Við erum að sjá hvernig samfélag við getum verið ef allir leggjast á eitt
Halla Karen Guðjónsdóttir er umsjónarkennari í Myllubakkaskóla og viðburðarstjóri ásamt alls konar öðru skemmtilegu.
– Hvernig varðir þú páskunum?
Ég varði páskunum með fjölskyldunni minni heima hjá mér. Púslaði, borðaði góðan mat, spilaði, föndraði og hafði gaman.
– Hvernig páskaegg fékkstu og hver var málshátturinn?
Ég keypti Kóluspáskaegg til styrktar lítilli fótboltafrænku, málshátturinn var: „Gamlir búmenn bila síst.“
– Hvaða aðferðir ertu að nýta til að eiga í samskiptum við fólk?
Ég hef verið að nota hefðbundin símtöl og myndsímtöl. Hef notað Zoom mikið bæði í vinnunni og til einkanota en er að færa mig yfir á Teams í vinnunni.
– Ef þú fengir bara að hringja eitt símtal í dag, hver fengi það símtal og hvers vegna?
Ég myndi hringja í pabba minn, við tölumst við marg oft á dag um allt og ekkert. Ég ætti mjög erfitt með að fá bara eitt símtal á dag, það yrði þá mjög langt geri ég ráð fyrir.
– Hvernig ertu að upplifa nýjustu tíðindi um að það muni jafnvel taka margar vikur inn í sumarið að aflétta hömlum vegna COVID-19?
Mér finnst það mjög erfitt, ég er mikil félagsvera og elska að vera með fólki og skipuleggja viðburði fyrir fólk. Það er mér því mjög erfitt að vita til þess að þeir viðburðir sem ég hef verið að vinna að verði jafnvel ekki og eins að vita til þess að utanlandsferðirnar sem voru planaðar séu foknar út í veður og vind. En á sama tíma sýni ég því mikinn skilning og reyni að plana ferðalög innanlands í staðinn.
– Hvaða lærdóm getum við dregið af heimsfaraldrinum?
Þegar stórt er spurt ... Ég held að það sé mjög margt sem við getum lært og ég held að það eigi eftir að taka okkur nokkurn tíma að átta okkur á öllu því sem við getum lært af þessu ástandi en fyrst og fremst held ég að við séum að sjá hvernig samfélag við getum verið ef allir leggjast á eitt og ég held að við ættum að gera meira af því þrátt fyrir að samkomubanninu verði aflétt.
– Ertu liðtæk í eldhúsinu?
Já, já. Ég get alveg verið það en maðurinn minn, Arnar, sér um mest allt í eldhúsinu.
– Hvað finnst þér virkilega gott að borða?
Kjúkling og meðlæti.
– Hvað var í páskamatinn?
Lambahryggur og tilheyrandi.
– Hvað finnst þér skemmtilegast að elda?
Fylltar, beikonvafnar svínalundir og fylltar kartöflur eða Ljósanætursúpuna okkar Arnars. Ætli það snúist ekki meira um stemminguna heldur en skemmtilegheitin?
– Hvað var bakað síðast á þínu heimili?
Trölladeig en til manneldis var það Betty Crocker súkkulaðikaka.
– Ef þú fengir 2000 krónur. Hvað myndir þú kaupa í matinn?
Tilbúin heilann kjúkling í Nettó.
– Hvað hefur gott gerst í vikunni?
Fréttir um það að skólastarf fari í venjulegt horf 4. maí, það að faraldurinn hafi náð hápunkti hér á landi og dóttir mín byrjaði að lesa.
– Hvað hefur vont gerst í vikunni?
Að við þurfum að búa áfram við miklar hömlur, jafnvel út árið og stúlkan sem fannst látin í Reykjavík.
– Hvaða spurningu hefðir þú viljað fá að svara í þessu viðtali? Hver er spurningin og svarið við henni?
Ef hægt væri að gleðja þig með einhverjum hætti í samkomubanni, hvernig væri best að gera það?
Með því að senda mér fullt af gleðilegum bréfum og setja í póstkassann.
MARGT FLEIRA Í FJÖLBREYTTUM 76 BLS. VÍKURFRÉTTUM VIKUNNAR