Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Við áramót: Ný atvinnutækifæri á Suðurnesjum
Miðvikudagur 31. desember 2014 kl. 16:00

Við áramót: Ný atvinnutækifæri á Suðurnesjum

Silja Dögg þingkona Framsóknarflokks svarar áramótaspurningum VF

Silja Dögg Gunnarsdóttir þingkona Framsóknarflokksins, þorði loks að skella sér í sjósund á árinu sem er að líða. Að hennar mati bar það helst til tíðinda árið 2014 að skóflustunga var tekin að kísilveri í Helguvík og þær breytingar sem urðu á bæjarstjórnum á Suðurnesjum.

Hvað stóð upp úr í fréttum ársins 2014 á Suðurnesjum?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Bæjarstjórnarkosningarnar standa þar upp úr en þó nokkrar breytingar urðu á bæjarstjórnum sveitarfélaganna á svæðinu. Skóflustunga tekin að langþráðu kísilveri í Helguvík.

Hvaða Suðurnesjamaður var mest áberandi að þínu mati þetta árið?

Ætli það sé ekki nýi bæjarstjórinn í Reykjanesbæ, Kjartan Már Kjartansson.

Hvað var það jákvæðasta sem gerðist á árinu?

Skuldaleiðrétting ríkisstjórnarinnar. En hvað Suðurnesin varðar þá hafa skapast ný atvinnutækifæri á árinu, m.a. gangsetning þörungaverksmiðjunnar Algalíf á Ásbrú, gangsetning nýs gagnavers, fjárfestingasamningar við kísilframleiðendur sem hyggjast hefja starfsemi í Helguvík og gríðarleg uppbygging í kringum Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Svo hefur fiskeldið hjá Stolt Sea Farm gengið vel, þannig að ég er nokkuð bjartsýn á framhaldið. Fjárhagsstaða Reykjanesbæjar er hrikaleg en jákvæðu fréttirnar eru þó þær að loksins hafa menn ákveðið að horfast í augu við hana og breyta stöðunni. Að lokum fagna ég velgengni Framsóknarmanna í Sandgerði í bæjarstjórnarkosningunum í vor.

En það neikvæðasta?

Álag á félagsþjónustuna hefur aukist verulega í Reykjanesbæ þar sem allt of margir er enn án atvinnu  og hafa það alls ekki gott. Ég hefði líka viljað sjá hlutina breytast hraðar hvað varðar húsnæðismálin en ég á von á að tíðinda sé að vænta fljótlega á næsta ári hvað þau mál varðar. Slakt gengi Framsóknar í Reykjanesbæ í kosningunum í vor olli mér gríðarlegum vonbrigðum og ég hefði líka viljað fá fleiri atkvæði í Grindavík yfir til Framsóknar.

Hvað stóð upp úr persónulega hjá þér á þessu ári?

Ég þorði að fara í sjósund sem ég hélt að ég myndi aldrei gera. Og það besta var, að mér fannst það frábært.

Ætlar þú að strengja áramótaheit?

Nei en ég hugleiði þó alltaf mikið um áramótin. Fer yfir liðin ár, reyni að setja hlutina í samhengi og sjá fyrir mér komandi ár. Það má því segja að ég taki stefnuna, en strengi ekki beint heit.

Hvað breytingar viltu sjá á Suðurnesjum á nýju ári?

Ég vil sjá viðsnúning á fjárhagsstöðu Reykjanesbæjar og Sandgerðisbæjar. Ég óska þess líka að fleiri atvinnutækifæri skapist og að atvinnuuppbygging fari loksins af stað í kringum Helguvík af fullum krafti. Síðast en ekki síst ber ég þá von í brjósti að kjör fólks batni, að allir hafi vinnu, eigi heimili, líði vel og geti horft bjartsýnir til framtíðar.