Við erum ekkert að flækja þetta
- segir Steini, aðalsöngvari hljómsveitarinnar Midngiht Librarian
Hljómsveitin Midnight Librarian hélt tónleika í Hljómahöll 26. ágúst síðastliðinn. Uppselt var á tónleikana en hljómsveitin tók lög af plötunni sinni í bland við nýtt efni og ábreiður af lögum sem allir þekkja við góðar undirtektir viðstaddra.
Midnight Librarian er átta manna hljómsveit en flestir hljómsveitarmeðlimirnir koma af Suðurnesjum. Þá kom bandið fyrst fram formlega undir nafninu Midnight Librarian fyrir ári síðan með útgáfu fyrstu plötu sinnar, From birth til Breakfast. Tónlist þeirra er fjölbreytt en hún er einhverskonar blanda af poppi, funki, r&b og djassi. Á tónleikunum kom hljómsveitin fram ásamt tíu öðrum „session leikurum“.
Þorsteinn Helgi Kristjánsson er aðalsöngvari hljómsveitarinnar ásamt Diljá Pétursdóttur. Steini segir ánægju ríkja í hópnum eftir tónleikana. „Við erum mjög ánægð með hvernig þetta fór. Þetta var mjög vel heppnað og ég er ánægður með að við fylltum salinn og var glaður með að sjá fólk labba út hamingjusamt,“ segir Steini. Þá segir hann hógværð og skynsemi vera mikilvæga í svo stórum hóp. „Það er mikilvægt að vera með hógværð og skynsemi til þess að vita hvar þú stendur og hvert þitt hlutverk er. Til þess að það verði ekki rígur á milli manna þá eru menn bara með sínar stöður og þeir sinna sínu. Við vinnum þess vegna mikið í pörtum og vinnum úr hlutunum án þess að vera með vesen,“ segir Steini. Aðspurður hvernig hljómsveitin varð til segir hann: „Við erum í raun og veru búin að kynnast í gegnum tónlist. Sem dæmi þekkti ég ekki helminginn af hljómsveitinni áður en við byrjuðum að vinna saman. Ég og bróðir minn byrjuðum og við kynntumst píanóleikaranum því þeir höfðu verið að spila saman og svo voru vinir vina sem bættust við. Við búin að spila saman mestmegnis síðan 2019 og þetta er allt svo almennilegt og fínt fólk. Allir skilja sitt hlutverk og allir eru vinir. Við erum ekkert að flækja þetta.“
Hvað er framundan hjá Midnight Librarian?
„Það verður mikið um að vera hjá okkur á Ljósanótt. Við erum að spila á tónleikunum Í Holtunum heima á föstudeginum, bókasafninu á laugardeginum klukkan 15:00, á götupartýsviðinu á laugardeginum klukkan 17:00, við verðum líklega á Paddy’s á laugardagskvöldinu líka og svo munum við spila á Petite á sunnudeginum. Í vetur er síðan fullt af nýju efni væntanlegt. Ég vil stefna að því að gefa út annað lag á þessu ári, kannski tvö. Við ætlum líka að reyna að spila svolítið mikið á Airwaves sem verður seinna á þessu ári, hvort sem það verður „on-venue“ eða „off-venue“. Við ætlum að reyna að spila eins mikið og við getum meðan stemningin er í gangi. Ég hef engan áhuga á því að stoppa.“
Uppselt var á tónleikana og voru gestir hæstánægðir með skemmtunina. Myndir af gestum í hléi má sjá hér að neðan.