Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

  • Við áramót: Stolt af kjarkmikla Suðurnesjamanninum
    Frá kosningavöku hjá Beinni leið í vor.
  • Við áramót: Stolt af kjarkmikla Suðurnesjamanninum
    Anna Lóa Ólafsdóttir
Þriðjudagur 30. desember 2014 kl. 11:10

Við áramót: Stolt af kjarkmikla Suðurnesjamanninum

– Anna Lóa Ólafsdóttir svarar áramótaspurningum Víkurfrétta

Anna Lóa Ólafsdóttir, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, vill sjá samstarf í bæjarstjórn þar sem velferð íbúanna er höfð að leiðarljósi. Hún vonast til að sjá ný atvinnutækifæri verða að veruleika „og svo aðal málið, að okkur takist að vinna okkur úr þeim fjárhagserfiðleikum sem við stöndum frammi fyrir og Sóknin verði okkar vegvísir inn í bjarta framtíð“. Anna Lóa svaraði nokkrum áramótaspurningum Víkurfrétta.

– Hvað stóð upp úr í fréttum ársins 2014 á Suðurnesjum?
Held að ég verði að segja fall sjálfstæðisflokksins eftir langa setu með hreinan meirihluta í bæjarstjórn Reykjanesbæjar. Kannski alveg eðlilegt að þetta standi upp úr hjá mér enda stóri hluti af mínu ári sem fór í bæjarstjórnarmálin og mikil áskorun að taka þátt í kosningum á þessum umbrotatímum í pólitík á Suðurnesjum.

– Hvaða Suðurnesjamaður var mest áberandi að þínu mati þetta árið?
Kjarkmikli Suðurnesjamaðurinn sem var tilbúin að stíga út fyrir þægindahringinn og láta ekki gamla vana né íhaldssemi binda sig á ákveðinn bás. Vá hvað ég er stolt af honum.  

– Hvað var það jákvæðasta sem gerðist á árinu?
Minnkandi atvinnuleysi á svæðinu er jákvætt þrátt fyrir langa bið eftir stórum atvinnutækifærum. Frábærir íþróttamenn og allt tónlistarfólkið okkar minnir á kraftinn sem hér býr, jákvæðir einstaklingar og frumkvöðlar sem gefa lífinu lit og leikfélagið fær sérstakt hrós frá mér fyrir að minna okkur á að taka hvorki okkur né lífið sjálft of alvarlega. Viljandi skauta ég framhjá pólitíkinni hér – leyfi þessu að snúast um fólkið í bænum.

– En það neikvæðasta?
Hér verð ég að nefna pólitíkina en mér fannst afar neikvætt þegar fólk féll í þann pytt í kosningabaráttunni að úthúða fólki á persónulegum nótum – sama hvar í flokki það stóð. Hefði ekki trúað þessu að óreyndu og held að við ættum að skoða það sem samfélag hvernig við viljum vera í stað þess að benda endalaust á náungann. Þarft ekki að slökkva ljós annarra til að þitt skíni skærar er mitt mottó! Af hverju ætti ALLT að vera leyfilegt í svona baráttu – það er ofar mínum skilningi.
Bið eftir stóriðju er orðin allt of löng og vonbrigði að lítið skildi haggast í þeim málum. Vona að skóflustunga fyrir nýtt Kísilver skili sér alla leið.

– Hvað stóð upp úr persónulega hjá þér á þessu ári?
Útskrift hjá syni mínum úr flugvirkjanámi, útskrift mín úr sálgæslunáminu, fimmtugsafmæli og pólitíkin. Hélt eina allsherjar veislu í sumar þar sem öllum þessum áföngum var fagnað með fjölskyldu og vinum og mun sú veisla varðveitast vel í minningarbankanum.

– Ætlar þú að strengja áramótaheit?
Passa vel upp á andlega og líkamlega heilsu á sama tíma og ég held áfram að standa við þau loforð sem ég gaf vorið 2014 en sem forseti bæjarstjórna er mitt hlutverk ekki síst að hafa jákvæð áhrif á bæjarstjórn sem leiðir vonandi af sér samvinnu hópsins íbúum til heilla. Öll hljótum við að bera hag Reykjanesbæjar fyrir brjósti og því má þetta ekki snúast um stjórnmálamennina – Fyrir fólkið í bænum, var mottóið okkar hjá Beinni Leið og ég mun leggja mitt af mörkum til að halda því þannig. Ég hef alltaf sagt og segi það eina ferðina enn að við sem veljumst í þessi verkefni verðum að stíga fram með fordæmi og vera hvatning fyrir íbúana. Ég hef trú á því að okkur muni takast það - sama hvar í flokki við stöndum. Allir komnir með nóg af átakapólitík.

– Hvað breytingar viltu sjá á Suðurnesjum á nýju ári?
Ég vil sjá samstarf í bæjarstjórn þar sem velferð íbúanna er höfð að leiðarljósi. Vona að við sjáum ný atvinnutækifæri verða að veruleika og svo aðal málið, að okkur takist að vinna okkur úr þeim fjárhagserfiðleikum sem við stöndum frammi fyrir og Sóknin verði okkar vegvísir inn í bjarta framtíð. Hér býr harðduglegt fólk og verkefnin sem við höfum áður staðið frammi fyrir hafa verið mörg. Hef trú á því að við komumst í gegnum þetta eins og annað sem hefur reynt á okkur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024