Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Við berum mikla ábyrgð á hamingju okkar
Marta Eiríksdóttir
Marta Eiríksdóttir skrifar
þriðjudaginn 5. maí 2020 kl. 07:03

Við berum mikla ábyrgð á hamingju okkar

Hamingjuhornið var mjög vinsæll vikulegur þáttur á Víkur-fréttum fyrir nokkrum árum. Þar fór Anna Lóa Ólafsdóttir, pistlahöfundur, á kostum þegar hún hjálpaði lesendum blaðsins að höndla hamingjuna eftir alls konar leiðum.
Kímnin sveif stundum yfir vötnum en kjarni málsins var að fá fólk til að leita leiða til að auka hamingju í eigin lífi. Pistlar Önnu Lóu fengu frábær viðbrögð lesenda og í framhaldinu ákvað hún að stofna Facebook-síðu sem nefnist Hamingjuhornið en þar eru fylgjendur yfir 11.000 talsins.

Nú fer Anna Lóa aftur á kostum með útgáfu nýrrar bókar sem hún gaf út rétt fyrir páska. Bókin nefnist Það sem ég hef lært og inniheldur fróðlegt efni sem getur stuðlað að hamingju lesenda. Það sérstaka við þessa útgáfu er að Anna Lóa ákvað að gefa bókina út sjálf, frjáls og óháð, og var í sendlaferð um Suðurnes með bækur sínar rétt fyrir páska þegar blaðakona Víkurfrétta rakst á hana. Úr varð þetta viðtal.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hamingjuhornið er mjög vinsælt

Anna Lóa Ólafsdóttir starfar í dag sem atvinnulífstengill og sérfræðingur hjá VIRK Starfsendurhæfingarsjóði. Hún hefur breiða framhaldsmenntun að baki, er lærður kennari, náms- og starfsráðgjafi og með diplóma í sálgæslu.

„Í Hamingjuhorninu er að finna mörg hundruð pistla en Facebook-síðan er með traustan fylgjendahóp sem telur um 11.000 lesendur. Bókin mín, Það sem ég hef lært, er byggð að hluta á því sem ég hef skrifað í Hamingjuhornið þannig að fólk getur flett upp á þeim málefnum sem eiga við hverju sinni, hvort sem það eru hversdagslegar áskoranir eða stærri verkefni. Við erum alltaf að fá einhver verkefni í lífinu og þurfum að uppfæra viðbragðsbúnaðinn okkar reglulega. Við berum mikla ábyrgð á hamingju okkar jafnt sem óhamingju. Ég hugsaði bókina sem uppflettibók – þú getur flett upp á því sem talar við þig þann daginn og von mín er að bókin höfði til allra sem eru tilbúnir að horfa inn á við,“ segir Anna Lóa.

Langþráður draumur að rætast

„Með útgáfu bókarinnar er að rætast langþráður draumur sem mér finnst mjög ánægjulegt.

Þessi bók flokkast sem uppbyggileg lesning en aldrei er nóg af þannig bókum á íslenskum bókamarkaði. Þessi bók er því viðbót inn í þá flóru en sjálf hef ég leitast eftir þannig efni þegar ég hef þurft á að halda. Reynsla mín sem pistlahöfundur hjá Víkurfréttum á árum áður reyndist mér mikilvæg hvatning enda mikill áhugi lesenda á þessu efni. Ég vil líka endilega koma því á framfæri að það var frábært að skrifa vikulega fyrir Víkurfréttir í tvö ár – þar varð Hamingjuhornið til. Enn þann daginn í dag eru Suðurnesjamenn duglegir að lesa pistlana mína og núna um páskana byrjaði ég á því að dreifa bókunum mínum á Suðurnesjum, til þeirra sem höfðu pantað eintak í forsölu.“

Námskeið og fyrirlestrar framundan

„Það er gaman að segja frá því að langflestar ljósmyndir í bókinni eru teknar af Ellert Grétarssyni, einstaklega fallegar ljósmyndir eins og hans er von og vísa. Bókin hefur strax fengið mjög góðar viðtökur. Framundan hjá mér er að koma bókinni til lesenda vítt og breitt um landið. Hún verður fyrst um sinn seld á vefnum hamingjuhornid.is en svo langar mig líka að fylgja bókinni eftir með námskeiðum, fyrirlestrum og fleiru skemmtilegu,“ segir Anna Lóa.

Anna Lóa og útvarp K100

„Ég hef verið að dreifa hamingjukornum með vinum mínum á K100 í þættinum Ísland vaknar. Tilgangurinn er alltaf sá sami – að við lítum inn á við og séum ekki að bíða eftir því að einhverjir aðrir eða eitthvað annað færir okkur hamingjuna á silfurfati. Ég finn mig vel í að láta gott af mér leiða og neita því ekki að þegar vel tekst til og maður finnur að maður getur haft jákvæð áhrif á aðra er vinnan meira gefandi. Svo verður maður líka að muna að fólk „blómstrar“ á mismunandi hátt og árangur hjá einum er ekki það sama og hjá öðrum. Áhrifin sem maður hefur á aðra koma mishratt og misvel í ljós og því á takmarkið ávallt að vera, að vanda sig sem fagmaður án væntinga um einhvern ákveðinn árangur og trúa því að það skili mestu,“ segir Anna Lóa og bætir við í lokin: „Mig langar að þakka fyrir móttökurnar kæru Suðurnesjamenn og aðrir landsmenn. Ég er jákvæð að eðlisfari en óraði ekki fyrir þeim viðbrögðum sem bókin mín hefur fengið.“