín. „Flestir okkar nemendur eru reyndar líka með einhverfu. Ótrúlega margir af nemendunum tjá sig ekki, þetta eru svona óhefðbundin tjáskipti. Eins og þú heyrir mikið af hljóðum hérna.“

„Við erum með góðan konfektkassa hérna og þjónum þeim sem þurfa mjög sértækt úrræði,“ segir Linda og líkir þannig ólíkum fötlunum við konfektmola en það er ekkert að ástæðulausu að Ösp hlýtur þessi hvatningarverðlaun. Starfsfólkið leggur metnað sinn í að sinna nemendum af kostgæfni og alúð.

Ágóði í báðar áttir

Kristín er að klára átjánda árið sitt á Öspinni og segir að deildin hafi þurft sinn tíma til að þróast.

„Þetta fór liggur við frá því að vera með þrjátíu og fimm tíma í töflu og alltaf að stjórna öllu sem gerðist. Með því að stækka svona ört, ganga í gegnum Covid og alls konar breytingar, þá erum við svolítið að lenda og fá að þróast sem deild. Við vitum að það eru vaxtarörðugleikar þegar skólar og deildir eru að stækka og finna sig – en við erum heppin með mannauð, starfsfólk,“ segir Kristín en 28 manns starfa í Öspinni. Í því hringir síminn og Kristín þarf að bregða sér frá á annan fund en Linda tekur við keflinu og bætir við: „Við þurfum að fá fleira fagfólk inn með stækkandi deild, auknum fjölda nemenda og flóknari fatlanir.“

Linda hefur starfað á Öspinni frá árinu 2008 og segir að þar sé góður kjarni starfsfólks með langan starfsaldur.

„Okkar nemendur hafa allir tengingu við sinn árgang í skólanum og sækja tíma með þeim eins og þau geta. Þannig að það er samstarf á milli okkar og kennaranna uppi í skóla.

Hvernig ganga samskiptin milli barnanna á Öspinni og annarra nemenda í skólanum?

„Samskiptin ganga bara vel og eru eitthvað sem við vinnum stöðugt að því að byggja upp í félagsþjálfun og slíku. Maður er búinn að heyra það í gegnum árin, sem er ótrúlega gott, að almennir nemendur í Njarðvíkurskóla græða svo mikið á því að hafa Ösp og þá nemendur sem eru hér. Þau læra ákveðið umburðarlyndi og öðlast víðsýni – þannig að þetta er ekki bara ágóði í aðra áttina. Ég held að það sé svolítið sérstaðan við þessa deild; það er þessi tenging og hvernig við getum boðið nemendum hér upp á kennslu og þjálfun þar sem þau eru að æfa sig með almennum nemendum líka. Eins og í dag þá eru þau flest í ferðum með sínum bekkjum eða að fara í sund í dag og svo eru nokkur á skyndihjálparnámskeiði með tíunda bekk.“

Linda segir að þegar börnin eru að fara í ferðir með bekkjarfélögum sínum þá aðlagi þau þeirra þarfir að ferðunum. „Mér dettur það í hug þegar ég sé hérna út um gluggann að hópur er að fara í hjólaferð að svona ferðir aðlögum við að börnunum okkar. Þá förum við labbandi eða á bílum til að hitta hópinn, það fer bara eftir hvað hentar þeim best hverju sinni.

Svo eru allir nemendurnir með einstaklingsáætlun, þannig að þau eru í kennslu og þjálfun eftir því hvar þörfin er og vinna með styrkleikunum. Skrefin eru mishröð en við fögnum hverju skrefi. Að hausti veit maður aldrei hver hraðinn verður – en þegar maður lítur til baka á þessum tíma árs er ótrúlega gaman að sjá öll litlu skrefin sem þau hafa tekið.“

Þessir voru á skyndihjálparnámskeiði þegar ljósmyndara bar að garði.

Er þetta ekki gefandi vinna?

„Jú, hún er það en líka mjög krefjandi og maður þarf að vera fljótur að hugsa til að finna lausnir á ýmsu. Það er plan B og C og misjafnir dagar til að koma á móts við. Stundum er gott að eiga rólegan tíma á meðan það er gott að fara í kröftuga göngu einhvern annan. Þarna þarf maður að vera svolítið næmur og geta lesið í nemendur, það kemur með reynslunni og hvernig við vinnum þetta saman hér.

