„Við eigum ekki að spila bara á eitthvað eitt“
Þriðja bók Árelíu Eydísar, en jafnframt fyrsta skáldsagan, hefur heldur betur slegið í gegn.
Keflvíkingurinn Árelía Eydís Guðmundsdóttir situr sjaldan auðum höndum og hefur hjálpað og ráðlagt fjölda fólks í gegnum árin með skrifum sínum, rannsóknum og ráðgjöf. Í sumar kom út fyrsta skáldsaga Árelíu, Tapað fundið, sem nýtur mikilla vinsælda og trónir víða á toppi sölulista bókaverslana.
„Fólk hefur verið að hafa mikið samband við mig, bæði í einkaskilaboðum á Facebook og í tölvupósti. Ég hef verið mjög hissa á hversu mikil viðbrögðin hafa verið. Fólk er almennt, sem betur fer, að lýsa ánægju sína með bókina. Það er svolítið skemmtilegt að fólk tekur svo misjafna hluti úr bókinni. Þetta eru konur og karlar, fólk á öllum aldri. Fólk finnur sig í mismunandi aðstæðum. Sumum finnst ákveðinn boðskapur vera í bókinni og öðrum einhver annar,“ segir Keflvíkingurinn Árelía Eydís Guðmundsdóttir.
Erum of föst í einu hlutverki
Bókin fjallar um lögfræðinginn Höllu Bryndísi sem fær í hendurnar ranga ferðatösku þegar hún lendir í London og mikilvægir fundir framundan. Hún situr uppi með allt annan fataskáp en sinn eigin og samhliða því sem fylgst með Höllu Bryndísi leita út fyrir þægindaramma sinn með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Árelía segist hafa gaman að því að fjalla um það hvernig fólk getur nýtt möguleika sína og tækifæri. „Og þennan þroska sem við erum öll að glíma við. Ef ég myndi bara segja það þá myndi það ná yfir efni bókanna sem ég hef skrifað. Við erum svolítið litróf, við eigum ekki að spila bara á eitthvað eitt. Við höfum miklu fleiri möguleika. Við eigum það til að festast svo mikið í einu hlutverki. Við þurfum að nýta lífið með þeim hætt að við skilum ólíkum hlutverkum.“
Leyfi sér ólík skrif
Árelía hefur áður gefið úr tvær bækur, auk þess að skrifa greinar, pistla, bókakafla, stundað rannsóknir, við þróun mannauðs, veitt ráðgjöf á einstaklingsgrunni og með almennri fræðslu. Auk þess kennir Árelía leiðtogafræði við Háskóla Íslands. „Það er ekki leiðinlegt í mínu lífi,“ segir Árelía og hlær. „Öllu jöfnu er ég að skrifa um fræðilega hluti sem snúa að leiðtogum og svo er ég líka leyft mér að vera í skrifum sem eru mjög ólík, s.s. bækurnar og bloggið, sem eru mínar hugleiðingar,“ segir hún að lokum við biður fyrir góðar kveðjur til Suðurnesjamanna.