Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Við áramót: Tónlistarmaðurinn áberandi
Ragnheiður með fyrstu „hraunhelluna“ ásamt Eðvarð Júlíussyni við upphaf framkvæmda við nýtt hótel Bláa lónsins,
Fimmtudagur 1. janúar 2015 kl. 14:00

Við áramót: Tónlistarmaðurinn áberandi

Ragnheiður Elín gerir upp árið 2014 og horfir til framtíðar

Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra viðurkennir að úrslit kosninga í Reykjanesbæ hafi verið henni talsverð vonbrigði á árinu 2014. Á árinu sem er að hefjast ætlar Ragnheiður að gefa sér meiri tíma með fjölskyldunni og huga betur að heilsunni.

Hvað stóð upp úr í fréttum ársins 2014 á Suðurnesjum?
Eðli málsins samkvæmt voru sveitarstjórnarkosningar og úrslit þeirra fyrirferðarmiklar, enda breytingar í flestum sveitarfélögum á Suðurnesjum. Þær ásamt jákvæðum fréttum af atvinnuuppbyggingu á svæðinu hafa staðið upp úr.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hvaða Suðurnesjamaður var mest áberandi að þínu mati þetta árið?
Það er alltaf erfitt að gera upp á milli manna og mér finnst kannski „tónlistarmaðurinn“ frá Suðurnesjum hafa verið sérstaklega áberandi á árinu. En ef ég á að nefna einn held ég að Valdimar verði fyrir valinu, sá frábæri tónlistarmaður sem er svo sannarlega kominn í úrvalsdeild íslenskra tónlistarmanna.

Hvað var það jákvæðasta sem gerðist á árinu?
Það var fjölmargt og má nefna alla þá mikilvægu áfanga sem náðust í atvinnuuppbyggingu hér á Suðurnesjum. Þar má nefna undirritun fjárfestingasamnings við Algalíf í janúar og vígslu verksmiðjunnar í haust, fjárfestingasamning og fyrstu skóflustungu kísilvers United Silicon í Helguvík, undirritun fjárfestingasamnings við Thorsil um byggingu kísilvers í Helguvík, byggingu gagnavers Advania á Fitjunum, uppbygging í Flugstöðinni vegna gríðarlegrar fjölgunar ferðamanna og fjölgunar áfangastaða og flugfélaga, fyrstu „hraunhelluna“ sem ég tók með Eðvarð Júlíussyni við upphaf framkvæmda við nýtt hótel Bláa lónsins, stækkun Carbon Recycling í Svartsengi, uppbygging Stolt Seafarm. Og svo mætti áfram lengi telja.

En það neikvæðasta?
Ég vil ekki dvelja við það neikvæða en get þó viðurkennt að úrslit sveitarstjórnarkosninganna í Reykjanesbæ í vor voru mér mikil vonbrigði.

Hvað stóð upp úr persónulega hjá þér á þessu ári?
Persónulega var þetta mjög gott ár – allir hraustir og heilbrigðir sem ég þakka fyrir alla daga. Af minnisstæðum atburðum get ég nefnt að eiginmaðurinn varð fimmtugur og hélt upp á það með pompi og prakt, frumburðurinn varð Íslandsmeistari í minnibolta með Keflavík og yngri sonurinn byrjaði í skóla. Það stendur sannarlega upp úr.

Ætlar þú að strengja áramótaheit?
Ég hét því í fyrra að taka mig á í ræktinni og hef staðið við það – nú ætla ég að einbeita mér að matarræðinu. En almennt ætla ég að gera eins og ég geri alltaf, að heita því að gera betur á þessu ári en ég hef gert áður og leggja mig aðeins meira fram í því sem ég tek mér fyrir hendur. Ég ætla líka að passa upp á að taka frá meiri tíma til að sinna fjölskyldunni.

Hvað breytingar viltu sjá á Suðurnesjum á nýju ári?
Ég vil sjá áframhaldandi framfarir á nýju ári, að fleiri atvinnuverkefni sem unnið hefur verið að um margra ára skeið verði að veruleika. Ég vil sjá okkur Suðurnesjamenn standa saman um að byggja upp og tala upp svæðið okkar – hér eru endalaus tækifæri, góðar undirstöður, duglegt fólk og allt til alls.