Allir standa jafnfætis

Fjöldi starfsmanna í Ösp gefur góða mynd af því hver þörfin er fyrir þá nemendur sem glíma við fatlanir og Linda segir að allir starfsmenn í Öspinni hafi rödd þegar kemur að þeirra starfi. „Almennir starfsmenn hér eru að vinna öðruvísi vinnu en í almenna skólakerfinu og það er frábært hvað við erum heppin að hafa unga, almenna starfsmenn sem hafa gott auga, umburðarlyndi og rétt hugarfar.

Við erum með þroskaþjálfa, sérkennara, hér eru almennir kennarar, sálfræðimenntað fólk, atferlisfræðingar líka – þannig að við erum með breiðan hóp af fagfólki. Það er ótrúlegur kostur.“

Er ekki erfitt að fá fagfólk til starfa?

„Jú, það liggur ekki á lausu og það er líka áskorun að halda í gott starfsfólk. Við viljum alltaf fleira fagfólk og líka almennt starfsfólk. Stærstur hluti þeirra sem ráða sig í svona störf eru konur og þess vegna er mikilvægt fyrir okkur að fá þessa flottu stráka sem við höfum inn í starfið. Það eru hlutir sem þeir einir geta tekið að sér og þeim er alltaf raðað fyrst á sund- og íþróttaferðir. Nemendurnir þurfa líka að hafa karlkyns fyrirmyndir svo við tökum vel á móti þeim.“

Vinnuaðstaða nemenda.

Nú eru þessi börn að fá hér þá þjónustu sem þau þurfa yfir skóladaginn en hvað gera þau svo yfir sumartímann?

„Það kallast Ævintýrasmiðjan sem er úrræði á vegum Reykjanesbæjar yfir sumartímann. Það er komin reynsla á það og ég held að það sé þrískipt því börnin eru ekki öll á sama staðnum.

Svo erum við líka með eftirskólaúrræði, þannig að skólinn er búinn 13:20 og þá tekur við þetta eftirskólaúrræði og það eru ellefu nemendur hér í þessari Frístund. Það eru ýmist starfsmenn sem hafa verið hér um morguninn eða nýir sem koma ofan úr skóla til að sinna Frístundinni og taka við til fjögur. Einhverjir nemendur hafa farið í 88-húsið þar sem er slíkt úrræði og svo fara einhverjir heim.

Það vantar í raun sterkara úrræði fyrir nemendur af því það segir að börnin eigi að vera í eftirskólaúrræði en maður er ekki alltaf sammála því. Það getur verið ókostur að vera alltaf í sama umhverfi og þau gera kannski ekki upp á milli hvað er skóli og hvað er Frístund. Hvar eru reglurnar? Hvað eru kennslugögn og hvað eru leikföngin? Einu sinni var það þannig að nemendur fóru út úr húsi þega skóladegi lauk og fóru annað í eftirskólaúrræði.

Þessi þáttur, umönnun fatlaðra, hefur tekið gríðarlega miklum breytingum síðustu áratugi.

„Já, sem betur fer – og ég held að þeir sem eru fatlaðir eigi heiðurinn af því. Þeir hafa tekið af skarið, stigið fram og sagt frá sinni reynslu. Þannig hafa þau opnað okkar augu, ég hef persónulega alla vega lært mest af þeim einstaklingum. Þó þú sért með góðan grunn í menntun þá kemur reynslan með því að hlusta á einstaklingana. Maður þarf alltaf að vera á tánum að gera betur og í takt við hvað er eðlilegt fyrir fatlaðan einstakling. Af því að það er alltaf markmiðið hér að þau fari héðan með breitt bak og flestöll fara þau í fjögur ár í úrræði í Fjölbraut (FS) en síðan er ekkert meira í boði. Og ef maður nær að byggja upp gott sjálfstraust hjá þeim, að þau þekki hver munurinn er á réttu og röngu eða geta sagt nei við óæskilegri hegðun eða einhverju álíka, þá er maður sáttur,“ sagði Linda að lokum.