Mannlíf

Við búum öll á Íslandi
Laugardagur 22. september 2018 kl. 07:00

Við búum öll á Íslandi

Eru útlendingar velkomnir?

Ég frétti að Reykjanesbær væri búinn að ráða verkefnastjóra fjölmenningarmála og fannst það athyglisvert. Mig langaði að vita hvort fleiri bæir hér á Suðurnesjum væru almennt að huga að íbúum af erlendum uppruna í bæjarfélagi sínu með því að ráða sérstakan fulltrúa til þess og hafði samband við þrjá stærstu bæina; Reykjanesbæ, Grindavík og sameinað sveitarfélag Garðs og Sandgerðis. Afraksturinn fer hér á eftir. 


 

Hvernig gera Norðmenn?


Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Og bara svona af því að ég er svo fersk að utan, enda nýflutt heim aftur eftir að hafa verið búsett erlendis í sjö ár, í litlum bæ á stærð við Grindavík í Noregi, þá langaði mig að bera saman hvað Norðmenn gera og hvað Íslendingar gera til þess að hjálpa útlendingum að aðlagast og verða virkir þegnar í samfélaginu. Það er alltaf gaman að bera saman og athuga hvort eitthvað sé hægt að læra af nágrannaþjóðum okkar og líka af því að íslensk stjórnvöld eru svo oft að láta sig dreyma um norrænt velferðarþjóðfélag hér á landi. Það er spurning hvort þessi litli samanburður hér í blaðinu geti kennt okkur eitthvað nýtt?



Skrítin tilfinning að vera útlendingur


Auðvitað er það dálítið skrítið þegar þú flytur til annars lands, allt í einu ertu orðinn gestur og getur ekki tjáð þig eins og hinir sem eru í kringum þig. Þetta eru allt útlendingar finnst þér en í raun ert þú aðal útlendingurinn þangað til þú lærir málið sem þeir tala og vilt forvitnast betur um siðina í landinu þeirra. Maður er pínu sjálfhverfur í fyrstu en svo er að vera auðmjúkur og átta sig á því að það er maður sjálfur sem þarf að aðlagast þjóðinni en ekki hún þér. Það er galdurinn. Vera sveigjanlegur því einn daginn ferðu líklega heim til þín aftur og þá ertu reynslunni ríkari.

Útlendingar velkomnir


Að búa í Noregi kennir manni margt varðandi réttlæti kerfisins og umhyggju þess í garð þegnanna. Já, norsk yfirvöld líta á sig sem þjóna þjóðarinnar og taka það hlutverk alvarlega. Norðmenn eru opnir fyrir því að leyfa útlendingum að taka þátt í samfélaginu en þeir gera samt þá kröfu að útlendingurinn læri móðurmál landsins ef þeir vilja ná langt og að þeir virði þær reglur sem norskt samfélag hefur sett sér. Siðir og venjur í landinu eru kenndar um leið og fólk lærir málið. Norðmenn eru forvitnir og hafa gaman af því að taka viðtöl við útlendinga en í mörgum þessum viðtölum í sjónvarpi eða útvarpi, kemur fram að þrátt fyrir að fjölskyldan hafi búið í landinu í þrjá ættliði eða lengur þá kennir hún sig ávallt við gamla heimalandið sitt. Börn sem hafa fæðst í Noregi og eru með norskan ríkisborgararétt segjast samt vera pólsk, írönsk, pakistönsk, ja eða bara íslensk. Þetta er vegna þess að fólk frá sama landi tengist þéttar saman og býr til sínar eigin stundir þar sem allir geta talað móðurmálið sitt. Þeir halda jafnvel upp á þjóðhátíðardaginn sinn saman í heimahúsi og elda mat sem tilheyrir þeirra þjóð.  



Íslendingar þjappa sig einnig saman


Við gerum þetta einnig þegar við búum erlendis. Við sækjum yfirleitt í að hitta Íslendinga því við finnum hvað íslenska þjóðarsálin á margt sameiginlegt. Það er ekki bara íslenskt mál sem tengir okkur saman. Það er einnig hangikjötið og jólaölið, flatkökurnar og kleinurnar, sviðakjammarnir og auðvitað allt hitt. Ekki mál gleyma því sem hefur límt okkur saman sem þjóð undanfarin ár – en það er HM í fótbolta. Svo finnst okkur eilítið gaman að tala um þjóðina sem á landið sem við erum gestir í og hvernig þeir gera öðruvísi en við og að við séum auðvitað mun betri en þeir. Íslendingar geta alveg verið hrokafullir. Þannig að við erum ekkert öðruvísi en allir hinir útlendingar þegar við búum erlendis.



Siðir hverrar þjóðar


Þar sem við bjuggum voru margir Íslendingar, Pólverjar, fólk frá Balkanlöndum og að ógleymdum múslimum. Þetta getur orðið suðupottur en norsk stjórnvöld eru meðvituð um það og eru með áætlun. Þeir standa stöðugir í því að Noregur sé land heimamanna en gestir eru velkomnir og nauðsynlegir í atvinnulífið. Norðmenn styðja nýja íbúa á þann hátt að hvetja þá í norskt tungumálanám. Þegar við vorum gestir í landinu þeirra þá vildum við læra af þeim og sjá hvað þeir voru að gera. Þeir voru forvitnir um okkur af því að við erum Íslendingar, gamlir Norðmenn í augum þeirra, og tóku okkur í viðtöl í bæjarblaðinu og svona. Við horfðum með aðdáun á 17. maí þjóðhátíðarveisluhöld þeirra sem var ótrúlega flottur dagur með þátttöku allra bæjarbúa, ungra sem aldinna. Lúðrasveitirnar voru nokkrar sem spiluðu á götum úti. Næstum allar konur klæddust þjóðbúningi og slatti af karlmönnum einnig, meira að segja krakkar voru klæddir í þjóðbúning. Það er nefnilega siður að gefa fermingarstúlkum og sumum drengjum þjóðbúning í fermingargjöf. Norðmenn miðuðu yfirleitt allt við þennan dag, sumarbústaðaferðin var látin bíða, utanlandsferðin og hvaðeina.
Til þess að virkja betur útlendinga þá voru þeir hvattir til að vera með fræðslukvöld á bókasafninu en þá komu nokkrir fulltrúar hvers lands einu sinni í mánuði og buðu upp á tónlist, myndasýningu og heimagerða þjóðarrétti, allt ókeypis. Þeir kenndu jafnvel gestum að dansa þjóðdans. Þetta féll í góðan jarðveg og var leið til þess að sýna útlendingum virðingu og áhuga og auðvitað liður í að eyða fordómum í garð útlendinga sem eru ósköp venjulegt fólk eins og ég og þú. 


Marta Eiríksdóttir
blaðamaður