Mannlíf

Við áramót: Í heimsreisu með eiginmanninum
Sunnudagur 30. desember 2018 kl. 10:00

Við áramót: Í heimsreisu með eiginmanninum

Rannveig Lilja Garðarsdóttir tók stóra ákvörðun á árinu. Hún er lögð af stað í heimsreisu með eiginmanni sínum. Hún seldi húsið sitt og keypti farmiða aðra leiðina til Tælands og er nú á ferðalagi um Asíu. Rannveig svaraði nokkrum spurningum frá Víkurfréttum.
 
Hvaða stendur upp úr í einkalífi þínu á árinu?
Það sem stendur upp úr í einkalífinu á árinu er hvað ég er þakklát fyrir að hafa áttað mig á að ég væri að byrja á nýju æviskeiði með öllum þeim kostum sem því fylgir. Ég ætla að njóta þess og nota það vel m.a. ætla ég að láta alla drauma mína rætast, allavega þá sem ég ræð við að láta rætast. Ég byrjaði árið á að bjóða upp á yoganámskeið heima í stofu og það var svolítið mikið dásamlegt í dimmum janúar, febrúar og mars. Annað sem ég gerði nýtt á árinu var að ég gekk í Oddfellow regluna og hlakka mikið til samverunnar með því góða fólki.
 
Fagnaðir þú ákveðnum áfanga eða byrjaðir þú á einhverju nýju 2018?
Við hjónakornin tókum stóra ákvörðun á árinu. Eftir nokkurra ára vangaveltur ákváðum við að fá okkur eins árs frí frá vinnu, seldum húsið okkar, keyptum okkur litla íbúð og farmiða aðra leiðina til Bangkok í Tælandi. Við ætlum að ferðast um Asíu fram á vor. Við lögðum af stað 3. nóvember og erum búin að vera í Tælandi í mánuð og erum núna á Filippseyjum á leiðinni til Malasíu. Við erum með Facebooksíðu sem ber nafnið „Staðið uppúr sófanum“ fyrir vini, kunningja og alla þá sem hafa áhuga á að fylgjast með þessu ferðalagi. 
 
Hvað fannst þér stóra fréttin á landsvísu? 
Klausturbars málið því ég held að bæði almenningur og stjórnmálafólk eigi eftir að læra margt af því. Mér fannst líka áhugavert og mjög neikvætt að það skuli enn standa til að starta upp kísilveri í Helguvík eftir allt sem á undan er gengið og vona innilega að það verði ekki af því. 
 
Hvað fannst þér stóra fréttin í nærumhverfi þínu?
Hversu lánsöm við hjónin erum því við eigum litríka, fjölbreytta og fallega fjölskyldu. Það er svo ótrúlega gaman að fylgjast með barnabörnunum sem eru að vinna sigra á hverjum degi hvort sem það er sá ársgamli að taka fyrstu skrefin sín eða sá 8 ára einhverfur sem er að læra að fóta sig í lífinu. Stelpuhnokki sem spilar fótbolta með KR, knár drengur sem elskar að veiða, annar sem hugsar einsog heimspekingur og leysir þrautir á methraða og svo eigum við mikið í einni lítilli systurdóttur sem dansar, syngur og bræðir alla í kringum sig.
 
Hvað ætlar þú að borða um áramótin?
Það verður eitthvað gott að hætti þeirra þarna í Malasíu því trúlega verðum við nálægt Kuala Lumpur um áramótin.
 
Eru einhverjar áramóta / nýárshefðir hjá þér?  
Áramótahefðirnar hafa breyst með árunum. Í mörg ár var alltaf borðuð purusteik að hætti húsbóndans og humar í hvítlauksrjómasósu í forrétt sem er algjört lostæti. Nú í seinni tíð hefur þetta breyst í að borða góða nautasteik og jafnvel hnetusteik fyrir húsmóðurina.
 
Strengir þú áramótaheit?
Já ég strengi áramótaheit og það snýr alltaf að sjálfri mér. Ég set mér einskonar umhugsunar - verkefni sem ég reyni að hafa í huga allt árið og fer svo yfir það að ári liðnu og athuga hvernig mér hefur tekist og laga það ef þarf.
Public deli
Public deli